fimmtudagur, maí 20, 2010

Ég er búinn með hitaprógrammið í World Class í Laugum. Tók að vísu bara átta skipti en það á að duga. Þetta verður rólegt fram yfir helgina og þá fer maður að pakka niður.

Ég fór austur á Selfoss í fyrrakvöld og hélt smá fyrirlestur á vegum Parkinssonsamtakanna á Selfossi fyrir hlaupara í Frískum Flóamönnum. Frískir ætla að hlaupa fyrir Parkinssonsamtökin í Reykjavíkurmaraþoninu og þetta var smá innlegg í staðinn fyrir stuðninginn. Hafsteinn Jóhannesson, gamall frjálsíþróttagarpur, er í forsvari fyrir samtökin. Hann orðaði þetta við mig í vor í fermingarveislu og þetta gekk svo eftir í vikunni. Þetta var fínt kvöld, vel mætt, og mikið spurt og spjallað. Megininnihaldið var markmiðssetning, agi og mataræði.

Það er erfitt að átta sig á þjálfara landsliðsins í fótbolta þegar hann afsakar fjarveru Eiðs Smára frá landsleiknum við Andorra á þann hátt að það hlæja allir að honum. Hann verður að gera sér grein fyrir því að hann er að grafa undan sjálfum sér með svona bulli. Auðvitað á að segja hlutina eins og þeir eru. Ég man ekki betur en að ensku deildinni hafi lokið fyrir ca 10 dögum síðan. Ef leikmenn fara svo úr æfingu á 10 dögum að þeir geti ekki einu sinni leikið leik á móti Andorra þá er það ansi hraustlega gert. Annað hvort er staðan sú að leikmaðurinn nennir ekki að spila í landsliðinu og þá er það allt í lagi eða það er eitthvað meir en lítið að. Best er að hafa hlutina á hreinu. Það er nóg af strákum sem bíða eftir að geta sannað sig hjá landsliðinu svo það er enginn ómissandi í þeim herbúðum. Verst að leikmaðurinn skuli hafa verið kosinn annar besti íþróttamaður ársins í fyrra án þess að geta blautan skít á árinu. Það er vanvirðing við aðra sem eru honum langtum fremri.

María kláraði prófin í gær. Það er búið að vera mikil törn hjá henni undanfarnar þrjár vikur en svona er það, þetta tekur allt enda. Jói lýkur sínum prófum aftur á móti á morgun. Það verður langþráð að ljúka skólanum en þá tekur við þrautin þyngri að fá sumarvinnu. Það lítur ekki alltof vel út hjá honum eins og stendur.

Ég hringdi í dag til Galökken Campingplats hjá Rönne á Borgundarhólmi til að panta gistipláss í tengslum við 48 tíma hlaupið í júní. Vertinn er farinn að þekkja mig en þetta verður í fjórða skipti sem ég fer þangað til að hlaupa. Nú verður meir um að vera en nokkru sinni. Sex tíma hlaup, 24 tíma hlaup, 48 tíma hlaup, sex daga hlaup og sjö maraþon á sjö dögum. Þetta verður glæsileg hlaupavika hjá Kim. Kim er mikill meistari sem heldur utan um þetta af milklum myndarskap, reynslu og metnaði. Ég fer líklega með tjald með mér svo ég þurfi ekki að halda herbergi þær nætur sem ég er að hlaupa. Það er nauðsynlegt að hafa eitthvað afdrep, sérstaklega ef rignir.

Engin ummæli: