föstudagur, júlí 02, 2010

Ég hef ekkert hlaupið síðan á næstsíðustu helgi. Reglan eftir svona löng hlaup er að hvíla sig í allt að því tvær vikur. Maður verður að gefa fótum og liðum tíma til að jafna sig ef einhverjir draugar skyldu vera til staðar. Einnig þurfa blöðrurnar tíma til að gróa. Svo hefur maður sjálfur gott af því að hvíla sig aðeins. En nú er þetta að verða ágætt.
Ég sá loks úrslitin á heimasíðu Mohican 100 mílna hlaupinu sem haldið var fyrir skömmu þar sem Höskuldur var meðal þátttakenda. Hann stóð sig vel og var um miðjan hóp. Hann er svo sem ekkert unglamb lengur en er ótrúlega seigur. Þegar hann hljóp þetta hlaup fyrir fimm árum þá fékk hann heiftarlegar blöðrur undir fæturna og var í vandræðum með að klára hlaupið. Nú er hann reynslunni ríkari og hefur greinilega gengið mun betur.

Það er erfitt að segja hvað er rétt og hvað er rangt í umræðunni um hin gengistryggðu lán. Meginatriði í lánaviðskiptum er að lántaki greiðir það til baka sem hann fékk lánað með eðlilegum vöxtum. Þegar maður tekur lán í annarri mynt en maður hefur tekjurnar í þá getur farið í verra ef gengið sveiflast mikið. Í allflestum nálægum löndum er t.d. sveitarfélögum bannað að taka lán í erlendri mynt vegna geingisáhættunnar enda þótt myntir þeirra landa sé stöðugri en okkar. Nú segjast þeir sem tóku hin erlendu eða gengistryggðu lán hafa verið mjög varkárir og reiknað með möguleikum á 20-30% gengisfalli. Þá var gengið út frá dollarnum í ca 60 kr. Það virðast margir hafa gleymt því að dollarinn var í 110 krónum á árunum 2001 og 2002. Það er ekki 20-30% sveifla heldur nær 100%. Það sem hefur einu sinni gerst getur gerst aftur. Margir litu á hin gengistryggðu lán sem hreina himnasendingu og leiddu hugann ekki einu sinni að því að gengi krónunnar gæti breyst mikið. Það er alvegt á hreinu að ég hefði aldrei þorað að taka gengistryggt lán fyrir bíl, hvað þá fyrir heilli íbúð. Ég er ekki sá áhættufíkill að það hafi nokkurn tíma hvarflað að mér. Það er síðan eitt sem ekki má gleymast í þessu sambandi. Að mínu mati má ekki gleyma hagsmunum innistæðueigenda. Það er forsenda fyrir því að bankakerfi getii starfað að einhverjir treysti bönkunum fyrir peningunum sínum og leggi þá inn til geymslu og ávöxtunar. Það eru of viðtekin viðhorf hérlendis að þeir sem eiga peninga í banka séu vafasamir pappírar. Það eru fæstir sem eiga mikla fjármuni inni í banka heldur er allur fjöldinn það sem svíar kalla småsparare. Fullorðið fólk sem hefur lagt fyrir í gegnum tíðina eða selt eign. Þegar menn tala í gáleysi um að bankarnir megi svo sem fara á hausinn þá er verið að tala um að fórna eigum þessa fólks. Það gengur ekki. Slík vinnubrögð myndu þýða það að bankakerfið myndi missa allan trúverðugleika. Ég á ekki mikla peninga í banka svo ég er ekki að tala út frá eigin hagsmunum en þeta er principmál.

Mér finnst síðan að það mætti skýra aðeins út hvernig staðið er að "Hagsmunasamtökum heimilanna" og "Samtökum lánþega". Það er stórt orð Hákot. Ég veit ekki til að mitt heimili sé í neinum hagsmunasamtökum né að ég sem lánþegi sé neinum samtökum. Því ætti að pota orðinu "sumra" inn í bæði heitin.

María er komin til Gautaborgar að taka þátt í Wärldsungdomsspelen í Gautaborg. Þetta er frjálsíþróttakeppni sem hún hefur tekið tvisvar áður þátt í. Það hefur verið mikil tilhlökkun því þetta er mjög gaman og flott að þessu staðið hjá sænskum. Mér fannst flott hjá svíunum að þeir buðu Íslendinga sérstaklega velkomna í ár á heimasíðu leikanna. Í fyrra fór enginn vegna efnahagsástandsins en nú eru á annað hundrað keppendur frá Íslandi á leikunum.

Víkingar sýndu loks fyrir alvöru hvað í þeim býr í kvöld þegar þeir sigruðu liðið í efsta sætu 4-0. Vonandi eru þeir komnkir á beinu brautina.

Engin ummæli: