mánudagur, janúar 30, 2012

Fólk hefur mismunandi skoðanir á ýmsum málum sem betur fer. Mér líkar misjafnvel við skoðanir fólks og fólk hefur vafalaust mismunandi skoðanir á mínum skoðanir. Sem betur fer hefur maður möguleika á að halda fram skoðunum sínum og vinna þeim fylgi. Það hafa aðrir líka. Stundum eru skoðanir fólks hins vegar þannig að það liggur við að manni falli allur ketill í eld. Ein slík grein var í Fréttablaðinu í dag (30. janúar). Þá er sagt frá fyrirlestri sem náttúrufræðingur nokkur hélt á ráðstefnu þar sem m.a. var fjallað um málefni Þingvalla. Tillögur náttúrufræðingsins voru töluvert róttækar og þess eðlis að ég er vægt sagt ósammála þeim. Ein af tillögunum var að eyða öllum "erlendum" trjágróðri úr friðlandinu. Það yrði ekki skortur á fyrirsögnum í fjölmiðlum ef einhver myndi fara fram með þá skoðun sína að það ætti að reka alla íbúa landsins úr landi sem hefðu það eitt til saka unnið að vera af erlendu bergi brotnir. Þá yrði talað um fasisma, kynþáttahatur og ég veit ekki hvað og hvað. Viðkomandi yrði örugglega velt upp úr tjöru og fiðri í almennri umræðu. Á hinn bóginn þykir hreintrúarstefna í umræðu um náttúruna og náttúruvernd vera sjálfsagðar og til fyrirmyndar af ýmsum þeim aðilum sem hafa séð ljósið í þeim málum að eigin mati. Hinn svokallaði íslenski gróður er frekar fábreyttur og kyrkingslegur. Sérstaklega á þetta við um tré. Það sem hefur verið kallaður skógur hér í gegnum aldirnar eru kallaðir runnar hjá nágrönnum okkar og þykja ekki merkilegur pappír enda einskis nýtir. Náttúrufræðingurinn vill uppræta öll erlend tré sem hafa verið gróðursett á Þingvöllum eftir 1911. Engan erlendan gróður á þjóðvanginum. Ísland fyrir íslenskan gróður.

Rollugreyið á hins vegar ekki upp á pallborðið í þessari umræðu. Flytja skal þjóðgarðsgirðinguna að þjóðgarðsmörkum svo rollurnar nagi ekki upp til agna þann ræfilslega gróður sem finnst þarna. Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum. Leggja skal af veiðar á ref og mink innan þjóðgarðsins. Ef minkur verði drepinn þá skal það gert undir stjórn dýrafræðinga og framkvæma jafnhliða rannsóknir á stofnstærð dýranna og áhrifum veiðanna. Skyldi þessum sjálfskipuðu verndurum náttúrunnar vera illa við fugla? Hvað skyldi mófuglinn á Þingvallasvæðinu og í nálægum sveitum hafa gert fólki sem hefur þessar skoðanir? Hvað sem fólki finnst um mink og ref þá þurfa þessi kvikindi að éta eins og önnur dýr. Vor og sumar eru fuglarnir nærtækust fæða rándýra eins og refs og minks. Egg meðan þau finnast og síðan ungarnir. Það bjargar sér hver sem best hann getur. Ef refur og minkur verður látinn óáreittur þá stækkar stofninn með ævintýralegum hraða, slík er viðkoman. Stærri stofn þarf meira að éta. Þegar hann er búinn að hreinsa Þingvallasvæðið þá leitar hann út í nágrennið. Vitaskuld. Heldur fólk virkilega að refur og minkur sé svo staðbundinn að það sé hægt að friða hann akkúrat innan þjóðgarðsins og hann lifi þar á loftinu einu?

Í hitteðfyrra fór ég inn í Þjórsárver með Ferðafélagi Íslands. Ég heyrði þeim skoðunum fleygt í rútunni inneftir að fólk skyldi ekki því afhverju refurinn á Þingvöllum væri ekki friðaður. Ég gat ekki orða bundist og spurði þetta vísa fólk hvort það héldi að refurinn þyrfti ekkert að éta og að hann væri staðbundinn eins og hundur bundinn við bæjarhellu. Þessu var vitaskuld ekki svarað því fávísir menn eru yfirleitt ekki virtir viðlits. Náttúrufræðingurinn er á þeirri skoðun að það eigi að breyta stjórnun Þjóðgarðsins á Þingvöllum og setja hann undir faglega stjórn umhverfisráðuneytisins. Þá er björninn unninn fyrir ref og mink en grenitrén og furan munu líklega fjúka.

Umhverfisráðuneytið friðaði refinn á Hornströndum fyrir um 20 árum síðan með einni tilskipun án nokkurs stöðumats eða eftirfylgni með rannsóknum fyrr en seint um síðir. Á Hornströndum er allur mófugl horfinn og björgin skemmd þar sem refurinn getur farið um. Það hefur sýnt sig að refurinn flæðir frá Hornströndum til annarra héraða því vitaskuld þarf hann að éta. Ríkið hefur hætt að leggja fjármang til refaveiða og lætur það alfarið á herðar svetiarfélaganna. Rökin eru þau að refurinn sé eldri landnemi á Íslandi en maðurinn og því hafi hann þann rétt til búsetu hér sem maðurinn eigi ekki að skipta sér af. Ef fyrirhugað er að koma upp álíka friðlandi fyrir ref og mink á Þingvöllum eins og á Hornströndum þá er vitað hvað muni gerast. Ruglið er alltaf heldur pirrandi en þegar yfir það er slegið kufli fræðimennskunnar þá er rétt að fara að vara sig.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á lúpínuumræðuna. Þeim skoðunum hefur verið haldið fram í alvöru það maður skynjar best að það eigi að fara í eitur herferð gegn lúpínunni. Þá eigi að úða eitri yfir gríðarleg landssvæði til að drepa lúpínuna. Maður trúir stundum ekki sínum eigin eyrum og svo er í þessu tilviki. Ég held að það sé full ástæða til að hafa allan vara á öfgaskoðunum, sama hvaðan sem þær berast og um hvaða málefni sem þær snúast.

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir nýtt ofurhlaup sem á að fara fram á Norðausturlandi dagana 25. ágúst til 1. september. Það er lagt upp með að vera 250 km langt og er hlaupið á nokkrum dögum. Leiðin verður endanlega ákveðin þegar fer að vora og verður hægt að fara vel um svæðið allt og mæla út leiðir. Það eru erlendir einstaklingar sem vinna með íslenskum ferðaþjónustuaðilum sem standa fyrir þessu. Ég hitti forsvarsmenn hugmyndarinnar og vonandi hlaupsins sl. haust. Það eru menn sem hafa marga fjöruna sopið í þessum málum og vita hvað þetta gengur út á. Þetta er stórt prósjekt sem þarf töluverðan mannskap til að framkvæma og standa að. Verið er að ganga frá heimasíðu fyrir hlaupið og opinber kynning á því mun eiga sér stað innan skamms. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast.

Engin ummæli: