sunnudagur, júní 13, 2010

Mbl.is var með frétt um ofurhlaupin fjögur. Hún var ágæt en ekki var farið alveg rétt með staðreyndir. Því er rétt að fara aðeins yfir þær. Ofurhlaup eru hlaup sem eru lengri en maraþon. Helst eiga þau að vera yfir 50 km. Það er þreyttur ótölulegur fjöldi ofurhlaupa í heiminum. Þar er bæði um að ræða hlaup sem eru hlaupin frá stað A til staðar B og hlaup þar sem hlaupinn er ákveðinn tími og sá sigrar sem hleypur lengst á tilskyldum tíma. Það eru síðan til keppnishlaup sem ná yfir marga daga. Það sem ég veit lengst á þeim skala er Trans Europe sem tekur 63 daga og er hlaupið frá Bari á Suður Ítalíu norður á nyrsta odda Noregs.
Í allri þessari miklu flóru hlaupa eru síðan fjögur ofurhlaup sem hafa verið nefnd "Hin fjögur klassísku ofurmaraþon" Þau hafa hvert og eitt ákveðna sérstöðu sem gerir það að verkum að þau eru sett í sérstakan flokk. Þau eru eftirfarandi:
1. Western States i Kaliforníu. Það er 100 mílna langt og er hlaupið í Sierra Nevada fjöllunum. Þegar Gordy Aingsley hljóp það fyrir tilviljun árið 1974 þá skapaði hann nýja íþróttagrein, 100 mílna utanvegahlaup. Því er Western States virtasta 100 mílna hlaup í heiminum og þykirmeð þeim erfiðari. Þegar ég hljóp það árið 2005 þá voru það um 25% keppenda sem ekki náðu í mark. Þó þurfa keppendur að hafa náð ákveðnum árangri til að fá að taka þátt í hlaupinu. Tímamörk í hlaupinu eru 30 klst.
2. Spartathlon í Grikklandi er 246 km langt. Það er lengsta, erfiðasta og virtasta ofurhlaup heimsins. Pheidippides hljóp það fyrir margt löngu til að sækja Aþeningum liðsstyrk til Spörtu þegar Persar gerðu innrás í landið. Svo hljóp hann til baka til að segja Aþeningum að hjálp myndi berast. Ströng tímamörk á erfiðri leið gerir það að verkum að það þykir mikið afrek að ná í mark innan tilskylinna tímamarka sem eru 36 klst. Samkvæmt tölfræðinni þá ná um 33% keppenda í mark undir tímamörkum að jafnaði.
3. London - Brighton er 90 km langt. Það er elsta ofurhlaup heimsins en það var fyrst hlaupið 1837. Það hefur verið hlaupið að mestu leyti óslitið síðan en þó hefur hlaupið fallið niður einstök ár af og til s.s. á stríðstímum. Áður var hlaupið á þjóðveginum en nú er það utanvegahlaup. Þrátt fyrir að það sé ekki lengra en 90 km þá heltist um 1/3 hluti keppenda úr lestinni í fyrra þegar ég lauk hlaupinu. Tímamörk eru 13 klst sem veitir ekki af, því leiðin er nokkuð erfið og tafsöm.
4. Comrades í Suður Afríku. Það er næstelsta og langfjölmennasta ofurhlaup heimsins. Það var fyrst hlaupið árið 1921 og hefur verið hlaupið árlega síðan nema í seinni heimsstyrjöldinni. Það er 89 km langt og er hlaupið milli borganna Pietermaritzburg og Durban. Ræst er til skiptis í borgunum annað hvert ár. Svæðið sem leiðin liggur eftir er kallað 1000 hæða landið og ber það sannalega nafn með rentu. Leiðin er erfiðari en ég hélt. Um 25% keppenda hætti í hlaupinu um daginn. Tímamörk í hlaupinu eru 12 klst.

Þessi fjögur hlaup eru síðan kölluð "Hin fjögur klassísku ofurmaraþon" vegna þeirrar sérstöðu sem þau hafa í ofurhlaupaheiminum. Þar til þann 30. maí sl. þá hafði enginn lokið þessum hlaupum öllum. Nú er einn búinn að því.

En aftur að Comrades. Ég vaknaði kl. 2:00 um nóttina óg veitti ekki af því rútan átti að leggja af stað kl. 3:00. Það var framreiddur fínn morgunmatur á hótelinu og að því loknu var ekkert að vanbúnaði. Ég hafði sofið vel en svo va rekki um alla. Ég hitti svefndrukkið fólk í lyftunni sem sagðist ekki hafa náð að sofna dúr. Það er alltaf slæmt að ná ekki að hvílast vel fyrir svona hlaup. Ég sat við hliðina á LArs Peter á leiðinni uppeftir. Hann var ekki nógu hress eftir flensuskít liðinna daga en lét slag standa. Við komum til Pietermaritzburg þegar klukkuna vantaði kortér í fimm en hlaupið átti að hefjast kl. 5:30. Það var kalt í veðri en hvað með það. Eitt af því sem var vel gert hjá mótshöldurum var að í pokanum sem keppendur fengu með gögnum var grófur utanyfirbolur sem hlýjaði manni heldur á biðtímanum. Svo henti maður honum af sér þegar hlaupið hófst en þurfti ekki að fórna eigin bol eða að vera að burðast með aukabol. Hlaupararnir streymdu að og skipuðu sér niður í hólf eftir árangri í síðasta maraþoni. Ég var í miðjum hóp í D hólfi. Lars var í næsta hólfi fyrir framan mig. Mínúturnar siluðust áfram en þegar klukkan var kortér yfir fimm þá byrjaði mikill söngur. Ég þekkti ekki lagið en það var hyllingarsöngur til Suður Afríku. Þarna sungu og klöppuðu heimamenn allt hvað af tók. Ég kunni ekki textann sem vonlegt var en lagið heillaði og einhversstaðar hafði ég heyrt það áður. Það var enginn þunglyndislegur söngur um titrandi tár sem er að hrökkva upphaf heldur gleði og hamingjusöngur. Þegar söngnum lauk þá reið fallbyssuskot af og hópurinn silaðist af stað. Hlaupið var hafið.

Þrengslin voru mikil og keppendur sem voru í miðjum hóp þurftu að ganga fyrstu einn til tvo kílómetrana. Svo fór að eins að greiðast úr þessu og hægt var að fara að hlaupa. Maður barst með straumnum framan af og gat ekkert gert nema að fylgja honum. Sólin kom ekki upp fyrr en um kl. 7:00 og þá fór aðeins að hlýna. Reyndar var þetta allt í lagi því manni hlýnaði fljótt þegar hlaupið byrjaði. Fyrsta drykkjarstöð var mjög snemma og síðan voru þær á ca 2ja til 3ja km fresti allt hlaupið. Upp úr 20 km þá fór að vera næring á drykkjarstöðvunum og síðan upp úr 30 km þá voru nuddstöðvar og heilsugæslufólk af og til. Öll þjónusta var afburðagóð alla leiðina út í gegn. Nóg að drekka af vatni, orkudrykkjum og kóki. Vaselín var til staðar, bananar, appelsínur, vínber og kartöflur með salti. Áhorfendur stóðu við veginn allt frá því það hófst og langleiðina í mark. Vitaskuld var ekki alltaf fjlmennt þar sem engin byggða var nálægt en fjöldinn var þeim mun meiri í þorpum og bæjum sem leiðin lá í gegnum. Maður sá að hin og þessi samtök og stofnanir (skólar, kirkjan og einhver sérsamtök) voru ábyrg fyrir drykkjarstöð á hverjum stað. Mikill fjöldi fólks var til að veita hlaupurunum hjálparhönd enda veitir ekki af því þegar 20 þúsund þyrstir og svangir hlauparar renna hjá í fleiri kílómetra langri strollu.

Ég hafði sett markið á að hlaupa undir 9 klst. Ef það tækist þá fengi maður virðingarmeiri verðlaunapening. Ég náði ekki niður á þann tíma sem ég vildi vera á fyrr en eftir um 40 km eða að hálfnuðu hlaupi. Ég fór fram úr síðasta tappanum á leiðinni á km. 27 en eftir það gat ég hlaupið mitt eigið hlaup. Leiðin var miklu erfiðari en ég hafði búist við. Langar brekkur upp og niður. Pietermaritzburg liggur um 500 metrum hærra í landinu en Durban. Á korti sem keppendur fengu sást að niðurhallinn hæfist þegar ca 40 km væru eftir. Ég hafði því staðið í þeirri meiningu að fram að því væri leiðin nokkuð þægileg en það reyndsist annað vera. Hver brekkan annari lengri upp og niður. Ég gekk brekkurnar upp til að spara kraftana en reyndi að vinna tímann upp á niðurhlaupunum. Það gekk ágætlega því ég var ágætur niður í móti. Rétt fyrir hálfnað hlaup hitti ég hóp sem var með héra sem stefndi á að fara undir 9 klst. Ég hélt sjó með þeim um tíma. Foringinn hét Belja, fínn hlaupari. Hann spurði hvaðan ég væri og þegar ég sagði honum það þá spurði hann: "Eruð þið búin að borga reikninginn upp á milljónir Evra eða hvað það nú var!!!" Svona fylgir orðsporið manni hvar sem er í heiminum. Ég sagði að við borguðum bara reikninga sem væru rétt útgefnir og við bærum ábyrgð á. Svo hurfu þeir en þeir voru vel sterkir upp brekkurnar en fóru varlegar niður. Klukkustundirnar liðu og allt var í fínu lagi. Það hitnaði vel þegar sólin hækkaði á himni og fór að skína fyrir alvöru. Hitinn hefur verið 22-24°C og yfirleitt logn. Það var ekkert þrúgandi en sama var, maður svitnaði mikið og drakk mikið. Ég var með Herbalife próteindrykk með. Eina flösku kláraði ég rétt áður en hlaupið hófst og svo hristi ég mér tvisvar drykk á leiðinni. Steinefni tók ég eftir því sem ég best kunni því saltútfellingin var mikil. Það var ekki mikið rætt saman á leiðinni við aðra hlaupara en þó skiptist maður á orðum við einstaka mann. Margir héldu að íslenski fáninn væri norskur enda er það ekkert skrítið. Ekki þekki ég fána afríkanskra þjóða nema núna þekki ég fána Suður Afríku.

Við að horfa á strolluna fyrir framan þá fékk maður á tilfinninguna að ég væri einn af þeim síðustu. Við að lita aftur fyrir sig þá varð manni heldur hugarhægra því hún var enn lengri fyrir aftan. Fjöldinn var ótrúlegur og ekki bara í upphafinu heldur alla leiðina.

Á fjórum stöðum á leiðinni voru mottur þar sem tíminn var tekinn og gefið upp hvað langt væri í cut off. Ég sá að tíminn lengdist hjá mér. Fyrst var maður 1 1/2 tíma undir tímamörkum, svo tvo tíma, þar næst var munurinn orðinn 2 1/2 tími og svo var ég búinn að ná 3ja klst markmiðinu.

Á km 70 fékk ég krampa í annan kálfann þegar ég ætlaði að taka af stað eftir að hafa gengið um stund. Eftir það varð ég að umgangast hann eins og fælinn hest. Þegar maður fór að hlaupa eftir að hafa gengið um stund þá þurfti að beita fótunum á sérstakan hátt til að forða nýjum krampakippum. Tíminn leið fljótt og kílómetrarnir liðu hjá. Lengsta brekkan niður var þegar rúmir 15 km voru eftir í mark. Hún var svona svipuð og að hlaupa af Vaðlaheiðinni niður í Eyjafjörðinn. Það var ekkert annað að gera en að þrælast hana niður af krafti til að halda tímaplaninu. Lengsta brekkan upp var aftur á móti eins og Kambarnir.

Svo fór að hilla í Durban. Það er alltaf ósköp notalegt að sjá að markið er ekki langt framundan. Síðustu þrír kílómetrarnir eða svo inni í borginni voru þokkalega sléttir. Hlaupið endar inni á gríðarstórum krikketleikvangi, stutt frá hótelinu sem ég bjó á. Hlaupararnir fara inn í rennu sem liggur hálfhring kringum völlinn og svo er markið fram undan. Í rennunni var einn á fjórum fótum sem virtist varla vita hvort hann var að fara eða koma. Ég hafði undirtökin á tímanum og lauk hlaupinu á 8.56 klst. sem var tími sem ég var vel sáttur við. Stór hluti keppenda kemur í mark á síðasta klukkutímanum en ég kom í mark þremur tímum áður en hlaupinu væri lokað. Það var hengdur peningur um hálsinn og ég fékk svo nærstaddan til að taka mynd af mér í markinu.

Langri vegferð var lokið. Hún hófst í sjálfu sér í ágúst 2004 þegar við Rollin Statton sátum saman í biðsalnun við ferjuna í Rönne á Borgundarholmi og hann sagði mér frá löngu en skemmtilegu hlaupi í Kaliforníu sem hann fullyrti að ég gæti klárað. Að fara til Kalíforníu og hlaupa. Maður hafði varla heyrt neitt fjarstæðukenndara en samt, því ekki að skoða síðu hlaupsins....

Á vellinum var allt til alls. Aðstaða fyrir hlaupara og aðstoðarfólk. Matur, drykkir, klósett, stólar, nuddarar og ég veit ekki hvað. Fullt af fólki var á áhorfendapöllunum. Þeir gátu m.a. fylgst með hlaupurunum á stórum sjónvarpsskjá. Ég stoppaði hátt í klukkutíma á vellinum en síðan gekk ég heim á hótel. Ég var dálítið stífur framan á lærunum eftir niðurhlaupin en annars var allt í fínu lagi. Engar blöðrur, engin eymsli eða annað sem pirraði. Maginn fínn. Hins vegar er maður alltaf þreyttur eftir svona hlaup, sama hvort sem þau eru löng eða stutt. Innistæðan er yfirleitt tekin öll út. Bara spurning hvað maður tekur hana út á löngum tíma. Það var auðsætt að íbúar Durban bera mikla virðingu fyrir Comrades eftir viðbrögðunum sem ég fékk á leiðinni á hótelið. Hamingjuóskir, köll og "High Five". Það var í sjálfu sér góður endir á góðum degi að fá slík viðbrögð frá fólkinu á götunni.

7 ummæli:

Birgir Gilbertsson sagði...

Innilega til hamingju með að vera kominn á spjöld sögunnar. Þú sannar það sem Frú Dorrit sagði: við erum "stórasta land í heimi" :)

Laufey sagði...

Vá, þetta er hreint magnað! Til hamingju með afrekið.

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með þetta afrek Gunnlaugur. Frábært hjá þér að vera kominn í þennan "einmenningsultraafreksflokk" þ.e. að setja heimsmet!
Afskaplega gaman líka að lesa þessar frásagnir hjá þér, þær gefa miklar, gagnlegar og skemmtilegar upplýsingar.
Ítrekaðar hamingjuóskir
Þorkell Logi

Nafnlaus sagði...

HIGH - FIVE :-)

Sólveig.

Hvekkur sagði...

Innilegar hamingjuóskir!

Þú ert frábær, gefst aldrei upp og setur þér sífellt ný markmið.

Ótrúlegur afreksmaður!

Bestu kveðjur,
Ágúst E.

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með glæsilegt afrek. Bestu kveðjur frá Erlu og Grafarvogshópnum.

Nafnlaus sagði...

Gunnlaugur, þú ert maðurinn! Hjartanlega til hamingju!

Bryndís og Úlfar!