þriðjudagur, maí 04, 2010

Hitaæfingarnar byrjuðu í gær. Ég fór í World Class í Laugum en þar hef ég haft opinn aðgang síðan í haust. Þótt ég hafi ekki notað það mikið í vetur þá er það mikils virði að geta skroppið þar inn þegar manni hentar. Nú er lokaundirbúningurinn hafinn og hitaæfingar byrjuðu í gær. Ég fór kappklæddur á bretti sem sett var í 15° halla. Þar puðaði ég í 40 mínútur, byrjaði í 6 km hraða á klst og jók hraðann um 0,1 á hverjum 10 mín. Ég ætla að byrja á 6,1 á næstu æfingu og svo koll af kolli þannig að síðsutu æfinguna ætla ég að byrja á 7 km hraða á klst og auka svo hraðann um 0,1 á hverjum 10 klst. Ég fann dálítið fyrir þessu í kálfunum til að byrja með en svo lagaðist það. Síðan fór ég í sánu á eftir. Þetta ræsir kælikerfið vel enda er ekki þurr þráður á manni eftir þetta prógram. Á milli þessara æfinga tek ég svo niðurhlaup eftir bestu getu en það þarf að huga að þeim hluta málsins líka því nú er hlaupið niður í mót.

Ég las í síðustu viku í blöðunum um herferð sem á að hefja bráðlega gegn lúpínunni. Eftir því sem sagt er þá á að fara að eitra fyrir henni um allar koppagrundir en fyrst og fremst á hálendinu. Í fréttinni var sagt að þetta eitur sem ég man ekki hvað heitir komi til með að drepa allt grænt. Ég held að mönnum sé ekki sjálfrátt ef þetta er rétt eftir haft. Dettur einhverjum að virkilega í hug að fara að ausa plöntueitri um allt uppi á hálendi til að þjóna lund einhverra öfgamanna sem þola ekki lúpínuna? Ef rétt er eftir haft þá er verið að dúka borð fyrir umhverfisslys af stærri gerðinni.

Engin ummæli: