Fínn túr í morgun. Við Gauti lögðum upp kl. 8.00 og hittum Neil, Jóa og Stebba við brúna kl. 8.30. Fórum yfir Kópavogshálsinn, upp Fífubrekkuna og suður að Vífilsstöðum. Tókum löngu brekkuna og upp að Elliðavatni, þaðan yfir að Rauðavatni, fram hjá Moggahúsinu og niður í Grafarvogsbotn. Þaðan fórum við upp að kirkjugarðinum, þverti yfir á göngustíginn, tókum slaufu í vestur og svo yfir brúna og heim. Alls 30 km í fínu vetrarveðri. Margir slóðar sem ég hafði ekki farið áður.
Það var skrítið viðtal við tvo að ég held rithöfunda í Kastljósinu í fyrradag. Ég átti í erfiðleikum með að skilja hvað var verið að ræða um svo ég hlustaði á það aftur á vefnum. Mér skilst að þau hafi skrifað bók og fengið hóp teiknara til liðsinnis til að láta okkur finna hvernig múslimum hefði liðið eftir að hafa séð teikningarnar í Jyllandspóstinum. Ég hef ekki lesið bókina en mér fundust myndirnar fara fyrir ofan garð og neðan og ekki vera á neinn hátt aggressivari en þær skopmyndir sem maður sér daglega í Mogganum eða 24 stundum. Margar heldur kauðslegar. Í vinnunni fannst mörgum mjög fyndið að rifja upp myndina af Bónusgrísnum að taka jólaköttinn aftan frá (eða var það víkingur). Menn hlógu að þessu en engum fannt þetta vera særandi eða móðgandi. Því var þetta algerlega misheppnað projekt hvað það markmið varðar. Annar rithöfundurinn sagði að allir hefðu talað um að Jyllandspósturinn hefði verið að verja tjáningarfrelsið en enginn minntist á frelsi múslimanna til að mótmæla sem hefði verið skert gróflega. Nokkrir hefðu meir að segja látist í mótmælunum án þess að það þætti fréttnæmt. Þessi náungi sleppti því náttúrulega að segja satt og rétt frá. Hið rétta er að Islamarnir fóru í herferð til múhameðstrúarríkjanna mörgum mánuðum eftir að teikningarnar birtust í JP og æstu fáfróðan og illa upplýstan lýðinn upp með upplögnum sögum og fölsuðum teikningum. Múgurinn réðist í framhaldi af því á sendiráð Danmerkur í mörgum löndum og her og lögregla var send á vettvang til að verja fólk og byggingar. Rithöfundurinn gleymdi einnig að minnast á það þegar hann var að býsnast yfir hinu skerta tjáningarfrelsi lýðsins þarna austur frá að árás á sendiráð jafngildir árás inn í viðkomandi ríki. Það er ekki verið að skerða tjáningarfrelsi þegar verið er að verja mannslíf sendiráðsstarfsmanna fyrir óðum skríl og koma í veg fyrir að hann geri innrás í erlent ríki. Þetta er svo sem vel þekkt aðferðafræði sjálfskipaðra menningarvita að það er einungis talað um það sem kemur málstaðnum vel en hinu sleppt. Starfsmaður sjónvarpsins talaði síðan tóma steypu í þættinum og hafði greinilega ekkert kynnt sér málin. Bendi henni á að lesa bókina Islamistar og naivistar. Í þessum þætti sátu þrír naivistar og bulluðu.
Ég hef séð tvær fréttir í erlendum blöðum á síðustu dögum sem skýra frá því að feður hafi drepið dætur sínar þegar þær reyndu að losna undan ógnarvaldi trúarofstækis múhameðstrúarinnar og reyndu að aðlagast vestrænum lifnaðarháttum. Hvenær ætla menn almennt hérlendis að opna augun fyrir þeim hrylling sem viðgengst innan þessara hópa í nafni trúarinnar. Í Bretlandi er talið að milli 60 og 70 þúsund stelpur séu umskornar á hverju ári. Vita menn hvað umskurður á stelpum er? Það mætti halda að fjölmenningarvitarnir hafi ekki hugmynd um það. Þeir myndu kannski átta sig á því hvers eðlis þessi verknaður er ef það væri gert við þá sjálfa.
Af hverju skýrir Mogginn ekki frá því að það var litháenskt glæpagengi sem réðist á lögregluna á Laugaveginum. Eru menn orðnir svo meðvitaðir í Hádegismóunum að það má ekki lengur tala um hlutina eins og þeir eru?
laugardagur, janúar 12, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Sæll Gunnlaugur
Enn tek ég til varna fyrir okkur meðvitaða fólkið.
Þegar maður fjallar um flókin mál er margs að varast. Ein grifjan sem gín við manni er "óvinir óvinar míns eru vinir mínir". Ég sé ekki betur Gunnlaugur en að þú sért farinn að bera blak af Ghaddafi, Assad og fleiri illmennum sem siga vélbyssusveitum á mótmælendur í ríkjum sínum. Þeir standa í stöðugri baráttu við íslamista sem "ógna stöðugleika í þessum heimshluta" og beita ekki alltaf geðslegum aðferðum í þeirri baráttu.
Það er holt að minnast þess að á tímum þorskastríðanna gafst enskum fjölmiðlum einmitt tilefni til að fjalla um æstan múg sem vann skemmdarverk á sendiráði hennar hátignar Elísabetar II. Það voru mótmæli við sendiráðið og einhverjir vitleysingar hentu grjóti inn um glugga og gott ef það slasaðist ekki lögga á meðan á þessu stóð. Sem betur fór datt engum í hug að senda vélbyssusveitir á vetvang en fjölmiðlar í Bretlandi drógu ekki af sér í umfjöllun um málið.
Varðandi glæpagengið sem réðst á lögreglumennina: Skv. fréttunum sem mér bárust, var a.m.k. einn Íslendingur þarna. Gerir það gengið ekki Íslensk – Lítháiskt?
Það væri gagnlegt að vita meira um þennan íslending. Hvernig lendir fólk í slagtogi við svona skríl? Skyldi vera hægt að koma í veg fyrir það? Þangað til ég er sannfærður um annað, tel ég ekki skipta máli úr hvaða bæjarfélagi hann er ættaður.
Nú er það hugsanlegt að umskurður á konum tíðkist eingöngu (eða aðallega) á meðal múslima í Skandinavíu, en það er ekki allsstaðar þannig. Skv. tölfræðiskýrslu frá UNICEF eru trúarbrögð ekki ráðandi þegar kemur að þessari villimennsku. "Looking at religion independently, it is not possible to establish a general association with FGM/C status." (bls. 10) og "…while in Niger, Nigeria and the United Republic of Tanzania the prevalence is greater among Christian groups." (bls. 10)
http://www.unicef.org/publications/files/FGM-C_final_10_October.pdf
Grímur Sæm
Sæll Grímur.
Ég veit ekki til að ég hafi verið að bera blak af Gaddafi og hans líkum og sé ekki annað en að það sé verið að leggja mér orð í munn ef slíku er haldið fram. Mér finnst einnig að erfitt sé að bera saman mótmæli við breska sendiráðið í þorskastríðinu (ég man vel eftir myndum af þeim í sjónvarpsfréttum) við ástandið í Indónesíu og öðrum löndum þar sem gerðar voru árásir á dönsk sendiráð í þeim tilgangi að leggja þau í rúst. Vitaskuld vöktu mótmælin við breska sendiráðið og grjótkast á húsið mikla athygli í Bretlandi enda er árás á sendiráð mjög alvarlegur hlutur. Það sem ég var að segja að það er út í hött að halda því fram að herinn eða lögreglan hafi verið send á mótmælendur vegna JP teikninganna í austurlöndum bara vegna mannvonsku eða vegna þess að stjórnvöld sáu kjörið tækifæri til að lemja á lýðnum. Þarna voru mjög alvarlegir hlutir í uppsiglingu ef ekkert var að gert enda stjórnleysið því sem næst algert. Ég er ekki að mæla því bót að fólk hafi farist en í upplausnarástandi getur slíkt gerst.
Ég veit vitaskuld að umskurður á konum viðgengst ekki einungis meðal múslíma í Afríku og öðrum þeim löndum sem þessi viðbjóður tíðkast. Það sem ég var að segja er að í okkar nágrannaríkjum s.s. í Bretlandi (við getum einnig skoðað stöðuna í Noregi) viðgangast þessar misþyrmingar á stelpum í stórum stíl á trúarlegum forsendum meðal heittrúaðra múslíma. Meðan er reynt að drepa umræðunni á dreif eins og mér finnst þú vera að gera þá breytist ekki neitt.
Ég veit vel að það var íslensk stelpa með litháunum sem réðust á lögreglurnar á Laugaveginum. Það breytir hins vegar ekki því að þar var hópur herþjálfaðra (að sögn) litháa sem gerði fyrirvaralaust beina árás á lögreglumenn í starfi. Í öllum venjulegum réttarríkjum er litið á slíkt mjög alvarlegum augum enda er slíkur atburður bein árás á réttarríkið. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki verið að gera lítið úr svona atburðum. Refsing fyrir árás á lögreglu þýðir margra ára fangelsi í Bretlandi t.d. Ég ætlast til að fjölmiðlar getir sagt satt og rétt frá í slíkum tilvikum án þess að það fylgi með að allir litháar séu álitnir glæpamenn þar með.
Svona lagaðir atburðir sýna manni að lögreglan verður að vera betur búin en nú er hvort sem um er að ræða rafbyssur eða alvöru byssur ef ekki illa að fara. Það er bara þannig að mínu mati.
Varðandi Ghaddafi og Assad: Ég taldi upp verstu einræðisherrana sem stóðu fyrir drápi á mótmælendum. Ég las á sínum tíma að mótmælin hefðu verið leyfð af stjórnvöldum í Líbíu og Sýrlandi og jafnvel ýtt undir þau til að leyfa liðinu að pústa út gegn sameiginlegum óvini, en þegar menn voru farnir að æpa vitlaus slagorð og jafnvel farnir að krefjast stjórnarskipta, þá hafi verið gengið í að "stilla til friðar".
Kannske á maður að hafa samúð með óeirðalögreglumönnum, en ég held að almennt ættu þeir að búa yfir betri aðferðum til að stilla til friðar en að skjóta fólk. Þetta eiga að heita sérþjálfaðir menn og undir heraga.
Áður en þessi mótmæli fóru úr böndunum, þá var viðtal við Salman Tamimi í sjónvarpinu. Hann útskýrði á sinn hógværa hátt hvernig þetta særði múslimi og bað íslenska fjölmiðla að birta ekki myndirnar af tillitssemi við múslimi á Íslandi. Flestir urðu við þessum tilmælum og ber það kristilegu siðgæði fagurt vitni. Mér fannst hins vegar athyglisvert að Salman lofaði því á móti að gera ekki grín að Jesú og öðru sem okkur er heilagt. Eins og okkur sé ekki sama! Það er sitthvað í menningunni sem ekki skilar sér á milli manna.
Ég held ég viti hvar okkur greinir á um umskurð kvenna. Mínar upplýsingar segja að umskurður kvenna eigi sér almennt ekki stað á trúarlegum forsendum og að tilraunir til að berjast gegn honum á þeim forsendum séu ekki líklegar til árangurs.
Við skiljum ekki allt sem útlendingar hafast að, og við megum ekki hrapa að ályktunum. Hér er hópur manna. Þeir haga sér öðruvísi en ég. Hvernig skyldi standa á því? Aha, hér er einhver eiginleiki sem skilur þá frá mér. Það hlýtur að vera hann sem ræður þessari hegðun.
Í gamni og alvöru læt ég fylgja dæmi um skrýtna skýringu á hegðun okkar Íslendinga, sem erlendur vinur minn kom með. Hann var að reyna að leggja niður fyrir sér ástæður þess að stór hluti íslenskra karlmanna á mínum aldri, og yngri, láta aðra karlmenn um að ala upp frumburðinn sinn. (Eru til einhverjar tölur um hverstu stórt hlutfall "fyrstu barna" elst upp hjá föður sínum?)
Skýringin sem hann kom með var sú að siðvenjur ættbálksins biðu að þetta væri gert svona til að tryggja samheldni á milli fjölskyldna. Svona eins og þegar sögur berast af því utan úr heimi að menn gifti hvor öðrum dætur sínar til að tryggja stöðu fjölskyldunnar. Ég tók þessari skýringu líklega, því ekki vildi ég viðurkenna greddu og ístöðuleysi fyrir hönd meðbræðra minna.
Við erum sammála um að allt of létt sé tekið á árásum á lögreglumenn á Íslandi. En ég er þó sannfærður um að harðari refsingar hefðu ekki haft mikinn fælingarmátt á þessa villimenn.
Mér finnst hins vegar athyglisvert hvað berast litlar fréttir af þessari árás. Það var sagt að árásarmennirnir hafi ekki verið í neinum tengslum við dópgrenið sem ætlunin var að ráðast inn í. Hvað voru þeir þá að gera? Rugluðu þeir lögreglumönnunum við keppinauta á dópmarkaðnum? Höfðu þeir harma að hefna?
Grímur
Sæll Grímur.
