miðvikudagur, nóvember 17, 2010

Ég fer stundum á völlinn, hvort sem um er að ræða fótbolta eða handbolta, og horfi á leiki. Yfirleitt er leiðið heiðarlega og farið eftir reglum sem gilda. Þó kemur fyrir að einstaka leikmönnum hleypur kapp í kinn og gá ekki að sér. Þeir fara þá til dæmis í manninn en ekki boltann. Yfirleitt líðst þetta ekki. Viðurlögin eru að fyrst er viðkomandi gefið gult spjald og síðan eru þeir reknir af vellinum annað hvort í tvær mínútur í handbolta eða fyrir fullt og fast í fótboltanum. Ef þetta gerist ítrekað fá viðkomandi á sig yfirbragð boltatudda og eru ekki vinsælir.

Svona lagað sést stundum bregða fyrir í opinni fjölmiðlaumræðu. Rökþrota menn eða þeir sem hafa vondan málstað að verja fara gjarna í manninn en ekki í boltann. Aðferðin er að reyna að gera lítið úr viðkomandi, veitast að persónu hans og gera lítið úr honum. Markmiðið er að draga úr trúverðugleika þess sem hann skrifaði.

Glöggt dæmi um þetta sást í Pressunni á dögunum. Góður hlaupari úr Fjölni, Leifur Þorbergsson, skrifaði pistil á Pressuna sem hann kallaði "Ranghugmyndir um flata niðurfærslu skulda". Hann fór yfir það sem allir vita sem vilja vita að flöt niðurfærsla skulda er ómarkviss aðgerð, hún er dýr og hún gagnast lítið þeim sem eru í miklum vanda. Leifur fór einnig ágætlega yfir nokkrar mýtur sem haldið hefur verið fram í þessari umræðu og sýndi fram á innihaldsleysi þeirra.
Það stóð ekki á viðbrögðunum. Sá talsmanna hinna svokölluðu "Hagsmunasamtaka heimilanna" sem hefur haft sig mest í frammi hjólaði í Leif af miklum ákafa. Gegnumgangandi þráður í svari hans var að reyna að gera lítið úr Leifi með þvi t.d. að kalla hann alltaf "hagfræðinemann". Það á vafalaust að sýna utanaðkomandi lesendum fram á meint reynsluleysi og þekkingarskort Leifs. Minna máli skipti hvað hann skrifaði. Nú veit ég ekkert á hvaða stigi Leifur er í námi sínu, hvort hann er í BA námi, meistaranámi eða doktorsnámi. Það skiptir mig engu máli. Það sem skiptir máli er hvað hann skrifar og með hvaða rökum hann flytur mál sitt. Er málflutningur manna eitthvað minna virði ef þeir sem tala hafa ekki lokið hinum eða þessum prófum? Hafa þeir einir rétt á að opna munninn eða senda frá sér grein sem geta flaggað prófgráðum. Nú veit ég ekkert hvaða prófgráðum talsmaðurinn hinna sk. HH hefur lokið en hann titlar sig faggiltan leiðsögumann á heimasíðu sinni. Á sérhver sem tjáir sig í rituðu máli og er á andstæðri skoðun við talsmann sk. HH að segja: Leiðsögumaðurinn segir þetta og leiðsögumaðurinn segir hitt í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þess sem hann segir. Vitaskuld ekki.

Það stóð ekki á því að einhverjir stukku fram og tjáðu sig í kommentum í áþekkum dúr og frummælandi með orðum eins og: "strákpjakkur", "hagfræðineminn rassskelltur", "farðu heim til mömmu að skeina", "kukkalappi".

Það verður að segja að það hæfir skeggið hökunni.

Ég segi svokölluð hagsmunasamtök heimilanna til að vekja athygli á þeirri staðreynd að nafn samtakanna er rangnefni. Samtökin eru einungis hagsmunasamtök sumra heimila en langt í frá allra og þar á meðal ekki míns heimilis.

Stjórn félags 100 km hlaupara hittist í Rauðagerðinu í kvöld. Verkefni fundarins var að fastsetja dag fyrir 100 km hlaup næsta sumar. Laugardagurinn 11. júní var valinn eftir vandlega íhugun. Farið var yfir ýmsar reglur við framkvæmd hlaupsins til að gera umgjörð þess og framkvæmd þannig úr garði að til sóma verði fyrir samtökin.

2 ummæli:

Starri Heiðmarsson sagði...

mér líst vel á 11. júní og vona að formið leyfi að ég rúlli þetta með ykkur!

Nafnlaus sagði...

Velkominn Starri. Þú neglir þetta.
Mbk
Gulli