laugardagur, janúar 05, 2008

Gott veður til hlaupa í morgun. Fór út um kl. 8.00 og hitti strákana við brúna. Við vorum alls sex sem hlupum til Bessastaða og til baka, samtals um 30 km. Fínn túr og löppin eins og best verður á kosið.

Eftir áramótin 1980 var ég í vinnu á Patró, bæði í bræðslunni hjá Kidda Friðþjófs og síðan á sjó á Jóni Þórðar. Nýkominn frá Kúpu þar sem ég var í heilan mánuð. Það eru liðin 27 ár síðan. Í aprílbyrjun þennan vetur kom út plata sem breytti mörgu og var eins og ferskur vindur í þetta umhverfi okkar svo og fjölmargra annarra. Það var vitaskuld platan Ísbjarnarblús með Bubba og Utangarðsmönum. Hrátt eðalrokk og textar beint úr þeim raunveruleika sem maður lifði á þá þessum tíma. Á eftir Ísbjarnarblús fylgdu margar góðar plötur og allir þekkja framhaldið. Engu að síður skipar þessi plata og lögin á henni sérstakan sess í huga manns. Þegar maður horfir upp á það nú að Bubbinn sé að syngja þessi lög smóking klæddur með lúðrasveit sem undirleikara þá má vel vera að það höfði til einhverra þótt ekki hafi tekist að fylla höllina. En mikið óskaplega langar mig lítið að fara á þessa tónleika og hlusta á Ísbjarnarblús útsettan fyrir málmblásturshljóðfæri og smóking.

Megas bregst hins vegar aldrei, alttaf jafn ferskur og líkur sjálfum sér.

Enn ein hræðilega illa unnin frétt var í hádegisútvarpinu í gær. Maður komst að því á endanum að í henni var verið að segja frá því að flugvél hafði orðið að fljúga til Egilsstaða eftir að hafa orðið að hverfa frá lendingu á Keflavíkurflugvelli. Greinilega var fréttatilkynning Flugleiða lesin upp óbreytt og gagnrýnislaus. Það var ekki fyrr en langt var liðið á lestur fréttarinnar að maður komst að því um hvað málið snerist. Fréttin byrjaði á því að farþegum hefði verið boðin áfallahjálp. Hvers vegna vissi maður ekki. Síðan kom fram í fréttinni að flugvél hafði lent á Egilsstöðum. Hvers vegna vissi maður ekki. Loks kom fram að flugvélin hafði ekki getað lent í Keflavík vegna veður. Punchlinen í fréttinni var hins vegar að þaim hafði verið boðin áfallahjálp. Þetta eru náttúrulega engin vinnubrögð. Mér væri sama ef ég þyrfti ekki að borga vinnulaunin við þessi ósköp.

Ágætt viðtal er við bæjarstjórann í Vesturbyggð í helgarblaði DV. Skoðun hans er sú að Vestfirðir fari í eyði innan 50 Ára að óbreyttu. Ég held að það taki ekki svo langan tíma ef engar breytingar verða á þeirri þróun sem hefur átt sér stað á liðnum árum og áratugum. Á Bíldudal bjuggu nær 400 manns fyrir 25 árum. Nú eru þeir 180. Íbúum þar hefur fækkað um rúm 40% á síðustu 10 árum. Um 1980 bjuggu nær 1100 manns á Patró. Nú búa þar rúmlega 600 manns og er töluverður hluti þeirra af erlendu þjóðerni. Það er ekkert verra fólk en aðrir en reynslan sýnir að það er óvirkara í margháttuðum félagsstörfum sem svona samfélög byggjast ekki síður á en atvinnulífinu. Umræða um olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði eða Dýrafirði hefur verið nokkuð fyrirferðarmikil á undanförnum mánuðum. Heimamönnum þykir ánægjulegt að sjá ljós í því rökkri sem hefur hvílt yfir þessum samfélögum um áraraðir. Alls konar besservisserar sem búa í Reykjavík eru hins vegar fljótir á lappirnar og finna þessum hugmyndum allt til foráttu. Það má ekki gera þetta heldur eitthvað annað. Byggja háskóla. OK en hvaðan á fólkið að koma í þennan háskóla. Á Vestfjörðum búa tæplega 8.000 manns. Bæjarstjórinn í Vesturbyggð hefur verið að skrifast á við einn af þessari breiðfylkingu forsjárhyggjumanna sem hefur fundið þessum hugmyndum allt til foráttu. Þarna má ekkert gera að þeirra mati heldur hafa þetta allt eins kósí eins og það er í dag. Það er svo gaman að rúlla þarna um á svona 5 ára fresti, taka myndir og anda að sér hreinu lofti, bruna svo í bæinn og undrast hvers vegna nokkur maður geti hugsað sér að eiga þarna heima. Þessi bréfvinur bæjarstjórans í Vesturbyggð var líka á móti Gilsfjarðarbrúnni og er einnig á móti vegabótum í Austursýslunni sem taka af hálsana svo hægt verði að keyra vestur í öllum venjulegum vetrum. Ég hef ekki farið út í Teigsskóg en ég veit að fyrrverandi umhverfisráðherra gekk hann allann áður en hún tók ákvörðun í málinu. Ég veit hins vegar að Gilsfjarðarbrúin er fyrirmyndarmannvirki sem hefur ekkert gert nema gagn fyrir nágrannabyggðir og eins þá sem fara sjaldnar um og ekki skemmt nokkurn skapaðan hlut. Ég er heldur ekki búinn að gleyma umræðunni sem átti sér stað þegar Vatnaleiðin var lögð. Það var eins og heimurinn væri að farast í huga ýmissa. Það virðist vera svo að það megi ekki gera nokkurn skapaðan hlut þegar komið er út fyrir ákveðinn radíus frá Reykjavík en á sama tíma eru lagðar pípur um Hellisheiðina þvers og kruss og enginn opnar munn. Það er álíka með svona lagaða umræðu og alkana sem koma óorði á brennivínið. Fínt hjá bæjarstjóranum að grípa til pennans. Ég tek fram að ég veit ekki mikið um olíuhreinsunarstöðvar en þykir eðlilegt að það sé skoðað til hlýtar hvort það sé skynsamlegt að setja upp eina slíka í Arnarfirði eða Dýrafirði. Einhversstaðar verða þær að vera.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Undanfarin ár hefur einhver Ásbjörn Kristinsson siglt undir fölsku flaggi sem Bubbi Morteins. Hann er líkur Bubba, en eldri, betur klæddur og ekki eins dópaður...

Skv. færslunni þinni vorum við á svipuðum stað í tilverunni þegar Bubbi steig fram, ég þó heldur yngri. Þá var það ekki síst sósíalisminn í textunum sem höfðaði til mín.

Nú er Stál og hnífur sunginn á samkomum hjá FL Group og Kaupþingi og ég er orðinn miðaldra bankastarfsmaður. Ég get ekki láð Bubba að taka út þroska, en ég þarf tíma til að taka þessa nýju línu í sátt. Þó ég sé aðdáandi bæði gamla Bubba og stórsveitarinnar þá gat ég ekki hugsað mér að fara á þessa tónleika.

Það er síðan umdeilanlegt hvort menn sem eru eins, áratugum saman, séu mjög ferskir. ;-)

Grímur

Nafnlaus sagði...

Ég á erfitt að sjá Ray Davis fyrir mér syngja Set me free og önnur álíka lög við undirleik lúðrasveitar. Sumt bara gera menn ekki.
Gunnl.

Nafnlaus sagði...

Sæll Gulli.Fann síðuna hjá þér gegnum Elísubetu.
Við hérna á Innri-Múla erum alveg sammála þér með olíuhreinsistöðina.
m.b.k
Heimilisfólkið á Innri-Múla

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá að gamlir sveitungar eru að renna yfir það sem maður er að velta vöngum yfir og fást við. Bestu kveðjur vestur.
Gulli.