laugardagur, febrúar 27, 2010

Við Steinn héldum fyrirlestra í Háskólanum í Reykjavík í vikunni. Það var gaman að því og fróðlegt fyrir nemendur að kynnast því hvað ofuríþróttir snúast um. Það kom mörgum á óvart hvað þarf til að koma til að ná árangri á þessu sviði. Markmiðssetning, agi og seigla eru undirstaðan. Mataræðið kemur síðan þar til viðbótar. Ég er viss um að ef ég hefði hlustað á álíka yfirferð á þeirra aldri þá hefði mér aldrei dottið í hug að reyna við þetta, hvað þá að gera tilraun til þess. Ég held að það sé ekki nema rétt einstaka maður undir þrítugu sem er andlega undirbúinn til þess.

Ég sat Ársþing Frjálsíþróttasambandsins í gærkvöldi. Fráfarandi formaður, Ásdís Halla Bragadóttir, fjallaði nokkuð um hlut fjölmiðla. Þegar byrjað var að skera niður hjá RÚV í fyrra voru útsendingar frá frjálsum íþróttum eitt það fyrsta íþróttatengt sem átti að fjúka alveg út. Það kostaði t.d. mikið strögl að ná að halda útsendingum frá Gullmótunum inni þrátt fyrir að þau hafi mikið áhorf. Það t.d. var ekkert sýnt frá Heimsmeistaramótinu þrátt fyrir að við ættum keppendur þar. Útsendingar frá OL í hafa verið mjög fyrirferðarmiklar þrátt fyrir fá ísl. keppendur og vægast sagt slakt gengi. Nú er HM í fótbolta í sumar. RUV ætlar á næstunni að sýna 30 hálftíma þætti um liðin og aðdraganda keppninnar. Þá vantar ekki peningana.

Ég hef keypt DV síðan skömmu fyrir jól. Þá kom eitthvað tilboð og síðan var vitaskuld vonast til þess að maður héngi á áskriftinni af gömlum vana. DV skrifar mikið um hæpið framferði útrásarjöfranna fyrrverandi. Smám saman fór maður að sjá að það vantaði alveg umfjöllun um einn aðaldólginn. Ég hafði hugsað mér um tíma að segja blaðinu upp en ekki komið því í verk. Það leystist af sjálfu nú með helgarblaðinu. Í blaðinu var heillangt grenjuviðtal við gamla kallinn sem átti svo bágt en hafi verið svo góður. Ég lét það vera mitt fyrsta verk að segja blaðinu upp í gærmorgun.

Það lágu 40 km í morgun. Fór út kl. 5:30 og var búinn með hring þegar ég hitti Jóa á brúnni. Fínt veður en færðin hefur veruð betri í morgun.

Engin ummæli: