miðvikudagur, janúar 23, 2008

Æfingar eru svona upp og ofan. Tók 30 mínútna Ívar á mánudaginn. Fín æfing sem tekur í. Þarf að lengja hana smátt og smátt því hún er gríðarlega góð undirstaða undir göngur í brekkum. Tók 15 km í kvöld. Fór Poweratehringinn og Grensássslaufuna. Fínt hlaup og bara léttur enda þótt færið sé ekki upp á það besta.

Ég fékk fyrir stuttu boð um að mæta í Höfða í dag kl. 17.00. Þar var Afreks-og styrktarsjóður Reykjavíkur að úthluta styrkjum. Þarna var rjóminn af íþróttafólki Reykjavíkur samankominn, bæði forystufólk, þjálfarar og afreksfólk þannig að ekki var félagsskapurinn af verri endanum. Ég sá auglýsingu frá sjóðnum í síðasta mánuði og sótti um styrk úr honum vegna þátttöku í Spartathlon hlaupinu í haust. Maður fær ekkert ef maður reynir ekki. Í dag fékk ég svo úthlutað styrk úr þessum ágæta sjóð til að standa straum af kostnaði við að taka þátt í Spartathlon hlaupinu í Grikklandi í haust. Ég er afar ánægður með þessa viðurkenningu á ýmsa lund. Bæði er það náttúrulega mjög gott að þurfa ekki að klípa af heimilispeningunum til að kosta svona ævintýri en einnig og ekki síður er ég ánægður með að ofurmaraþon séu metin til jafns við aðrar íþróttir á þessum vettvangi. Það er líklega í fyrsta sinn hérlendis að það er gert. Kann ég forystumönnum ÍBR bestu þakkir fyrir þá viðurkenningu til handa íþróttagreininni sem slíkri. Þessi athöfn í Höfða mun hafa verið síðasta formlega embættisverk Dags B. Eggertssonar borgarstóra (að sinni eins og hann sagði).

Það hefur gengið ýmislegt á í borgarmálunum að undanförnu og ætla ég ekki að hafa skoðun á því utan einu atriði. Það er nefnilega hálf hjákátlegt að sjá fréttamenn æða um borgina og spyrja vegfarendur hvort eigi ekki bara að kjósa upp á nýtt þegar það er rækilega ákveðið í landslögum að það er einungis kosið til sveitarstjórna á fjögurra ára fresti. Það þarf ekki nema eitt símtal til að sleppa við svona misskilning.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með styrkinn.

Hvað er "30 mínútna Ívar"? Hvernig fer svoleiðis æfing fram?

Nafnlaus sagði...

Æfingin "Ívar" er kennd við Ívar Adolfsson, þann kunna garp. Hún er þannig að brettið er stillt á mesta bratta sem er líklega 15° og hraðinn má ekki vera undir ekki 6. Það þarf að ganga rösklega til að hafa við brettinu. Get lofað því að svitinn lekur af manni í stríðum straumum. Fín brekkuæfing á veturna.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með styrkinn og ert þú vel að honum kominn. Líka gaman að sjá að hlaup/íþrótt sem þessa komast á blað hjá þeim sem eru kannski ekki dagslega að fylgjast með ultra-hlaupum. Síaukin umfjöllun um hlaup á þessum mælikvarða að skila sér.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með styrkinn, glæsileg viðurkenning á því sem þú ert að gera.

Jana

Biggi sagði...

Frábært!
Til hamingju með styrkinn. Þú átt hann svo sannarlega skilið. Góð viðurkenning fyrir vaxandi íþróttagrein og þig sem ofurmann...

Hlaupakveðja,
Birgir S.

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju Gunnlaugur með þennan styrk. Maður fær ekkert ef maður reynir ekki, góður punktur hjá þér, einföld, en mikil sannindi.
Bestu kveðjur
Þorkell Logi

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir góðar kveðjur. Í mínum huga er þetta fyrst og fremst viðurkenning til handa vaxandi áhuga á ultrahlaupum af ýmsum toga.