Danir koma sterkir inn í ultrahlaupum í ár. Þetta sýnir betur en margt annað hvaða gróska er í þessum málum hjá nágrönnum okkar.
Í Kaupmannahöfn verður haldið 100 km hlaup þann 26. apríl. Það verður hlaupið í Kongsholmsparken á 10 km hring. Án efa þægilegt og einfalt. Einnig er hægt að hlaupa 60 km hlaup og einfalt maraþon ef menn vilja máta sig við styttri vegalengdir.
Í Stige i Odense sem við höfum góða reynslu af verður haldið 100 km hlaup þann 3. maí. Það er hlaupið á 5 km hring sem er breyting frá því sem áður var en þá var hlaupið á 10 km hring. Einnig verður hægt að haupa 50 km.
Á Borgundarhólmi verður haldið 6 tíma, 24 tíma og 48 tíma hlaup dagana 23. og 24. maí. Ég er búinn að skrá mig í 24 tíma hlaupið en Börkur Árnason og Ásgeir Elíasson er skráðir í 48 tíma hlaupið. Þetta er fínt hlaup og framkvæmdin í öruggum höndum Kim Rasmussens, þess mikla hlaupara.
Í Fredricia verður haldið 50 og 100 km hlaup þann 14. júní.
Ég veit ekki enn um Borgundarhólm seint í ágúst og Álaborg snemma í september. Kemur í ljós.
Það er sem sagt úr nógu að velja ef hlauparar vilja skreppa til Danmerkur og hlaupa langt. Kíki bráðlega á hvað Norðmenn og Svíar ætla að gera á árinu í þessum málum.
Það er ansi skemmtileg umræðan um húsin neðst á Laugaveginum og fróðlegt að sjá hvernig áhugasamir missa sig í umræðunni. Skyndilega eru þessi litlu, óásjálegu og lélegu hús orðin slíkar perlur að annað eins hefur ekki sést í byggingarsögunni, ef taka á mark á orðum sumra sem hafa látið ljós sitt skína á þessu sviði. Mér finnst að það ætti að rífa þau sem fyrst og byggja almennileg hús þarna sem rúma einhverja starfsemi sem bætir miðbæinn og neðsta hluta Laugavegar. Það var í sjálfu sér mjög fróðlegt að fá upplýsingar um reikninginn sem getur lent á borgarbúum ef tillögum húsafriðunarnefndar verði fylgt. Staða hennar er kapítuli út af fyrir sig. Að mínu mati á hún að segja af sér því hún er ekki starfi sínu vaxin. Það kemur í ljós bæði í umfjöllun um þetta mál og eins með húsin á Akureyri. Nefndin hefur haft allan heimsins tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri meðan málið hefur verið í umfjöllun í borgarkerfinu. Ef húsin eru svo verðmæt sem sögur fara af þá hefur nefndin ekki staðið vaktina. Ef nefndin hefur hins vegar metið það svo á fyrri stigum málsins að húsin mættu fara en lætur síðan undir þrýstingi á síðustu dögum fyrir rif þá er hún einnig ekki starfi sínu vaxin heldur sveiflast fyrir veðri og vindum.
Maður velti stundum fyrir sér ritstjórnarstefnu Kastljóss. Stundum er hún í lagi en stundum er hún fyrir neðan allar hellur. Hvaða erindi átti við almenning langt viðtal við dópista og dópinnflytjenda með dramatískum tónlistarinnslögum sem hafði síðan ekkert hafði fram að færa nema að hann státaði sig af því að segja ekki til aðalkallanna? Þetta er ekki í fyrsta sinn sem verið er að taka dramatísk viðtöl við dæmda glæpamenn í Kastljósinu á viðlíka nótum. Ég veit það bara að ég skil ekki svona og svo er um flesta sem maður heyrir tjá sig um þetta. Af hverju eiga þeir sem hafa einhvern tíma rambað inn á síður Séð og Heyrt að fá sérstaka meðhöndlun hjá fjölmiðlum og ekki síst ríkisfjölmiðlum? Mér er skítsama þótt þessi náungi segist vera burðardýr. Það var ekkert smá magn sem hann var með á sér. Hvað ætli tvö kíló af kókaíni geti rústað lífi margra unglinga? Hvernig ætli refsitíminn sé svo samsettur? Einhver vist á Hrauninu, einhver vist á Kvíabryggju og síðan reynslulausn. Skyldi gaurinn fá afslátt af skuldinni fyrir að vera tekinn?
fimmtudagur, janúar 10, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Komdu sæll Gunnlaugur.
Ég kíki stundum við hérna á síðuna þína, finnst gaman að lesa pistlana þína. Og líka til að forvitnast um hvernig þið ultrahlauparar æfið. Mér skilst að það sé svipaðar æfingar og hjá maraþonhlaupurum, þó með löngum hlaupum allt að 50 km ?
Mig langar að benda þér á nýtt íslenskt æfingadagbókarkerfi, sem ég hef verið að útbúa. Það er gaman að fá sem flesta félaga inn í kerfið, og gaman væri að fá þig með í hópinn. Nú eru þegar komnir 30 félagar á fáeinum dögum.
None-profit kerfi, ég er sjálfur að rembast í hlaupunum, og hef gaman að kera svona kerfi.
Hægt er fara inná kerfið með því að fara inná Hlaupasíðuna hlaup.is
Bestu kveðjur, Stefán Thordarson
Sæll Stefán.
Áhugavert að skoða og prufa kerfið. Ég fékk sent nýlega dæmi um utanumhald um æfingar sem ég ætla einnig að prufa og bir´ta á síðunni. Hvað æfingar fyrir ultrahlaup varðar þá þarf fyrir utan löngu hlaupin að aga sjálfan sig. Andinn er reiðubúinn en skrokkurinn er latur og hneigist til hóglífis. Slagurinn stendur um hver ræður. Niðurstaða í þessum slag þarf að liggja fyrir áður en lagt er í reglulega löng hlaup með algerum sigri andans því annars er hætta á ferðum þegar fer að harna á dalnum og klukkutímunum að fjölga, ég tala nú ekki um ef það eru dagar!!!
Skrifa ummæli