Ég heyrði rætt við einhvern fulltrúa Siðbótar í útvarpinu á dögunum. Umfjöllunarefnið var eins og gefur að skilja samþykkt Mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar um að gera allt sem tengist kristinni trú útlægt út úr grunnskólum og leikskólum borgarinnar. Ástæðan var sögð vera sú að svo margir hefðu kvartað yfir komum presta inn í skóla og leikskóla. Þegar betur var að gáð voru það einungis 24 sem höfðu kvartað. Það er náttúrulega nánast ekki neitt miðað við allan þann fjölda sem er í skólakerfinu. Fulltrúa Siðbótar fannst fjöldinn ekki skipta máli. Enda þótt það væru fáir sem kvörtuðu þá ættu þeir sinn rétt. Svo sagði hann að þótt svo það væru einungis tveir sem myndu kvarta þætti að taka tillit til sjónarmiða þeirra. Þetta viðhorf er dæmigert fyrir örlítinn minnihluta sem vill kúga mikinn meirihluta. Það á sem sagt ekki að þurfa meir en tvo kverúlanta til að breyta þjóðskipulaginu. Þetta er náttúrulega eins og hvert annað rugl. Af hverju skyldi meirihlutinn þurfa að dansa eftir pípu minnihlutans, sama hve lítill hann er? Ég held að það sé farið að teygja mannréttidahugtakið ansi langt út og suður þegar svona löguðum sjónarmiðum er haldið til streytu. Það er hins vegar eins og svo marg annað í almennri umræðu á Íslandi þessi misserin. Pólitísk rétttrúnaðarstefna tröllríður umræðunni svo grimmt að hún líkist helst stjórnmálastefnu sem ég kæri mig ekki um að nefna að sinni.
Það var verið að senda tölvupóstaúm allt í dag út af írönsku konunni sem bíður dauða síns í Íran. Það á að grýta hana fyrir að hafa átt vingott við einhvern karl utan hjónabands. Þessi dómur hefur verið felldur eftir Sharialögunum. Þeir sem vita ekki hvernig grýting fer fram geta svo sem googlað það. Það er ekki framkvæmt alveg eins og í Life of Brian nema hvað steinarnir sem voru sýndir í myndinni eru af réttri stærð. Þeir mega sem sagt ekki vera of stórir því þá er hætta á að hin dauðadæmda látist of fljótt. Það er svo sem hægt að segja að þetta komi okkur ekki mikið við því þetta fari fram í Iran og Iran sé mjög langt í burtu. Nú er það hins vegar svo að einhverjir sem eru tengdir auðugum aðilum í Saudi Arabíu hafa fest kaup á Ými sem avr samkomuhús Karlakórs Reykjavíkur. Saudi Arabía hefur ekki verið sérstaklega þekkt fyrir frjálslyndi hingað til en meðvitaða liðið hefur svo sem ekki miklar áhyggjur út af því. Á hinn bóginn hafa hófsamir Múslímar sem búa hérlendis miklar áhyggjur af þessu og hafa beinlínis varað við því sem er að gerast. Viðbrögðin hafa engin orðið það ég hef séð. Engin umræða, engar vangaveltur eða rannsókm á málsatvikum. Vitaskuld eru hinir hófsömu hræddir um að staða þeirra muni breytasat ef hingað flyst eitthvað ofsatrúarlið sem metur Sharialögin æðri landslögum eins og er vel þekkt í Svíþjóð svo ekki sé lengra farið.
Á maður að vorkenna manni sem var búinn að spila rassinn úr buxum fyrirtækisins á árinu 2007, þegar allt hagkerfið var botnstaðið. Það hefur þurft annað hvort sérstakan aulahátt til að setja fyrirtæki á hausinn á þeim tíma eða einbeittan vilja? Búið var að setja íbúðarhúsið yfir á fyrirtækið til að viðkomandi þyrfti ekki að borga kostnaðinn við það úr eigin vasa. Svo er íbúðarhúsið boðið upp eins og aðrar eigur fyrirtækisins þegar allt er komið í steik. Ég held að það sé ekki hægt að vorkenna viðkomandi neitt í þessu efni.
Á maður að vorkenna manni sem vinnur sem verktaki, borgar engin launatengd gjöld og lendir síðan í húrrandi vandræðum þegar hann verður atvinnulaus og er réttindalaus í atvinnuleysisbótakerfinu. Með því að borga launatengd gjöld er verið að kaupa sig inn í réttindakerfið. Þeir sem ekki borga inn í það fá ekkert út úr því. Þannig er það bara og er mjög eðlilegt. Það er bara ekki hægt að vorkenna fólki sem hugsar ekki einu sinni fram á morgundaginn.
María var valin í landsliðshópinn í frjálsum íþróttum á dögunum. Hún hljóp mjög gott 100 m. grindahlaup norður á Akureyri í sumar í kulda og mótvindi. Það verður gaman að sjá hvernig gengur hjá henni þegar kemur fram á veturinn að maður tali ekki um þegar krakkarnir komast á græn grös.
miðvikudagur, nóvember 03, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Þvílík endemis vitleysa er þetta í þér varðandi tillögur um trúfrelsi í skólum sem þú greinilega hefur ekki kynnt þér
1. Þú byrjar illa þegar þú uppnefnir 'Siðmennt' sem 'Siðbót' og ýjar þannig að félagið sé allt annars eðlis en það í raun er.
2. 24 kvartanir bárust alla leið inn á borð Mannréttindasviðs. Á hverju ári kvarta tugir og hundruðir til kennara og skólastjóra og jafnvel til Menntasviðs þó aðeins 24 endi hjá Mannréttindasviði. Væri gaman að vita hvað Mannréttindasvið fær yfirhöfuð margar kvartanir á ári um öll mál.
3. Auðvitað eiga allir sinn rétt og 24 kvartanir eru 24 of margar.
4. Þú vælir eins og stunginn grís undan meintri kúgun. Hver er sú kúgun sem þú verður fyrir? Raunverulega kúgunin er sú sem börn trúfrjálsra foreldra og í raun allra foreldra annarra en þjóðkirkjukristinna verða fyrir með trúboði i skólum.
Trúboðið í skólum er í raun frekar nýtilkomið. Það er á síðustu 10-15 árum sem prestar, hræddir um sitt, hafa vaðið í auknum mæli inn í skóla og jafnvel það sem fyrirlitlegra er, í leikskóla, leitt börn í bænum og fullvissað þau um að þau eigi að trúa af því Guð sé svo góður.
Það er svo hlálegt að það hittir þig sjálfan fyrir að þú röflar um 'pólitískan rétttrúnað' Sérðu ekki bjálkann drengur? Það er verið að troða kristilegum rétttrúnaði inn á lítil varnarlaus börn hvort sem foreldrum þeirra líkar betur eða ver og það er það sem Mannréttindaráð er að taka á.
Mannréttindi eru nefnilega einmitt þau réttindi þar sem þarf harðast að verja hlut minnihlutans. Meirihluti getur alltaf farið sínu fram, minnihlutinn á í vök að verjast og þessu áttuðu menn sig á á 19 öld þegar mannréttindabarátta hófst fyrir alvöru og hefur staðið síðan.
Þú hefur áður hljómað eins og hræddur miðaldra kristinn karlmaður sem er dauðskelkaður við það að forréttindi þau sem kristnir hvítir karlmenn hafa notið gegnum aldirnar eru smám saman að víkja.
Ef þú ert að reyna að kalla mig og aðra trúleysingja fasista eða nasista þá skaltu hafa hugrekki til að segja það en ekki fela þig bak við heiguls orð.
Ég skammast mín ekkert fyrir þennan reiðilestur í garð þín, fyrirlitning þín á mér og mínum á hann skilið.
Sæll Björn og takk fyrir tilskrifið. Það er eingöngu misminni mínu um að kenna að ég nefndi samtökin Siðbót en ekki Siðmennt eins og rétt er og vona ég að sú yfirsjón verði mér ekki lögð til lasts um langan tíma. Mér finnst í þessum málum eins og öðrum að það á ekki að kollsteypa kerfinu vegna þess eins að einhver ör - örlítill minnihluti hafi nógu hátt. Mér er nákvæmlega sama hvort um er að ræða tvo, 24 eða 224 einstaklinga. Eiga þær þúsundir eða tugþúsundir sem vilja hafa fyrirkomulegið eins og það er engan rétt? Mér hefur sýnst af umræðunni að það megi lesa þetta út úr henni. Svo enginn misskilningur sé á ferðinni þá sagði ég mig úr þjóðkirkjunni fyrir góðum áratug síðan svo ég hef engra hagsmuna að gæta í hvoruga áttina. Ég reyni hins vegar að nálgast umræðuna úr frá principum.
Mbk
Gulli
Það er ekki verið að kollsteypa neinu kerfi. Það verður áfram kennd kristinfræði og trúarbragðafræði.
Trúboði verður hins vegar hent út. Það er engin kollsteyping, heldur breyting til þess sem var áður en prestar fóru að herja á suma skóla fyrir 10-15 árum.
Legg til þú kynnir þér þessi mál betur.
Sæll Bjössi
Það má vel vera að í einstaka tilfellum hafi prestar gengið of langt í heimsóknum sínum í leikskóla og í grunnskóla. Um það hef ég ekki hugmynd og vafalaust lítur hver sínum augum á silfrið í þeim efnum eins og öðrum. Trúboði verður hent út. Hvað er trúboð? Hver ætlar að dæma hvað er trúboð?Mat á þeim hlutum er afstætt eins og í svo mörgu öðru. Eru það trúleysingjar sem eiga að vera í dómarasætinu? Eru það einstaklingar sem eru á hinum enda trúarskalans? Eða er hinum venjulega almenningi kannski treystandi til þess? Það sem þú segir um miðaldra karla þá hélt ég að þeir hefðu tilverurétt eins og aðrir og hefðu rétt til að hafa sínar skoðanir eins og aðrir. Það er kannski misskilningur. Simpson syndromið hefur nefnilega skotið ansi djúpum rótun í hinni meðvituðu umræðu hérlendis. Samkvæmt Simson syndrominu eru miðaldra karlmenn heimskir, latir, klaufalegir og í raun ekki takandi mark á nokkrum hlut sem frá þeim kemur.
Síðasta setningin á að vera svona: „Samkvæmt Simpson syndrominu eru miðaldra karlmenn heimskir, latir, klaufalegir og í raun ekki mark takandi á nokkrum hlut sem frá þeim kemur.“
Mbk
Gunnl.
Trúboð: Guð er góður, segið það með mér.
Trúfræðsla: Kristnir segja að Guð sé góður.
Hvað varðar hitt, þá er allnokkuð í það á íslandi að drottnun miðaldra hvíta karlmannsins sé ógnað það verulega að snúist í eitthvert Homer Simpson syndrome. Ekki vorkenna sjálfum þér of mikið.
Skrifa ummæli