Nýlega úthlutaði framkvæmdastjórn ÍSÍ styrkjum úr Afrekssjóði. Samtals voru 45 milljónir til ráðstöfunar úr sjóðnum. Af þessari upphæð hlaut HSÍ langstærsta styrkinn vegna þátttöku landsliðsins í Evrópumeistaramótinu sem er nýafstaðið. Sömuleiðis hlaut KSÍ háan styrk vegna þátttöku kvennalandsliðsins í úrslitakeppni EM í kvennaknattspyrnu. Frjálsíþróttasambandið fékk rúma milljón króna vegna landsliðsverkefna og er það um helmingi lægri fjárhæð en í fyrra. Eftir frækilegan árangur handboltalandsliðsins á Evrópumótinu afhenti forsætisráðherra HSÍ síðan tíu milljónir til viðbótar vegna góðs árangurs. Nú er ég ekki að draga úr því að handbltalandsliðið fái mikinn sóma vegna góðrar frammistöðu, þeir eiga það allt skilið. Kvennalandsliðið í knattspyrnu á skilið mikinn sóma fyrir að komast í lokakeppnina sem er í fyrsta sinn sem ílenskt landslið í knattspyrnu nær svo langt. Árangurinn í keppninni sjálfri var hins vegar ekki sá sem stefnt var að. Þegar maður horfir á útsendingar frá þessum keppnum þá sér maður að það er mikill fjöldi aðstoðarmanna með liðunum og vitaskuld verður svo að vera. Það þarf allt að ganga upp til að mögulegt sé að ná þeim árangri sem stefnt er að. Ég veit ekkert um hvero liðin eru betur eða lakar mönnuð en önnur sem þau keppa við en alla vega þarf að gera það sem hægt er til að mikill undirbúningur skili sér þegar á hólminn er komið.
Mér finnst rétt að minnast á þetta þegar staða frjálsra íþrótta er borin saman við stöðu þessara íþróttagreina. Þegar Helga Margrét og Einar Daði tóku þátt fjölþraut í Evrópumeistaramóti unglinga á síðasta ári þá fóru þau út með einn þjálfara með sér. Það var enginn nuddari með í för, enginn sjúkraþjálfari eða neinn annar faglegur aðstoðarmaður en þjálfarinn. Helga Margrét var ekki neinn venjulegur þátttakandi í mótinu heldur átti hún besta árangur í Evrópu í grein sinni. Hún var komin með aðra hendina á Evrópumeistaratitlinum þegar hún meiðist og fellur úr keppni. Keppni í fjölþraut þýðir að tekið er á til hins ítrasta klukkutímum saman í tvo daga samfleitt. Það er miklu erfiðara en að spila einn fótboltaleik. Því er ekki síður nauðsynlegt að hafa einhvern til staðar til að mýkja auma vöðva milli daga í slíkri keppni. Þegar Helga Margrét meiðist þá eru það læknarnir í sænska hópnum sem komu henni og þjálfaranum til aðstoðar. Fyrir utan alla nuddarana og sjúkraþjálfarana sem voru með í sænska hópnum þá voru þeir með lækna með sér. Ef við viljum að okkar frjálsíþróttafólk nái að sína sitt besta á stærstu mótum á erlendum vettvangi ekki síður en aðrir þá verður að búa þeim lágmarksaðstæður. Þegar íslenskir frjálsíþróttamenn eru valdir til að keppa erlendis fyrir hönd landsins þá verða fjárvana félög síðan að greiða með keppendum. Á meðan RUV greiðir stórar fjárhæðir til boltagreinanna fyrir beinar útsendingar þá þarf FRÍ að borga RUV fyrir að fá beina útsendingu frá frjálsíþróttamóti einu sinni á ári. Þeir peningar verða ekki notaðir til að senda nuddara með keppendum á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum.
Það var áhugaverð umræðan um daginn um þörf skólakrakka fyrir hreyfingu. Loksins er farið að tala um að hreyfiþörf krakka er mikil og hreyfing er þeim nauðsynleg. Ég hef séð það á liðnum árum að þörfin fyrir hreyfingu er stórlega vanmetin í skólakerfinu. Oft eru krakkarnir parrakaðir inni í tvær kennslustundir samfleytt eða í 2 x 40 mínútur með því að hafa tvær samliggjandi kennslustundir í sömu námsgrein. Það er gert til að minnka tímann sem fer í að láta krakkana fara inn og út og til að skólinn verði fyrr búinn á daginn. Þó það sé vafalaust ekki marktækt lengur þá var það ófrávíkjanleg regla að það var kennt í 45 mínútur og útifrímínútur í 15 mínútur þegar ég var í grunnskóla. Maður veit það þegar maður heldur fyrirlestur að fullorðið fólk er farið að ókyrrast eftir 40 - 50 mínútur og er farið að tala um að það þurfi að fara í kaffi. Hvað þá ungir krakkar í 2 x 40 mínútur.
Asics hópurinn kom saman niður við frjálsíþróttahöll í eftirmiðdaginn og það voru teknar myndir af hópnum. Það er fínt að vera hluti af svona góðum hópi og það hvetur til dáða.
Ég fékk tölvupóst í dag frá konu sem býr í London. Hún og vinkona hennar eru að stofna ferðaskrifstofu og ætla sér meðal annars að markaððsetja Ísland í Bretlandi sem tilvalið land til að iðka utanvegahlaup. Hitinn er hæfilegur og landið er fagurt og frítt. Þetta er fín hugmynd því áhugi fyrir utanvegahlaupum er mikill í Bretlandi og fólk er alltaf tilbúið að reyna eitthvað nýtt. Þetta minnir mann á hve mikil nauðsyn það er að hafa eina sameiginlega vefsíðu þar sem utanvegahlaup á Íslandi eru kynnt. Þar þurfa að koma fram lágmarks upplýsingar s.s. dagsetning, myndir, staðsetning og vegalengd. Norðmenn gera svona fyrir sín ultrahlaup svo það þarf ekki að finna upp hjólið í þessum efnum. Við verðum að skerpa okkur ef við viljum ná árangri í því að fá erlenda hlaupara til landsins.
miðvikudagur, febrúar 03, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli