miðvikudagur, nóvember 24, 2010

Ég horfði á Silfur Egils á sunnudaginn sem ég geri æ sjaldnar þessa mánuðina. Það var verið að ræða kosningarnar á laugardaginn kemur. Almannatengill nokkur sem er að vinna fyrir einhvern hóp þeirra sem bjóða sig fram var svo smekklegur að veifa mynd í þættinum þar sem búið var að teikna upp fúlan kall (nema hvað). Karlinn var nefndur "Herra Neikvæður" og átti að tákna þá sem ætla ekki að kjósa á laugardaginn. Mér finnst það ekki vara hlutverk ríkisfjölmiðils, svo ég orði það bara vægt, að gera lítið úr skoðun þess fólks sem hefur ekki áhuga á að nota kosningarétt sinn á laugardaginn kemur. Ég sé ekki annað en að það fólk hafi nákvæmlega sama rétt og aðrir til að móta sína eigin afstöðu í málinu. Ef frambjóðendur eru mjög óáhugaverðir eða málefnið ekki þess virði að fólki finnist ástæða til að mæta á kjörstað þá hefur það rétt á þeirri skoðun. Alls engin ástæða til að gera grín að því fyrir það. Síðan má svo sem minna á það í forbifarten að þeir sem hrifust ekki með í ruglbólunni á árunum 2005-2008 voru yfirleitt kallaðir neikvæðnir úrtölumenn. Það skyldu þó ekki vera sömu almannatenglar sem voru í fremstu víglínu í báðum tilfellum við að gera lítið úr því fólki sem þorði að mynda sér sjálfstæða skoðun og var með báða fætur á jörðinni. Það er alltaf auðveldast að kóa með en það þarf dálítinn kjark að synda á móti straumnum.

Ég hef hlustað fyrir tilviljun á nokkur viðtalanna sem tekin voru við frambjóðendur af RUV. Það er kannski hroki að segja það en mér finnst að það eigi að vera hægt að gera þá lágmarkskröfu til fólks sem telur sig fært til að endurskoða stjórnarskrá landsins að það sé þokkalega fært í að koma frá sér mæltu máli. Það er ekki djúprist krafa en hún reynist sumum um megn það ég heyrði. Beygingavillur, þversagnir og slæmt málfar eru ekki beint meðmæli með fólki sem gefur sig fram til slíkra starfa. Aðrir hafa akkúrat ekkert fram að færa. Síðan hafa enn aðrir einhverja orðaleppa í frammi sem þeir virðast ekki vita mikið hvað þýða í raun og veru. Einn sá vinsælasti virðist vera krafan um náttúrulegar auðlindir í þjóðareign. Sumir ganga svo langt að þeir segja að náttúrulegar auðlindir eigi bæði að vera í þjóðareign og þjóðnýtingu. Við höfum kynnst slíku fyrirkomulagi í Sovétríkjunum, í stærstum hluta Austur Evrópu, á Kúbu og í Kína undir stjórn Maó. Ég hef unnið í Rússlandi og séð afleiðingar Sovétríkjanna, ég hef komið til Kúbu og ég hef séð varðturnana með byssumönnum sem stóðu vörð við landamærin milli Austur Evrópu og Vestur Evrópu til að gæta þess að fólk flýði ekki vestur fyrir járntjald. Þeir sem það reyndu og sáust voru skotnir öðrum til viðvörunar. Það vita allir sem vilja vita að Sovétríkin og Austur Evrópa urðu gjaldþrota vegna þeirrar efnahagsstefnu sem þar var rekin. Því féll skipulagið. Ég hef því miður ekki komið til Kína en hef lesið dálítið um það ágæta land og það þjóðskipulag sem landið byggði á Maó tímanum. Ég þarf því ekkert að láta segja mér um svona málflutning. Bara að minna á það að fiskurinn í sjónum er náttúruauðlind. Vatnið sem rennur niður brekkurnar og sprettur upp úr jörðinni er náttúruaðlind. Fiskurinn í ánum, fuglar himinsins og dýr merkurinnar eru náttúruauðlindir. Landið sem grasið er ræktað á er náttúruauðlind. Þannig mætti áfram telja. Ef á að þjóðnýta þetta allt saman og koma öllum náttúruauðlindum í opinbera eigu og ég tala nú ekki um ef nýting þessara náttúruauðlinda eigi að gerast af opinberum aðilum þá mun margt breytast hér á landi. Segi ekki meir þar um.

Einn frambjóðandi taldi sér það frekast til ágætis að hann hafði rúman tíma í vinnunni á útmánuðum. Því fannst honum að eigi sögn tilvalið að skella sér í það að endurskoða stjórnarskrána fyrst lítið var að gera í vinnunni. Það minnir á það að það er langt í frá að allir geti tekið sér frí úr vinnunni í tvo - fjóra mánuði. Vegna atvinnuástandsins eru aðrir sem ekki myndu þora að fara fram á frí í þetta langan tíma af ótta við að þeir þurftu ekki að mæta aftur þegar gamninu lyki.

Tvö mál hafa verið fyrirferðarmikil í umræðu fjölmiðla síðustu daga. Þótt ekki virðist svo við fyrsta augnakast þá tengjast þau nokkuð. Annað er stóra grísageldingarmálið. Fjölmiðlar hafa fjallað ýtarlega um að smágrísir eru geltir án deyfingar. Allt í lagi að ræða það fram og aftur. Umræðan hefur meir að segja borist inn á það dýraplagerí að lömb séu mörkuð án deyfingar. Ég heyrði yfirdýralækni segja það í útvarpinu í dag að sú ósvinna heyrði brátt sögunni til. Málið skyldi leyst með plastmerkjum. Það má vel vera að búið sé að finna upp plastmerki sem ekki detta úr en tryggara myndi mér finnast að óreyndu að hafa mín lömb og mínar rollur markaðar á gamla mátann. Hitt málið er stóra múslímamálið. Umræða hefur hafist um þá framtíðarsýn að múslímum og íslamsistum myndi fjölga hérlendis eins og hefur svo sannarlega gerst í flestum okkar nágrannalöndum. Umræðan hefur svo til eingöngu snúist um að margir segja að hér eigi að ríkja trúfrelsi, frelsi til að klæða sig í hvað sem er og ganga eigi út frá frelsi einstaklingsins eins og formaður múslímafélagsins sagði í útvarpinu þar sem hann fór mikinn. Nú er þetta svo sem ágætt ef þessar reglur giltu allstaðar en það ég best veit þá ríkir ekki frelsi einstaklingsins í löndum þar sem strangtrúaðir íslamistar ráða ríkjum. Þar má fólk (og konur þá sérstaklega) ekki klæða sig eins og það vill að maður tali nú ekki um trúfrelsið. Íslamistar hafa þá sameiginlegu ósk um að skapa ríki sem stjórnað er samkvæmt grundvallarreglum og lögum íslam. Í Pakistan eru kristið fólk ofsótt um þessar mundir af ofsatrúarfólki, hús þess eru brennd og það hrakið frá heimkynnum sínum. En hvað kemur þetta geldingum á grísum og mörkun lamba við? Jú, það er nefnilega til dálítið sem heitir umskurður á stúlkubörnum. Hann á sér stað í umfangsmiklum mæli meðal strangtrúaðra islamista og þarf ekki að leita lengra en til Norðurlandanna til að sjá fjölmörg dæmi þess. En á það er ekki minnst í umræðunni um múslimista og íslamista á meðan menn tala sig hása í fjölmiðlum þessa dagana yfir því að smágrísir eru geltir og lömb mörkuð. Umskurður er svo ógeðslegur verknaður að það er varla að maður geti fjallað um það. Þó er hægt að segja að hann er oftast nær framkvæmdur með rakvélablöðum eða einhverju þaðan af verra við vægast sagt frumstæðar aðstæður. Umskurður er einnig kallaður kynfæralimlestingar ef það skyldi skýra málið frekar.

Ég hef nýlega lokið við að lesa bókina "Dýrmætast er frelsið" eftir norska blaðamanninn Hege Storhaug. Hún þekkir þessi mál mjög vel eftir að hafa unnið við málefni innflytjenda í Noregi vel á annan áratug, dvalið í Pakistan í tvö ár og þannig mætti áfram telja. Nú gæti einhver sagt að þessi verkaður sé bara bundinn við afskekktar byggðir þar sem fáfræði og forneskja ræður ríkjum. Það er öðru nær. Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna telur að um 140 milljónir núlifandi stúlkna í heiminum í dag hafi orðið fyrir þessu. Árlega séu nú um tvær milljónir stúlkubarna umskornar. Í Egyptalandi eru t.d. um 90% kvenna umskornar. Umskurður stúlkubarna er iðkaður í um 30 löndum í dag. Þessi ósiður festi rætur á belti sem liggur yfir miðbik Afríku, á Arabíuskaga, í nokkrum löndum Miðausturlanda, í héröðum Kúrdistan og meðal múslima í Malasíu og Indónesíu. Þessi ósiður er ekki eingöngu bundinn við þessi lönd heldur er hann einnig til staðar meðal múslima og islamista sem búa í Noregi, Svíþjóð og Danmörku svo og ýmsum öðrum Evrópulöndum. Þetta er bannað með lögum í Evrópu en þeir sem telja að orð spámannsins séu ofar lögum sem venjulegir menn hafa sett virða slíkt bann að vettugi. Það er helst að samfélögin vakni þegar einhverri smástelpunni blæðir út. Árið 1999 féll timamótadómur í París þar sem kona var dæmd í átta ára fangelsi fyrir að hafa sannanlega limlest 48 stúlkubörn. Annars ríkir þögnin að mestu um þessi mál í Evrópu að sögn Hege. Það gerir það svo sannarlega hérlendis einnig. Bókin "Dýrmætast er frelsið" er t.d. ekki tekin til umfjöllunar í þáttum þar sem fjallað er um bækur eða þjóðfélagsmál almennt. Þess í stað einbeita fjölmiðlar sér að umfjöllun um stórmál eins og geldingar á smágrísum og eyrnamörkun smálamba.

Ég læt þetta duga að sinni en það er af ýmsu öðru að taka í þessu sambandi.

Gaman að heyra að Vestfirðingar séu að færa út Hlaupahátíðina og þróa hana áfram. Nú að að taka upp sjósund svo og verður nú hlaupið ofurmaraþon. Það er leiðin sem var hjóluð í sumar og liggur frá Þingeyri yfir heiðina yfir í Arnarfjörðinn og svo sem leið liggur út fyrir Sléttanesið og inn að Sveinseyri. Þetta verður alvöru.

Engin ummæli: