laugardagur, febrúar 13, 2010

Ég tek hattinn ofan fyrir skólayfirvöldum í Tækniskóla Íslands að láta fara fram dóprassíu í skólanum. Vafalaust hefur orðrómur þess efnis að dóp væri í meðferð innan skólans verið orðinn svo hávær að ekki var annað í stöðunni en að láta fara fram alvöru rassíu. Hún er gerð bæði til þess að ganga úr skugga um hvort einhverjir væru með dóp á sér innan skólans og í öðru lagi er í þessu falinn fælingarmáttur. Vitaskuld fóru einhverjir að væla yfir þessu. Lagatæknar fóru að tala um persónufrelsi. Blaðamaður á Mogganum fór að vitna í hneikslunartóni í álíka rassíu í skóla í Bandaríkjunum þar sem vopnaðar löggur hefðu verið á ferðinni. Hann gleymdi náttúrulega að geta þess að meiri líkur en minni eru á því að einhver nemenda í skólanum sé með byssu í fórum sínum. Ég myndi taka því fagnandi að svona rassía væri gerð í skólum sem krakkarnir mínir væru í. Sá sem ekkert hefur að fela hefur engu að kvíða í svona tilfellum. Samkvæmt blöðum sýndu hundarnir 12 nemendum sérstaka athygli. Mér finnst það bara vera þónokkuð.
Ég tek einnig hattinn ofan fyrir dómsmálaráðherra sem berst með kjafti og klóm fyrir því að banna Hells Angels á Íslandi.

Samkvæmt ritúalinu þá hefði ég átt að eignast hús á árunum milli 1970 og 1980. Á árunum fram að 1978 borguðu menn svona 1/3 af þeim kostnaði sem það kostaði að reisa sér hús. Hitt brann upp í verðbólgunni vegna neikvæðra vaxta sem þýddi að sparifjáreigendur borguðu brúsann. Ég byggði ekki hús en segjum að ég hafi gert það. Ég hefði síðan búið í húsinu fram á síðustu ár. Þá hefði ég selt húsið fyrir góða fjárhæð í verðbólunni og keypt mér annað stærra og dýrara. Ég hefði skuldsett mig til að kaupa stóra húsið sem væri stærra en svo að ég nýtti það sjálfur. Því eru tvö herbergi leigð út þar sem mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði nú sem stendur. Það fólk sem leigir eru einstaklingar sem hafa ekki efni á að byggja sér sjálfir eða hafa farið illa út úr efnahagshruninu.
Nú vill svo til að það fer að bera á umræðu um að ég sé ekkert annað en bölvaður þjóðníðingur. Ég hafi eignast hús sem ég hafi ekki borgað nema að hluta til. Síðan hafi ég selt húsið sem ég hafi fengið allt að því gefins og ofan í kaupið skuldsett mig til að kaupa annað hús enn stærra sem ég leigi síðan að hluta til fólki sem vill eignast hús en geti það ekki. Því segja margir að það sé ótvírætt réttlæti að húsið verði tekið af mér þar sem ég hafi aldrei borgað fyrir það. Almenningur hafi borgað húsið að stærstum hluta til gegnum verðrýrnum krónunnar á sínum tíma þótt ég þykist eiga það. Því eigi ríkið að fá leiguna fyrir þau herbergi sem ég leigi út en ekki ég sjálfur. En af því að ríkið er nú ekki alvont þá verði þetta gert smátt og smátt svo ég verði mjög lítið var við það. Síðan eru sett lög þessa efnis og til mín koma menn sem tilkynna mér það að fremsta herbergið á neðri hæðinni verði gert upptækt af ríkinu og ríkið muni leigja það sjálft út. Ég missi því leigutekjurnar af því og fólk flytur inn sem ég ræð engu um. Á næsta ári verður miðherbergið tekið á sama hátt og þriðja árið fylgir innsta herbergið á eftir. Fjórða árið á að taka eitt hverbergi á efri hæðinni þar sem ég bý. Ég vil ekki fólk inn á mig á efri hæðinni svo ég býð hærri leigu fyrir herbergið en ríkið fengi á almennum markaði. Síðan fylgja hin herbergin á eftir þar til ríkið hefur tekið öll herbergið yfir nema svefnherbergið og eitt annað sem er metið svo að það sé nóg fyrir mig. Staðan er sem sagt svo að ég er búinn að missa leigutekjurnar alfarið af neðri hæðinni, ég borga leigutekjur til ríkisins fyrir efri hæðina en ég skulda enn helling í íbúðinni sem ég ræð ekki við að borga. Ég reyni að selja húsið en að er ekki markaðsvara lengur þar sem það er komið í umsjón ríkisins sem leigir það út. Endirinn er sá að ég verð gjaldþrota og á ekkert hús.

Var einhver að tala um fyrningarleið í sjávarútvegi?

1 ummæli:

Máni Atlason sagði...

Þetta eru líklega bestu skrif sem ég hef séð um "fyrningarleiðina".