miðvikudagur, febrúar 17, 2010

Það lá við að enn ein tragedian ætti sér stað á Langjökli um helgina. Það var ætt á jökulinn undir mjög vonda veðurspá. Ég horfði á spána á föstudagskvöldið og það er alveg á hreinu að ég hefði gert allt annað þá um helgina en að fara í jöklaferð. Það var náttúrulega ekkert annað en stórmildi að þarna varð ekki dauðaslys sem eingöngu má rekja til mannlegra þátta. Það er greinilega eitt að vera duglegur á fjöllum og góður prívat og persónulega við erfiðar aðstæður en annað að halda utan um hóp af óvönu fólki við erfiðustu aðstæður. Það er ekker teinkamál viðkomandi fyrirtækis að svona aðstæður komi upp. Það varðar alla þá sem eru í þessum rekstri. Maður getur rétt ímyndað sér fólk sem fer í svona ferð sem á að vera ánægjuleg upplifun en snýst í augabragði í raunverulega baráttu upp á líf og dauða. Það er allt annað fyrir vana menn að keyra við erfiðar aðstæður eða fólk sem kannske hefur aldrei lent í neinu af þessu tagi. Maður veit aldrei hvernig óvant fólk bregst við aðstæðum eins og þarna voru og því meiri ástæða er til að hafa öll öryggisatriði á hreinu. Fyrirtæki sem stunda rekstur eins og að fara með fólk í atvinnuskyni inná hállendið að vetrarlagi eiga að vera leyfisskyld. Þau eiga að vinna eftir gæðahandbókum sem mega ekki vera heimakokkaðar heldur staðlaðar. Þau verða að hafa besta fáanlegan öryggisbúnað. Þau eiga að hafa tryggingar til að kosta aðgerðir eins og þá sem fór fram á sunnudaginn. Svona útkall með 300 mönnum, tugum ökutækja, þyrlu og ég veit ekki hvað kostar tugi milljóna. Þegar ég hljóp til Akureyrar í sumar var ég með sendi á mér sem heitir Depill. hann sýnid með GPS nákvæmni hvar ég var staddur hverju sinni. Á honum er sérstakur SOS hnappur. Svona tæki á að vera skyldubúnaður í jöklaferðum.

Það vakti athygli mína hve fljótt fyrirtækið fór að gera vart við sig á bloggsíðum daginn eftir. Þeir vildu greinilega reyna að hafa áhrif á umræðuna sem vitaskuld varð bæði nokkuð mikil og hörð. Ýmislegt í því vakti athygli mína sem benti til þess að ýmislegt væri ekki sem skyldi. Það kom fram að norska veðursíðan, www.yr.no, væri betri en veðurstofan íslenska meðal annars vegna þess að sú norska hefði svo margar veðurathugunarstöðvar í kringum Langjökul. Það kom mér nokkuð á óvart að heyra því haldið fram að norskur veðurvefur hefði komið upp fjölda veðurathugunarstöðva í kringum Langjökul af öllum stöðum sem þeir hefðu síðan gagn af umfram veðurstofuna. Auðvitað var það síðan bara argasta steypa. Sú norska hafði einungis sett nokkur nöfn inn á svæðið í kringum Langjökul og einhverjir héldu að það þýddi veðurathugunarstöðvar. Það skal enginn segja mér að menn sem halda svona vitleysu fram séu mjög mikið inn í veðri eða veðurspám.

Annað var einnig athyglisvert hve hörð viðbrögð þeir fengu sem höfðu skoðanir á atburðinum en voru ekki viðstaddir. Þeir voru kallaðir sófasérfræðingar og ég veit ekki hvað. Undirritaður er sjálfsagt einn í þerra hópi. Sýslumaðurinn á Selfossi, sem kvaðst ætla að rannsaka málið, var kallaður fífl og sagt að sofa áfram fram á borðið. Svona lagaður talsmáti er ekki neinum til framdráttar. Það er á hreinu að þegar farið er með fólk upp á fjöll og inn í óbyggðir á veturna þá verður að gera stífar öryggiskröfur. Það á að bera mikla virðingu fyrir náttúruöflunum og því að þarna geta mannslíf legið við. Það á ekki að vera sjálfsagt mál að jöklaferðir kosti mannslíf nokkuð reglulega og miklu oftar liggur við að stórslys verði.

Ég fór á fund í Setbergsskóla í Hafnarfirði í kvöld. Þar er búið að stofna hlaupahóp og það voru nokkrir tugir áhugasamra hlaupara mættir. Steinn garpur heldur utan um þetta með frjálsíþróttadeild FH. Ég spjallaði um ýmsa hluti sem gætu verið gagnlegir fyrir fólk sem er að byrja á þessum nótum. Síðan kom Daníel Smári til skjalanna og ræddi um skó, hlaupagreiningu og ýmislegt sem getur orsakað hlaupameiðsl. Þetta var fínn fundur og skemmtilegar umræður. Ég er bókaður á eina fjóra fundi til viðbótar næsta mánuðinn. Það er allt frá hlaupahópum til stórfyrirtækja. Það er ánægjulegt að geta miðlað smá af þeirri reynslu sem maður hefur byggt upp á liðnum árum. Huglægir hlutir stækka eftir því sem þeim er deilt með fleirum á meðan efnislegir hlutir smækka eftir því sem fleiri deila þeim með sér.

Norðurljósin voru flott yfir borginni í kvöld. Það eru liðin tvö ár síðan ég sá norðurljós síðast héðan af hlaðinu. Sólstormarnir hafa verið daufir síðustu tvö ár og þá eru norðurljósin heldur slök. Fregnir berast af því að það standi til bóta.

Engin ummæli: