Ég held að á undanförnum vikum og mánuðum séu komnar út einar þrjár skýrslur sem hafa þá sameiginlegu niðurstöðu að fyrningarleiðin í sjávarútvegi mun ekkert leiða starfandi fyrirtæki þar fyrr en í gjaldþrot. Það eru í sjálfu sér engin geimvísindi. Það er sama hvaða fyrirtæki það er að ef 5% tekna eru teknar af því á hverju ári án þess að aðrar tekjur komi í staðinn en skuldahliðin sé óbreytt þá verður fyrirtækið keyrt í þrot fyrr eða síðar. Skuldsetningin ræður nokkuð um hve hratt það gengur. Sumir fyrningarleiðarmanna segja kokhraustir, fari fyrirtækin bara í þrot, það koma bara einhverjir aðrir í staðinn. Það er dálítið erfitt að skilja það að ýmsir ræða um starfandi fyrirætki í sjávarútvegi eins og afsprengi hins illa og það væri bara landhreinsun ef þau myndu líða undir lok. Það eru þó þessi fyrirtæki sem hafa starfað áfram, keypt kvóta af þeim sem hafa hætt og selt sig út úr greininni, veitt fólki atvinnu og þróað greinina áfram. Á sama tíma og þetta er rætt og ritað þá er hinum einu og sönnu sægreifum hleypt ókeypis inn í sjávarútveginn aftur. Þeim sem hafa selt sig út úr greininni og fyrir morð fjár að mörgum þykir, er nú úthlutað ókeypis fiskveiðiheimildum með hinu svokallaða strandveiðikerfi. Mér hefði fundist það heldur skynsamlegra að veita auknum aflaheimildum til þeirra sem voru fyrir að bagsa við að halda rekstri sínum gangandi, m.a. með því að kaupa kvóta af þeim sem eru farnir út úr greininni. Nei, þeim er hleypt gratís inn í hana aftur. Ætli umræðan um að það verði að kvótasetja strandveiðarnar hefjist ekki innan tiltölulega skamms tíma, svona svipað eins og línutvöföldunin var kvótasett á sínum tíma.
Nú ere vinnan við fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár aðeins farin að skýrast. Niðurskurður opinberra útgjalda er fyrirsjáanlegur. En á sama tíma og boðað er að skorið verði niður hjá heilsugæslunni, menntakerfinu og félagsþjónustunni eins og maður heyrir af fréttum, þá er rokið í ýmis konar einkennileg verkefni sem kostuð eru af opinberu fé. Verkefnisstjóri er ráðinn við að vinna að kynjuðum fjárlögum. Kynjagreining þarf að fara fram á skýrslunni sem tekin var saman um orsakir efnahagshrunsins. Ég hélt satt að segja að það væri annað við aurana að gera við núverandi stöðu en að leggja í svona lagað.
Á að fara að reka málflutning í dómsmálum í gegnum ríkissjónvarpið? Verður dómstóll götunnar sá sem stendur æðstur dómstóla í landinu? Það var erfitt að skilja annað en að þessi þróun væri á fullu gasi þegar myndbönd úr öryggismyndavélum úr Alþingishúsinu frá því þegar hópur fólks ruddist með ofbeldi inn í þinghúsið voru sýnd í kvöldfréttum og síðan diskúteruð fram og til baka í Kastljósi. Hver er tilgangurinn með þessu. Ég ehf ekki séð áður að dómsgögn væru kynnt í fjölmiðlum á þennan hátt. Vitaskuld leggja menn allt það fram sem stutt getur málstað sækjenda og verjenda í dómssalnum. En að það sé reynt að breyta áliti almennings sakborningum í hag á þennan hátt í gegnum ríkisfjölmiðlum áður en dómur fellur er fáheyrt. Ef ný gögn koma fram sem geta haft áhrif á dómsniðurstöðu eftir að dómur fellur er eðlilegt að koma þeim á framfæri þeim sé komið á framfæri. En svona lagað, það finnst mér vera fyrir neðan allan Hvolsvöll.
Umræða um fjölda háskóla hérlendis er eðlilega komin á kreik. Sjö - átta háskólar hjá þjóð sem telur 300.000 manns er náttúrulega fyrir austan sól og sunnan mána. Þessi fjöldi háskóla hefur í för með sér að þeir eru dýrir og óhagkvæmir í rekstri og einnig er hæpið að þeir standi allir undir nafni sem háskólastofnanir. Háskói er ekki bara kennsla, háskóli þarf líka að vera rannsóknastofnun. Vitaskuld bregðast hagsmunaaðilar við og finna þessari umræðu allt til foráttu. Ég hef hins vegar litla trú á að neitt breytist í þessum efnum. Það er alltaf auðveldast að ýta erfiðri ákvarðanatöku á undan sér. Danir ku vera nýlega búnir að fækka háskólum hjá sér úr níu í fimm. Vafalaust hafa margir verið á móti því en þeir kunna að taka ákvarðanir. Dönsk stjórnvöld gáfu út tilskipun þess efnis árið 2001 að sveitarfélögin skyldu vera koin niður í 100 árið 2007 en þau voru um 380 um aldamótin. Þar var tekin markviss og vel ígrunduð ákvörðun. Ekki vinsæl af öllum en skynsamleg.
Það er farið að styttast í Comrades. Ég hleyp dálítið til að halda mér liðugum. Það gerir bara gott. Veðurspáin er góð fyrir sunnudaginn 30. maí í Durban. 20°C og létt gola frá hafinu. Tveimur dögum áður er spáð 28°C. Þetta er dálítið lottó. Eins og útlitið er þá á flugið ekki að verða til vandræða. Þarf hins vegar að skoða það um helgina.
Víkingur vann frekar erfiðan sigur á Leikni í Víkinni í dag. Sama er, stigin eru jafngóð þrátt fyrir að leikurinn hafi ekki verið neitt sérstakur.
laugardagur, maí 22, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli