Í svo frábæru veðri eins og blasti við þegar maður hafði sig á fætur í morgun þá var ekki annað hægt en að gera eitthvað. Ég nenti ekki að hlaupa en fór þess í stað í veiðiferð. Ekki með byssur og hnífa (sem nóg er til af hér á bæ) heldur með myndavélar austur í Friðland í Flóa. Það er skylduverkefni að fara nokkrum sinnum á fuglatíð austur í Friðlandið. Eitt er að taka myndir,a nnað er að ganga um og njóta umhverfisins. Vegna markvissra og meðvitaðra aðerða um friðun fugla á þessu svæði þá eru þeir svo spakir að það er vandfundið álíka svæði hér um slóðir. Ég rólaði austur en þegar éeg var kominn austur undir Eyrarbakka þá sá ég nokkur andapör á tjörnum við vegkantinn. Þar var skúfönd, toppönd og líklega rauðhöfðaönd. Endurnar eru svo styggar að það má varla horfa á þær út um bílglugga þá eru þær roknar. Ég skildi bílinn eftir í hvarfi og skreið fram á vatnsbakkann þar sem skúföndin var. Þær voru að spóka sig og snyrta úti á vatninu en svo skipti það engum togum að kallinn fór á kellinguna að því er virtist undirbúningslaust og upp úr þurru. Ég hef aldrei séð það áður. Kallinn stökk upp á kellinguna og keyrði hana á kaf svo að hausinn rétt stóð upp úr. Að því loknu þá stóðu þau bæði upp á endann og blökuðu vængjunum eins og að miklu afreksverki væri lokið.
Svo fór ég sem leið lá upp í Friðlandið þar sem húsið er (sem ekki kemur að miklu gangi og virðist alveg þarflaust). Þar voru lómar, lóuþrælar, óðinshanar, tjaldar, jaðrakanar, spóar og svanir síðan flugu yfir. Hvað vill maður hafa það betra?
Þegar ég kom upp á planið hitti ég mann úr Grindavík með myndavél og við tókum tal saman. Þegar ég skoðaði vefinn hans þá er þar áferinni mikill meistari. Hann hefur tekið fullt af myndum af fuglum sem ég hef ekki einu sinni séð úr fjarlægð. Slóðin á vefinn hans er http://www.flickr.com/photos/eyjovil
Það er með áhugamenn um fuglaljósmyndun eins og hlaupara. Það er eins og að það hittist gamlir vinir þegar svona menn rekast saman. Það er svo magnað í báðum þessum greinum að þeir sem reyndari eru, eru manna fúsastir til að leiðbeina þeim sem óreyndir eru og styrkja þá á alla lund.
Að heimsókninni í Friðlandið lokinni þá rólaði ég fyrir Selvoginn, kom við í Krísuvík og svo heim.
Í kvöld fórum við svo út með krökkunum og fengum okkur að borða til að halda upp á próflok og góða frammistöðu. Veðrið í kvöld er með eindæmum á hvítasunnu.
mánudagur, maí 24, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli