sunnudagur, febrúar 07, 2010

Helgin hefur verið nokkuð stíf hjá mér og mörgum öðrum. Ármenningar sáu um framkvæmd meistaramóts í frjálsum innanhúss með góðri aðstoð Fjölnismanna. Það var keppt frá miðmorgni fram á síðdegi báða daga. María er meidd svo hún keppti ekki að sinni. Síðan kepptu Jói og félagar í 2. fl. Víkings við Akureyringa í hádeginu á laugardaginn. Þeir höfðu sigur eftir sveiflukenndan leik. Í fyrri hálfleik léku þeir við hvern sinn fingur og leiddu með átta marka mun í hálfleik. Akureyringar náðu vopnum sínum í seinni hálfleik en vantaði herslumuninn svo Víkingar fóru með sigur af hólmi með 2ja marka mun. Jói hefur sprungið út í síðustu leikjum og hefur verið markhæsti maður hjá 2. fl. og meistaraflokki þrjá leiki í röð.
Til að fá allt til að ganga upp þá þurfti ég að byrja daginn að snemma að mitt plan gengi upp. Því vaknaði ég kl. 5:00 báða morgna og var kominn út kl. 5:30. Ég náði 40 km hvor morgun svo allt gekk upp. Veðrið er alveg eins gott og hægt er að hugsa sér á þorranum, logn og hiti um frostmark. Það gerist varla betra en að vera einn úti og rúlla áfram í myrkrinu við þessar aðstæður.

Maður skilur hreint ekki hvernig kaupin eiga að gerast á eyrinni. Nóg er nú komið. Nú á að afhenda Jóa í Bónus og öllu hans slekti Baug aftur á silfurfati. Aðilar sem eiga um 25% af hlutafé í opnu almenningshlutafélagi ræður öllu sem þörf er á að ráða. Það er ekki nema von að Jói sé glaður. Sonurinn er hafður í felum og sést ekki heldur er sá gamli látinn virka eins og gamall og góður jólasveinns gott gerandi og gjafir færandi til bágstaddra. Við þá ákvörðun Arion banka í málefnum Baugs sem kynnt var nýlega er margt að athuga. Baugur var slíkt risaveldi í viðskiptalífinu að í öllum þeim löndum sem á að búa við virkt samkeppnisumhverfi hefði verið búið að skipta félaginu upp, slíka yfirburði sem það hefur. Fyrirtækið hefur ráð allra þeirra birgja sem það skiptir við í vasanum. Í öðru lagi hefur varla neitt fyrirtæki verið skuldsett eins mikið á liðnum árum eins og Baugur og vart hefur verið afskrifað eins af skuldum hjá nokkrum aðila eins og hjá því. Engu að síður segir Arion banki að þeir sem voru í forsvari fyrir fyrirtækið séu þeir hæfustu til að reka það áfram. Hvaða bull er þetta? Eins og það sé einhver geimvísindi að reka matvöru- og tuskubúðir. Málið er að í fyrsta lagi er fyrirtækið alltof ráðandi í viðskiptalífinu og í öðru lagi er fullreynt að ákveðnum aðilum er ekki treystandi. Svo er rætt um sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut að fyrirtækið fái fjármuni lífeyrissjóðanna til að leika sér með í framtíðinni. Ég hef lengi sagt að maður hafi ekki alltaf haft neitt svakalega mikla peninga milli handanna og það er ekkert nýtt að þurfa að fara vel með en ef sama gamla drullumakeríið á að ráða lögum og lofum hér áfram og það fyrir opnum tjöldum så er det en helt anden sak.

Gömul vinkona okkar frá Uppsalaárunum hélt upp á fimmtugsafmælið sitt í gær. Það var gaman að koma þangað og hitta gamla félaga aftur. Það var fínt að vera í Uppsölum hér í denn tíð og þar mynduðust vinabönd sem halda býsna vel. Það var eflingsfók við nám þarna á sínum tíma og margir hafa getið sér gott orð á ýmsan hátt og spjarað sig vel. Systir afmælisbarnsins rifjaði upp ýmislegt frá liðinni tíð. Meðal annars upplýsti hún að einn kærasti systur sinnar hefði fengið að fjúka fyrir að passa opnunarsögnina eitt lauf í Bridge. Það eru til hlutir sem maður gerir bara alls ekki!!!

Engin ummæli: