Við Sveinn tengdapabbi renndum vestur á firði á fimmtudaginn. Veðrið var eins og best verður á kosið. Ferðinni var fyrst heitið vestur á Rauðasand. Við komum þangað um miðjan dag í taumlausri veðurblíðu. Húsið var eins og gengið var frá því fyrir einu og hálfu ári. Ég fór því miður aldrei vestur í fyrra. Við komum okkur fyrir og fórum síðan á flakk. Við heimsóttum fyrst Hrein og félaga hans en þeir voru komnir til að veiða í ánni. Það er smá laxavottur í ánni sem bæirnir sem eiga hana hafa yfir að ráða. Eftir að hafa borðað góðan kvöldmat þá renndum við út að Kirkjuhvammi og hittum Einar og Döbbu, staðarhaldara í Saurbæ og Kirkjuhvammi. Kjartan Gunnarsson og kona hans Sigríður eiga þessar jarðir og það er mikill sómi að því hvað þau hafa gert þeim til góða. Miðstykkið á Sandinum er til mikils sóma. Kaffihús er rekið í Kirkjuhvammi og í fyrra komu þangað á þriðja þúsund manns. Þar er einnig aðstaða fyrir ferðafólk, gistiaðstaða, rafmagn, vatn og salerni. Seinna um kvöldið fórum við í kvöldkaffi út að Lambavatni eins og við gerum alltaf þegar ég kem vestur. Það er alltaf gaman að hitta gamla nágranna og spjalla um það sem á dagana hefur drifið. Á föstudaginn var aðeins stífari norðanátt en sama fína veðrið, hlýtt og gola. Við fórum fyrst inn að Melanesi en þar er nýbúið að setja upp salernisaðstöðu og bílastæði fyrir neðan túnið á Melanesi. Þaðan er örstutt að ganga niður á Rif en það er alltaf jafn sérstætt að koma þangað. Síðan fórum við í gönguferð fram með á og hittum Hrein og Kalla. Það lítur út fyrir gríðarlega berjasprettu í sumar miðað við vísirana sem eru á lynginu þarna um allt. Ég fór svo aðeins að taka til í kringum bæinn og leggja niður hluta af girðingarræflinum. Það er gríðarlegt verk sem liggur fyrir að taka til á jörðinni og það vinnst ekki nema á nokkurra ára tímabili ef vel á að vera. Við gengum svo niður á Rifshaus frá Kirkjuhvammi síðdegis þegar fallið var út. Það voru margir kunnugir staddir á Kirkjuhvamshlaðinu þegar við komum þangað og var gaman að hitta allt þetta fólk sem maður sér alltof sjaldan. Sigríður vinnufélagi minn var þarna meir að segja stödd þarna með dætur sínar, tengdason og dótturdóttur. Um kvöldið fórum við í kvöldverð til strákanna niður við ána. Það lægði þegar leið á kvöldið og við sátum lengi þarna í kvöldkyrrðinni og horfðum á flæðina fylla árfarveginn smám saman.
Á laugardagsmroguninn tókum við daginn snemma og nú lá leiðin norður á Þingeyri. Við keyrðum firðina og stoppuðum vel við Dynjandisána. Við gengum alveg upp að Fjallfossi en þangað hafði ég ekki komið áður. Það eina sem skyggði á var að sólin var beint fyrir ofan fossinn svo það var ekki eins gott fyrir myndatöku eins og æslkilegt var. Síðan renndum við norðuir af og vorum komnir til Þingeyrar rúmlega kl. eitt. Við skelltum okkur í sturtu. Fyrir vestan var haldin mikil hlaupahátíð á helginni. Óshliðarhlaupið var á föstudegnum, á laugardeginum var skemmtiskokk og keppni í fjallahjólreiðum og síðan var Vesturgatan hlaupin á sunnudeginum. Ég var með fyrirlestur um ýsmislegt hlaupatengt í íþróttahúsinu kl. 14:00 og það komu hátt í þrjátíu manns sem er bara ágætt. Strax þar á eftir renndum við út með firðinum, fyrir Sle´ttanesið og síðan inn Arnarfjörðinn. Ég hafði aldrei komið þarna áður svo það var tilvalið að kanna leiðina sem átti að hlaupa daginn áður. Þarna er nú allt í eyði en lengst var búið á Lokinhömrum. Veðrið var eins og áður eins gott og hugsast gat. Við komum til Þingeyrar aftur á áttunda tímanum, fengum okkur að borða og spjölluðum svo við kunningjana sem sumir voru að koma til að taka þátt í Vesturgötuhlaupinu.
´
Gögn voru afhent upp úr 8:30 morguninn eftir og síðan haldið af stað upp úr kl. 9:00 í rútu. Ekið var sem leið lá yfir Hrafnseyrarheiði og út í Stapadal utarlega í Arnarfirði. þar hófst hlaupið kl. 11:30. Fólk lét fara vel um sig í þúfunum á meðan beðið var eftir að hlaupið hæfist. Flaggið féll á mínútunni 11:30. Leiðin var þannig að það þurfti að hafa aðgát framan af vegna þess að slóðinn er ansi ósléttur og hrjúfur. Við Jói héldum sjó saman mestan hluta hlaupsins. Það var smá mótvindur út á Sléttanesið en þaðan var lens inn að Sveinseyri þar sem markið var. Alls voru þetta 24 km og ég lauk því á rúmum tveimur tímum sem var allt í lagi. Í fullri Vesturgötu tóku þátt hátt í 80 hlauparar og um 70 í hálfu hlaupi. Framkvæmdin var virkilega flott hjá Vestfirðingum og gaman að taka þátt í þessari ágætu hlaupahátíð hjá þeim. Þáttakan er orðin svo mikil að þeir þurftu að takmarka þátttöku í styttra hlaupinu þar sem flutningsgetan var takmörkuð. Það er hægt að mæla með þessu hlaupi allra hluta vegna. Við renndum svo suður fljótlega eftir að við vorum búnir að taka saman. Jósep kom með okkur. Nú fórum við norðurleiðina. Við vorum kannski ekki svo mikið fljótari en nú er öll leiðin malbikuð ef farið er þessi leiðin. Alltaf sér maður fleiri og fleiri jarðir þar sem tún eru ekki slegin. Jafnvel eru það jarðir þar sem stór bú hafa verið rekin til skamms tíma.
Þetta var fínn túr vestur á firði eins og gefur að skilja. Á morgun verður haldið í Þjórsárver.
mánudagur, júlí 19, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli