miðvikudagur, júní 09, 2010

Comrades hlaupið byggir eins og önnur mikil hlaup á ákveðinni sögu. Það er sameiginlegt með klassísku ultrahlaupunum fjórum að þau eiga sér sögu og maður hleypur í fótspor ákveins einstaklings eða einstaklinga þegar maður hleypur hlaupið. Það er allt annað að hlaupa frá stað A til staðar B þegar hlaupið byggir á ákveðinni skírskotun en ef ekkert býr að baki hlaupinu. Í Western States eru það fótspor Gordys Aingsleighs sem eru mörkuð í slóðann og í Spartathlon hlaupinu eru það spor Pheidippidesar sem keppendur sjá fyrir sér. Í Comrades er sagan svona:

Vic Clapman fæddist í London árið 1886 en fluttist til Suður Afríku ungur að árum með foreldrum sínum. Þegar Búa stríðið braust út (1899-1902) þá þjónaði hann við sjúkraflutninga einungis 13 ára að aldri. Hann fluttist síðar til Natal og vann þar fyrir sér sem vélamaður við SA járnbrautirnar. Þegar fyrri heimsstyrjöldin (1914-1918) braust út þá gekk Clapman í áttundu herdeld SA hersins. Hann barðist á austursvæðum Afríku og gekk 1700 mílur með hernum á þessum tíma. Sársaukinn, dauðinn og hörmungar þær sem hann upplifði með herdeildinni á þessum tíma skildi eftir sig sérstaka félagslega samkennd meðal hermananna. Margir lifðu stríðið af en aðrir féllu. Clapmann fannst að nauðsynlegt væri að minnast þeirra félaga sinna sem féllu í stríðinu á einhvern þann hátt sem sæmdi þeim raunum sem þeir höfðu gengið í gegnum. Minnugur hitans, þorstans og þreytunnar sem þeir gengu í gegnum þá fékk hann þá hugmynd að langhlaup við erfiðar aðstæður væri hæfileg leið til að minnast fallinna félaga sinna. Þetta leiddi hann til að móta hugmyndina um félagshlaup fyrrverandi hermanna til að minnast fallinna félaga sinna.
Clapman fór fram á leyfi til að hlaupa 56 mílna (89 km) leið milli Pietermaritzburg og Durban á suðaustur strönd Suður Afríku. Hlaupinu skyldi ætlað að verða lifandi minnisvarði um hetjudáðir Suður Afríkanskra hermanna í fyrri heimsstyrjöldinni. Þessar umsókn var afdráttarlaust hafnað af yfirvöldum, m.a. vegna þess að þetta væri óframkvæmanlegt. Clapman hélt því aftur á móti fram að ef hægt væri að taka hvaða einstakling sem var af götunni, láta hann fá riffil og 15 kg bakpoka og láta hann ganga þvers og kruss yfir Afríku þá væru þeir örugglega nægjanlega vel á sig komnir að hlaupa þessa umræddu vegnalengd. Umsókninni var hafnað árið 1919 og aftur árið 1920 en árið 1921 gáfu þau eftir og veittu leyfi sitt til hlaupsins.
Fyrsta Comrades hlaupið var ræst þann 24. maí árið 1921 fyrir utan ráðhúsið í Petermaritzburg. Þrjátíu og fjórir hlauparar stóðu á marklínunni. Hlaupið hefur verið haldið síðan ár hvert að undanskyldum þeim árum sem seinni heimsstyrjöldin stóð yfir. Hlaupið er ræst til skiptis í Durban eða Petermaritzburg og er talað um upphlaup eða niðurhlaup eftir því hvor leiðin er farin. Petermaritzburg liggur um 600 metrum hærra en Durban en það er ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Ákveðið var að hámarkstími til að ljúka hlaupinu skyldi vera 12 klst. Fyrsti sigurvegarinnar lauk hlaupinu á 8:51 klst. Alls luku 12 einstaklingar fyrsta hlaupinu og hinn síðasti á 12:30 klst. Hann er sá eini sem hefur lokið hlaupinu á meir en 12 klst sem hefur fengið medalíu hlaupsins afhenta. það kom til að því að hann fékk miklar blöðrur á fæturna á síðustu 28 km að það þótti rétt að verðlauna það afrek að ljúka hlaupinu þrátt fyrir þær.
Með hliðsjón af sögu hlaupsins þá hefur það skotið djúpum rótum í Suður Afríkanskri þjóðarsál. Það er draumur margra að ljúka Comrades hlaupinu sem hinni endanlegu og óumdeildu manndómsraun. Fjölmiðlar hafa einnig sinnt því vel gegnum árin. Með hliðsjón af þessu tvennu þá hefur það um langt árabil verið langfjölmennasta ultrahlaup í heimi og öðlast þannig semm sem eitt af hinum fjórum klassísku ultrahlaupum heimsins. Lengi framan af þá var fjöldi þátttakenda bundinn við að hámarki um 1600 hlaupara. Það var gert m.a. vegna umferðarinnar. Þá var ekki farið að loka leiðinni á meðan hlaupið stóð yfir. Nú er búið að byggja upp hraðbraut á milli borganna svo að það er auðveldara að rýma fyrir hlaupinu. Hlaupið í ár hafði dálitla sérstöðu. Bæði var það hið 85. í röðinni og einnig skyldi það í fyrsta sinn þreytt tvö ár í röð "niður" eða endað í Durban. Sérstakir minnispeningar voru því fyrir þá sem hlupu það einnig í fyrra. Tvö niðurhlaup í röð höfðu aldrei verið haldin áður. Í ár voru 15.000 sæti til fyrir þá sem höfðu lokið hlaupinu áður og 5.000 pláss fyrir þá sem vildu þreyta það í fyrsta sinn. Sætin 15.000 fylltust á einum mánuði en sætin 5.000 fylltust á einum sólarhring og margir á biðlista. Því var brugðist við þessari miklu eftirspurn og sætum fjölgað. Endanlegur fjöldi þátttakenda var vel yfir 23 þúsund og reyndist það vera annar mesti fjöldi frá upphafi.

Engin ummæli: