Það fór um mig nettur 2007 hrollur á dögunum. Þá heyrði ég sagt frá því í fjölmiðlum að það væri verið að opna bíó í Egilshöll. Það kom svo hver bíómógúllinn fram á fætur öðrum og sagði hvað bíóið væri stórkostlegt. Lýsingarnar mögnuðust stig af stigi. Fyrst var bíóið örugglega flottasta bíó í Evrópu að sögn bíómannsins og bíódúkurinn með þeim alstærstu sem sést höfðu. Gott ef hann var ekki boginn í ofanálag. Síðan kom sá gamli og bætti um betur. Hann hafði víða farið og margt séð og var viss um að þetta væri með flottustu bíóum í heiminum, ef ekki það flottasta. Fréttamannsgreyið stóð bara og jánkaði þessum ósköpum, stjarfur af hrifningu. Ekki datt honum í hug að spyrja neinnar einustu gagnrýninnar spurningu. Hvaða rugl er það að það sé verið að byggja og starfrækja flottasta bíó í heimi uppi í Grafarvogi ef satt er. Það eitt segir sína sögu því ef þetta er flottasta bíó í heimi þá ná aðrir sama árangri eða betri fyrir minni pening og meiri hagsýni. Þetta er svipað eins og að geta ekki valið úr dótinu í búðinni heldur vilja fá það allt. Hvaða gagn er að því trixi að það sé hægt að stoppa sýningu á bíómyndum og setja þær af stað aftur í gegnum GSM frá útlandinu. Egilshöllin var í eigu Nýsis. Nýsir fór á hausinn og Landsbankinn tók fasteignina yfir. Landsbankinn hefur sett mikla fjármuni í að ljúka við húsið. Hvað ætli mikið að fjárfestingarkostnaði við nýja bíóið flotta hefur verið afskrifað í gegnum gjaldþrotið? Gaman væri að fá að vita það. Það fór um mig kjánahrollur við að hlusta á þetta rugl.
Svokallaður þjóðfundur var haldinn á helginni. Nú allt í einu var fundurinn í fyrra ekki mjög merkilegur en þessi aftur á móti mjög merkilegur þegar þeir tveir voru bornir saman. Ég man ekki til þess að neitt einasta bitastætt hafi komið út úr fundinum í fyrra. Þegar valið er úrtak úr hóp sem á að endurspegla heildina þá skiptir tvennt aðalmáli svo sett markmið náist. Í fyrsta lagi verður úrtakið að vera skipulega unnið. Í öðru lagi verður helst um eða yfir 80% af úrtakinu að mæta eða svara ef um spurningar eru. Hér voru valdir 4 varamenn fyrir hvern aðalfulltrúa. Það brenglar allar fullyrðingar um að hópurinn hafi verið þverskurður þjóðarinnar. Það má vel vera að það hafi komið fram hve hátt hlutfall varamanna var á fundinum en það hefur farið fram hjá mér. Þetta var nú bara aðeins um aðferðafræðina.
Niðurstaðan er allt önnur Ella. Almennt er þetta moðsuða sem segir mjög lítið. Þó stendur eitt og annað upp úr sem vert er að skoað nánar.
Í fyrsta lagi kemur út að auðlindir náttúrunnar eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Hvað þýðir þetta? Hvað eru auðlindir? Að mínu viti er fiskurinn í sjónum náttúruleg auðling. Að mínu viti er vatnið sem fellur til jarðar og rennur til sjávar náttúruleg auðlind. Að mínu viti eru veiðidýr (fuglar, landdýr og fiskar í ám og vötnum) náttúruleg auðlind. Að mínu viti er jörðin náttúruleg auðlind. Landið sem er ræktað, landið þar sem gras sprettur, land þar sem grjót er numið er einnig auðlind. Er það meining þeirra sem þetta senda frá sér að það eigi að þjóðnýta allar auðlindir til lands og sjávar. Á ríkið að gera allar auðlindir í einstaklingseigu upptækar og þjóðnýta þær í einhverjum Sovét/Kína kommúnisma? Spyr sá sem ekki veit en svona hljóðar boðskapurinn.
Annar boðskapur er að það eigi að stuðla að fjölmenningarsamfélagi. Hvað þýðir þetta? Á að hvetja alla sem vilja flytja til landsins að koma og slá sig niður hér á skerinu? Eiga engin takmörk að vera á innflutningi erlends fólks í huga þessara sem láta svona lagað frá sér fara. Er sama hvaðan fólk kemur? Skiptir tunga, menning, trúarbrögð engu máli? Hvað er fjölmenningarsamfélag? Hvað þýða svona orð? Hafa menn ekki heyrt um að í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð er fjölmenningarstefnan talin af afar mörgum vera hreint mýrarljós. Það er ekki að sjá svo.
Það á að stuðla að jafnrétti. Fullkomnu jafnrétti. Hvað er jafnrétti? Rétt væri að útskýra markmiðið fyrst áður en stefnan er sett.
Það er óskað eftir valdameiri forseta. Er óskað eftir franska og bandaríska kerfinu? Forseti sé kosinn beinni kosningu og hann skipi ríkisstjórn. Þetta er ákveðin aðferðafræði en ég hélt að það þyrfti miklu meiri umræðu um það en svo að það væri afgreitt í hjali nokkurra manna þrátt fyrir að stjórnlagaþing heiti.
Fleira mætti tína til en læt við svo búið standa í bili.
mánudagur, nóvember 08, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli