miðvikudagur, júlí 07, 2010

Það er varla hægt annað en að það vakni ýmsar spurningar þegar sú staða liggur fyrir að lánaskilmálar töluverðs hluta þeirra lána sem innlandar lánastofnanir hafa veitt hafa verið dæmd ólögmæt. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað veldur. Eru lögin óskýr? Eru þeir sem áttu að túlka lögin ekki vandanum vaxnir. Eða er staðan sú að menn vissu þetta en létu bara kjurt liggja? Er nema von að það komi upp efi um faglegt hæfi þeirra sem eiga að vera í fararbroddi á ýmsum sviðum.

Ég er líklega ekki nútímamaður og skil ekki nútímahugsunarhátt. Alla vega næ ég engu sambandi við þessar auglýsingar sem eiga að virka sem landkynning fyrir útlendinga og/eða hvetja innbyggjana til ferðalaga erlendis. Ekki myndi mig langa til að ferðast til einhvers Hopplands. Halda menn virkilega að útlendingar hoppi upp í næst vél þótt það sái myndband þar sem fólk er hoppandi út og suður. Fólk út um allan heim þekkir nafnið Ísland vegna gossins í Eyjafjallajökli. Það upplifði ég t.d. hinum megin á hnettinum. Dettur einhverjum í hug að það fólk út um allan heim sé talandi um íslendinga eins og þeir séu merkilegasta fólk í heimi. Auðvitað ekki. Að fólk úti í heimi sé að tala um hvort einhver hafi beðið um tómatsósu á veitingahúsi eða ekki. Auðvitað ekki. Ekki dytti mér í hug að ferðast til Suður Afríku þótt ég sæi fólk hoppandi þar út og suður. Ekki dytti mér að ferðast út eða suður enda þótt ég sjái gamlan poppara ota þorski framan í flugfreyju. Sem stendur á að nota sérstöðu Íslands sem eldfjallaeyju til að markaðssetja hólmann. Það á að einbeita sér að þeim hópi túrista sem á nóg af peningum. Ísland er dýrt og það er til nóg af fólki sem á fullt af peningum sem ehfur áhuga á einhverju öðruvísi. Slíkt fólk hefur ekki áhuga á neinu Hopplandi.

Fallegar náttúrulífsmyndir og annað sem leiðir í ljós sérstöðu lands og þjóðar myndi aftur á móti vekja áhuga hjá mér til að ferðast. Svo held ég að sé um fleiri. Lúðvík vinnufélagi minn er fæddur og uppalinn í Þýskalandi. Hann horfir mikið á tvær þýskar stöðvar. Í annarri hefur fótboltinn fengið að leika lausum hala en á hinni hefur tíminn verið notaður á meðan HM stendur yfir að sýna fullt af þáttum frá Suður Afríku til að kynna land og þjóð. Lúðvík segist horfa ekki síður á þá stöð heldur en fótboltann. Þetta er almennilegt sjónvarp.

Ég held að vitleysan sem kemur frá svokölluðum fréttamönum eigi sér engin takmörk. Ég las í blöðunum um daginn viðtal við stúlku sem er að fara að stofna kaffihús út í Kaupmannahöfn. Hún ætlar að hafa íslenskt kaffi á boðstólum. Kaffið frá Íslandi sé svo miklu betra en danska kaffið. Mér þætti gaman að vita hvar kaffiakrarnir eru hérlendis. Það eina sem meikar sens í þessu er að kaffiheildsalar á Íslandi bjóði upp á fjölbreyttari vöru en danskir kaffi heildsalar. Það er bara fínt en að tala um íslenskt kaffi er eitthvað sem er fyrir austan sól og sunnan mána. Það er svona svipað eins og að tala um að það hafi mikið vatn runnið til sjávar úr Dýrafirði síðan eitthvað gerðist. Það er sagt að það hafi mikið vatn runnið til sjávar síðan eitthvað gerðist ef langt er um liðið. Síðan er sagt að það renni öll vötn til Dýrafjarðar ef eitthvað er einsýnt og stefni í eina og sömu átt. Þessu er öllu hrært saman eins og vöffludeigi.

Maður á ekki að láta svona lagað pirra sig en stundum fær maður bara nóg.

1 ummæli:

Máni sagði...

Það er vel hægt að markaðssetja Ísland sem ídeal land fyrir ljósmyndara og náttúruunnendur. Sá hópur fellur líka vel að því að "eiga nógan pening" eins og þú talar um.

Besti náttúrulífsljósmyndari sem ég hef fundið á flickrinu hefur komið hingað til lands tvisvar og tekið myndir. Þær má sjá hér http://www.flickr.com/photos/hvhe1/sets/72157605590197468/ . Hér á landi er mjög góð og sérstök birta og fjölbreytt fuglalíf, auk fallegs landslags. Það ætti að geta laðað ljósmyndaáhugamenn hingað til lands. Er sammála því að slíkt ætti að henta betur en hopp til að selja mönnum þá hugmynd að fara til Íslands.