laugardagur, nóvember 19, 2011
Ég fylgdi gömlum félaga úr Aþýðubandalaginu, Þóri Karli Jónassyni, til grafar í vikunni. Hann var nú svo sem ekki gamall eða tæpum tuttugu árum yngri en ég en sama er, það eru um tuttugu ár síðan að leiðir okkar lágu saman upp úr 1990. Hann var ekki nema rétt um tvítugt á þeim árum en ókunnugir hefðu getað haldið að hann væri um þrítugt því hann var fullorðinslegur af þetta ungum manni að vera. Þórir Karl var óþolimóður á þessum árum einsog gengur um unga menn og vafalaust hefur hann troðið á einhverjum tám sem þoldu slíkt heldur illa. Hann var hins vegar ekki í bakstunguliðinu heldur kom framan að öllum í umræðunni og sagði hreint út það sem honum lá á hjarta. Ég hitti Þóri síðan alltaf af og til gegnum árin og við gáfum okkur alltaf tíma til að spjalla saman. Ég vissi að lífið hafði verið honum erfitt á ýmsa lund. Hann fékk mjög slæma brjóskeyðingu í bakið á þrítugsaldri og varð óvinnufær upp frá því. Vegna þess gekk hann í gegnum slíka uppskurði að mann setti hljóðan við að hugsa um hvað er reynt og hvað hægt að gera. Þórir var félagsmálamaður af lífi og sál og var mjög virkur sem slíkur meðan heilsan entist. Hann lá ekki á kröftum sínum og vildi gera gagn þar sem hann hafði tök á. Meðal annars var hann formaður Reykjavíkurdeildar Sjálfsbjargar í allnokkur ár á síðasta áratug. Það reynir hins vegar á þegar menn eru stöðugt staddir í brattri og erfiðri brekku og vita að hún tekur aldrei enda. Maður getur rétt reynt að ímynda sér hvaða áfall það hefur verið fyrir ungan kraftmikinn fjölskylduföður þegar honum er kippt til hliðar í samfélaginu þegar lífið er rétt að byrja og fær aldrei þá möguleika að rækta þá hæfileika sem honum voru gefnir. Slíkt getur enginn gert sér í hugarlund nema sá sem það reynir. Eftir því sem presturinn sagði í minningarorðum þá höfðu síðustu árin verið honum mótdræg og heilsan verið farin að láta undan á ýmsa lund. Þórir var ekki nema rúmlega fertugur þegar hann lést.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli