miðvikudagur, júlí 28, 2010

Þegar ég kom úr Þjórsárverum fór ég að lesa í gegnum eitt og annað sem hafði beðið. Fljótlega rakst ég á umræðu um Stóra Laugavegsmálið. Ég ætla ekkert að segja um það annað en ljóst er að það þarf að setja ákveðnar reglur um ýmis atriði eins og eru til staðar í þeim ofurhlaupum sem ég hef tekið þátt í erlendis. Af því að minnst var á reglur sem gilda í erlendum ofurhlaupum þá finnst mér rétt að fara aðeins yfir það sem kemur upp í hugann í því sambandi.

Í Western States í Kaliforníu er heimilt og talið allt að því æskilegt að hafa meðhlaupara síðustu 60 kílómetra hlaupsins. Það er fyrst og fremst gert í öryggisskyni því þá er hlaupið í gegnum nóttina og landslagið t.d. á stundum varasamt. Reynslan hefur kennt forstöðumönnum hlaupsins að þetta er æskilegt. Mér kemur í hug það sem Rollin Statton sagði við mig þegar ég hrasaði á annað hnéð einu sinni um nóttina í myrkrinu: "Passaðu þig Gulli, það eru svona 50 metrar niður hérna." Meðhlaupararnir mega einungis koma inn í hlaupið á Forest Hill School en þá eru búnir um 100 km af hlaupinu. Þeir fá t.d. sérstök númer. Þeir mega einungis hlaupa með hlauparanum en ekki aðstoða hann á neinn hátt, t.d. ekki bera neitt fyrir hann. Því er einungis um andlega aðstoð að ræða sem skiptir vissulega máli svo og öryggismál eins og áður sagði.

Þessi öryggissjónarmið eru alls ekki til staðar í Laugavegshlaupinu. Til samanburðar má nefna að WS er álíka að lengd og hæðarmismun eins og leiðin frá Landmannalaugum niður í Skóga og til baka upp í Landmannalaugar.

Fyrra árið sem ég tók þátt í Spartathlonhlaupinu tók Scott Jurek, hinn mikli bandaríski hlaupari, einnig þátt í því í fyrsta sinn. Hann sigraði í hlaupinu eins og kunnugt er. Konan hans fylgdi honum á brautinni á bíl og var út um allt að redda og græja hlutum eftir því sem maður heyrði. Til að mynda lagði hún mikið á sig að útvega ís í hitanum eftir því sem maður heyrði. Ég veit ekki hvort þessi aðkoma hennar olli einhverjum kurr en alla vega er víst að árið eftir var það tiltekið mjög skýrt að ef hlaupari fengi aðstoð fyrir utan formlegar drykkjarstöðvar þá þýddi það útilokun úr hlaupinu (DQ). Í Spartathlonhlaupinu eru meðhlauparar bannaðir.

Þegar ég tók þátt í 24 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi árið 2008 þá var 48 tíma hlaup haldið þar í fyrsta sinn. Seinni nóttina voru margir orðnir illa haldnir og skjögruðu til og frá á brautinni. Nokkrir voru með aðstoðarmenn (maka eða einhverja aðra). Í sumum tilvikum gekk aðstoðarmaðurinn undir "hlauparanum" gegnum seinni nóttina í þess orðs fyllstu merkingu. Í vor var það síðan tiltekið skýrt í reglum hlaupsins að aðstoðarfólk ætti ekki að vera á brautinni síðustu 12 tíma hlaupsins að því mig minnir. Hlaupararnir áttu að vinna sig í gegnum erfiðasta hlutann á eigin spýtur.

Þarna voru reglur skýrðar og hertar með hliðsjón af reynslunni. Hins vegar varð ég aldrei var við neina DQ umræðu í þessu sambandi. Aðalatriðið var að ef talið var nauðsynlegt að skerpa reglur þá var það gert. Settar reglur gilda vissulega fyrir alla keppendur en ekki einungis þá fyrstu eða þá sem eru að keppa til verðlauna.

Þegar maður hleypur í gegnum þorp í löngum hlaupum þá hefur komið fyrir að fólk hafi sett upp veitingar að eigin frumkvæði af því það hefur gaman af því að tengjast hlaupinu eilítið og gera hlaupurunum gott. Slíkt framtak er vitaskuld ætlað öllum þeim sem vilja nýta sér fram settar veitingar. Ef þær væru einungis ætlaðar fáum útvöldum þá væri gerð athugasemd við slíka framtakssemi.

Það er ljóst að þegar metnaður vex hjá hlaupurum og meiri alvara og tími er lagður í æfingar þá er nauðsynlegra en fyrr að hafa allar reglur skýrar. Það á heins vegar ekki að koma í veg fyrir þá ánægju sem þátttakendur hafa af því að taka þátt í hlaupum heldur að auka hana ef eitthvað er. Skýrar reglur eiga að koma í veg fyrir að upp komi kurr innan hlauparasamfélagsins vegna þess að umgjörðin sé óskýr og hægt að teygja hana og toga. Ofurhlauparáð FRÍ hefur því verk að vinna til að skerpa á almennu regluverki um umgjörð ofurhlaupa í stíl við það sem gerir á erlendum vettvangi.

Ég sá nýlega að það var haldið 48 tíma hlaup í Köln í Þýskalandi fyrir skömmu. Sigurvegarinn hljóp rúma 357 km eða um 5 km lengra en ég fór á Borgundarhólmi. Af um 40 þátttakendum fóru einungis þrír yfir 300 km. Sem stendur held ég að ég sé í sjötta sæti á heimslista í ár. Af þeim sem hafa hlaupið lengra en ég eru fjórir á fimmtugsaldri og einn (Lars Skytte frá Danmörku) er tæplega fertugur.

Engin ummæli: