fimmtudagur, maí 06, 2010

Í Silfri Egils á sunnudaginn var rætt við nokkra einstaklinga og þar á meðal einhvern tölvufræðing. Sá hafði lausnir heldur betur á takteinum. Flokkarnir væru ónýtir, stjórnmálamenn væru ónýtir, embættismenn væru ónýtir og Alþingi væri ónýtt. Það ætti bara að ryðja út og fólkið ætti að taka völdin. Stóra hættan í ástandi eins og hefur verið hérlendis er að það komi fram einstaklingar hinna einföldu lausna. Nýtt Ísland, hendum öllu því gamla. Hvað þýðir það að segja að fólkið eigi að taka völdin? Á að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um hvert og eitt mál sem taka þarf ákvarðanir um? Á að kjósa til Alþingis með almennri atkvæðagreiðslu í einum hóp? Enda þótt flokkarnir séu miklum annmörkum háðir þá má segja að þeir séu ekki burðugri en þeir einstaklingar eru sem í þeim starfa. Ef innan þeirra ríkir alger hjarðhegðun þá er auðvelt fyrir forystuna að gera það sem henni líkar en ef sterkir og ákveðnir einstaklingar láta til sín taka innan flokkanna og veita forystunni efnislegt aðhald þá hafa þeir veruleg áhrif. Ég þekki þetta sjálfur. Það er ekki alltaf til vinsælda fallið hjá öllum að vera óþægur, hafa sjálfstæða skoðun og standa á henni. Það hefur ekki verið sérstök leið til frama að vera í gagnrýnu deildinni en það er kannski sú aðferð sem menn hafa til að hafa áhrif ef þeir eru ekki sáttir við þá navigation sesm flokkurinn hefur tekið. Mín reynsla er sú að til lengri tíma litið er það alltaf farsælla að fylgja sannfæringu sinni heldur en að fela sig í hjörðinni og vonast eftir að ná í mola af borðinu. Flokkarnir eru ekki fullkomnnir frekar en önnur mannanna verk en fulltrúalýðræði er sú aðferð sem öll lýðræðisríki í hinum vestræna heimi hafa notað með góðum árangri. Alla vega hefur ekki önnur betri aðferð fundist.

Ég er hins vegar hættur afskiptum af flokkapólitík því önnur skemmtilegri og meir gefandi áhugamál hafa náð yfirhöndinni.

Gauti stóð sig vel í New Jersy maraþoninu á helginni. Hann hljóp reyndar í fyrsta sinn maraþon á meir en þremur tímum og á 22 mínútna lakari tíma en í fyrra en nú var hins vegar 30°C hiti. Einungis tveir hlupu undir 3 klst. Gauti varð 10 í hlaupinu af 800 körlum og eitthvað 1700 hlaupurum í allt. Hann varð síðan annar í sínum aldursflokki.

Börkur benti mér á að það væri gott að nota Compression buxur (sérstaklega þröngar buxur) vegna niðurhlaupanna. Ég sendi Gunnari í Asics tölvupóst til að vita hvort þeir ættu slíkar buxur til svona af forvitni. Það var ekkert nema að Gunnar sendir tölvupóst strax til Danmerkur til að vita hvort sé ekki hægt að redda svona buxum í hvelli. Þetta er almennilegur bakhjarl.

Engin ummæli: