mánudagur, september 08, 2008

Fór norður að Hvammstanga í dag ásamt fjölskyldunni og mörgum fleiri að fylgja Agli frænda til grafar en hann varð bráðkvaddur um síðustu helgi. Egill var svona stórfrændi, í þess orðs eiginlegu og óeiginlegu merkingu. Gríðarlegur fjöldi var við útförina. Áætlað var að um 600 manns hefðu verið við útförina í sveitarfélagi sem telur um 1200 manns. Útförin var eins og sæmdi sönnum héraðshöfðingja. Tónlist og söngur hljómaði í kirkjunni áður en athöfnin hófst, hestamenn stóður heiðursvörð við kirkjuna og riðu síðan á undan líkbílnum til kirkjugarðsins. Þar söng karlakór og blásarakvartett spilaði. Veðrið var eins og best gat verið hlýtt og hægviðri. Egill vann því sem næst alla sína starfsævi fyrir bændur í Vestur Húnavatnssýslu eða um 44 ár.

Það var frábært að sjá góðan árangur þeirra járnbræðra í Köln í gær. Allir kláruðu með sóma og Steinn varð 19 í heildina og vann sinn aldursflokk. Hann hljóp m.a. frábært maraþon á 3.18. Trausti hefði einnig örugglega átt mikla möguleika á að vinna sinn aldursflokk ef hann hefði ekki fengið slæmsku í magann. Þetta verður örugglega til að fleiri hella sér út í djúpu laugina og láta vaða. Maður þarf að fara að læra að synda.

Ég gáði á langtímaspána fyrir Grikkland um mánaðamótin. Hún hljóðar upp á 26 - 27 gráður. Það á að vera allt í lagi en kannski eru þetta bara einhverjar meðaltalstölur sem geta breyst með skömmum fyrirvara.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú kannt nú örugglega einhver sundtök. Þetta er bara eins og allt annað: Æfa og æfa og æfa.
kv Jóhanna E.