Ég er ekkert að efa það að teikningarnar í JP hafi verið notaðar af ofsatrúarmönnum til að espa upp lýðinn í þeim tilgangi að auka fylgi við þeirra afstöðu. Islamar búsettir í Danmörku fóru sérstakar múgæsingaferðir til austurlanda fjær og oft með falsaðar myndir (t.d. myndina af franska kallinum með grísagrímuna). Einræðisherrar og aðrir álíka nota svona uppákomur til að styrkja stöðu sína.
Hvað umskurð varðar þá finnst mér það vera viðbjóðslegur verknaður undir hvaða kringumstæðum hann er framkvæmdur. Við eigum ekki að drepa umræðunin á dreif með því að fara að tala um hvað sé gert í fjarlægum löndum í Afríku eða annars staðar þegar þetta er gert í stórum stíl fyrir framan nefið á okkur. Það á að fordæma þetta hvar og hvenær sem er en ekki að láta fjölmenningarvitana leiða umræðuna í blindgötu með því að tala um mismunandi menningarheima, skilning og umburðarlyndi fyrir ólíkum siðum og allt hvað þetta heitir. Hvað myndum við segja ef fólkið í næstu íbúð sendi tíu ára stelpu, vinkonu dóttur okkar, erlendis um nokkura vikna skeið til að gangast undir þennan áfanga í þroskaferlinum? Hvað myndum við segja ef systir hennar, ellefu ára gömul, líka vinkona dóttur okkar, væri send erlendis og gift hálffimmtugum frænda í útlandinu? Þetta er daglegt brauð í öðrum norrænum ríkjum hjá ákveðnum hópum. Manni rennur bara kalt vatn milli skinns og hörunds við að hugsa um þetta.
Þegar farið er að tala um harðar refsingar gagnvart árásum á lögreglumenn þá er oft byrjað á að tala um að refsingar hafi ekki fælingarmátt. Vitaskuld hafa þær ekki fælingarmátt þegar fangelsi eru eins og hressingarhæli í augum ýmissa. Það má þá alveg eins líta á málið frá annarri hlið, ákveðnir einstaklingar eru teknir til hliðar til að vernda þjóðfélagið gagnvart þeim. Það eru mjög gild rök í svona málum eins og árásum á lögreglumenn. Ætlum við að bíða aðgerðalaus þar til einhver lögreglan verður drepin?
Sæll
Nú fer ég að hætta þessu, en þó vil ég segja þetta: Ef staðan væri sú að múslimir tækju þá fyrst til við að umskera stúlkubörn þegar þeir flyttust til Skandinavíu, þá gæti ég fallist á að það væri að drepa málinu á dreif að nefna uppruna þessa (ó)siðar. Staðan er hins vegar þannig að þetta er siður sem þeir koma með heiman að frá. Síðan er hollt að hafa í huga að það umskera ekki allir múslimir og af þeim sem umskera, þá umskera ekki allir af trúarlegum ástæðum. Algengast er víst að konur tiltaki hreinlætis- og fagurfræðilegar ástæður! En þó eru nokkrar sem telja sig finna fyrirmæli í Kóraninum eða öðrum trúarritum.
Mannlífsflóran á Íslandi er að verða fjölbreyttari og búast má við að mál af þessu tagi komi oftar upp á yfirborðið. Það er ekki víst að samsetning innflytjendanna á íslandi verði sú sama og í Skandinavíu. Við getum því ekki yfirfært allt sem Skandinavarnir hafa lært um sína innflytjendur á okkar innflytjendur. Eitt af því sem gott er að vita er að það eru ekki einungis múslimir sem umskera stúlkubörn. Við getum alveg átt von á að fá til okkar kristið fólk sem stundar þetta.
En..., við tveir getum víst fátt annað gert, til að koma í veg fyrir þetta, en að hvetja vinkonur okkar feministana áfram þegar þær hvetja til þess að samþykkja bann við þessum gjörningi og styðja við bakið á starfsmönnum jafnréttisiðnaðarins sem vinna með útlenskum konum.
Fjölmenningaróvitinn
Ég er að tala um þetta vegna þess að mér finnst umskurður vera slíkur viðbjóður að það sé ekki hægt að sitja bara og þegja þegar þetta verður æ algengara í okkar nágrannalöndum. Því er eðlilegt að spurt sé hver verða viðbrögðin ef við stöndum frammi fyrir þessu hérlendis? Það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn og tala um aðra menningarheima, fjölmenningarsamfélag og ég veit ekki hvað. Mér fyndist það vera stór áfangi í rétta átt ef ljóst lægi fyrir að hérlendis væri brugðist við svona löguðum limlestingum við með hörðum refsingum.
Takk fyrir umræðuna.
G
Skrifa ummæli