sunnudagur, nóvember 13, 2011

Leitin að svíanum á Sólheimajökli hefur eðlilega verið fyrirferðarmikil í fréttum á undanförnum dögum. Þetta mun vera ein umfangsmesta útkallsaðgerð björgunarsveitanna um langa hríð. Hún hefur örugglega kostað tugi milljóna króna þegar allt er talið enda þótt aldrei verði ein tala óyggjandi í slíku samhengi. Þrátt fyrir að menn segi að sönnu að mannslíf séu aldrei metin til fjár þá er óábyrgt annað en að reyna að gera sér grein fyrir hvað svona aðgerð kostar. Hádegismaturinn er aldrei ókeypis.

Það er dálítið óhuggulegt að hugsa til þess hve margir erlendir ferðamenn hafa farist hérlendis á liðnum árum. Ástæður þess geta verið margskonar. Vanmat á aðstæðum, vanþekking á náttúrunni, reynsluleysi, lélegur útbúnaður, skortur á upplýsingum, lélegar merkingar á gönguleiðum og þannig mætti áfram telja. Það er náttúrulega eitthvað meir en lítið öðru vísi en það ætti að vera þegar ókunnugur maður fer einn á jökul undir myrkur, laklega útbúinn, í háskammdeginu í hryssingsveðri. Slíkt getur vitaskuld varla endað nema á einn veg.

Eftir að hafa fylgst með fréttum af þessari leit þá er ég enn sannfærðari en áður um að núverandi fyrirkomulag og stefna björgunarsveitanna getur ekki gengið upp. Hvað myndi gerast ef það kæmi álíka útkall og var í síðustu viku núna strax eftir helgina og sömu 300-500 einstaklingarnir sem hlupu frá orfi og ljá í síðustu viku yrðu aftur kallaðir til leiks í álíka leit? Þeit væru þá aðra vikuna í röð að leita sólarhringum saman og gætu ekki sinnt daglegum störfum sínum á meðan. Svo myndi sú leit taka enda en þá kæmi nýtt útkall sömu gerðar um helgina þar á eftir. Myndu þá flestir segja að þeir gætu ekki mætt vegna þess að þeir þyrftu að vinna fyrir salti í grautinn og gætu ekki endalaust hlaupið frá öllu sem þeir bera ábyrgð á? Yrði þá sá aðili sem væri svo óheppinn að vera númer þrjú í röðinni að týnast bara að bíta í það súra epli að það kæmi enginn að leita að honum því það væru allir búnir að fá nóg? Engu að síður hefði honum verið sagt að björgunarsveitirnar á Íslandi kæmu alltaf og leituðu að öllum sem týndust útkallsbeiðanda að kostnaðarlausu.

Nú verður vafalaust sagt að þetta muni aldrei gerast. Hvað veit maður um það? Nákvæmlega ekkert. Það hefur oft sýnt sig að það sem á alls ekki að geta gerst það gerist. Það verður að hugsa svona mál í princippum en ekki út frá tilfinningum. Það þarf að setja upp mismunandi sviðsmyndir og rekja síðan viðbrögð við hverri fyrir sig eftir mismunandi útfærslu. Fyrstu viðbrögð við verstu sviðsmyndum í þessu sambandi er vitaskuld að leita leiða til að draga úr möguleikum á útköllum.

Hvernig er hægt að fækka útköllum og minnka þannig líkurnar á að svona staða skapist? Það er aðallega hægt á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með fræðslu og upplýsingum. Ég ætla ekki að rekja útfærslu á því enda hægt að gera það á margan hátt. Í öðru lagi er til áhrifamikil aðferð til að fækka útköllum og þar með minka álagið á björgunarsveitir landsins. Það er með því að láta menn borga útkallskostnað við ákveðnar aðstæður. Það er náttúrulega absúrd að þegar rjúpnaveiðitímabilið hefst ár hvert að þá sé farið að ræða um líkleg og væntanleg útköll björgunarsveitamanna til að færa rjúpnaskyttur til byggða eins og hvern annan sjálfsagðan hlut. Þegar þarf að leita að mönnum vegna þess að þeir eru villtir sökum þess að þeir hafa ekki tekið með sér GPS tækið eða kunna ekki á það, hafa ekki áttavita eða kunna ekki á hann eða hafa ekki tekið með sér nesti og eru orðnir magnþrota af hungri þá eru engar afsakanir gildar. Hér ræður hrein og klár heimska för. Það myndu allar rjúpnaskyttur fljótlega fara að læra á GPS tækið og muna eftir að hafa með sér nesti ef fréttir af háum útkallsreikningum við slíkar aðstæður myndu fara að berast.Þegar jeppakallar strauja inn á hálendið eða upp á jökla um hávetur án þess að hafa heyrt minnst á veðurfréttir hvað þá að hlusta á þær þá er eitthvað stórkostlegt að. Þegar ferðaskrifstofur lenda í hættu með viðskiptavini sína vegna vanþekkingar, vanmats á aðstæðum eða ónógs undirbúnings þá er það mannaskuld. Ef þeir sem kalla á björgunarsveitir við slíkar aðstæður sem hér er lýst að framan þyrftu að borga vænan útkallsreikning þá myndi þessi útköll hverfa eins og dögg fyrir sólu. Það myndi minnka álag á björgunarsveitir verulega og kostnað sveitanna. Þær gætu einbeitt sér að meginhlutverki sínu að koma fólki til aðstoðar við aðstæður sem það ræður ekki við. Björgunarsveitakerfi landsins er nefnileg allt of dýrmætt til að það megi halda þeim uppteknum við allra handa útköll sem hægt er að koma í veg fyrir á tiltölulega einfaldan hátt.

Af því ég veit að það eru langt í frá allir sammála mér í þessu efni þá geri ég ráð fyrir að það yrði sagt sem mótrök við skoðunum mínum að það sé ekki hægt að skilja á milli tegunda útkalla, þetta sé og flókið og viðkvæmt, það eigi að hugsa um náungakærleikann o.s.frv. o.s.frv. Mín skoðun er engu að síður sú að starfsemi björgunarsveita að almannaheill eigi að beinast fyrst og fremst að því að aðstoða fólk sem lendir í aðstæðum sem það ræður ekki við og ber ekki ábyrgð á. Þegar þær eru kallaðar út til að aðstoða fólk sem skapar sinn eigin vanda sjálft þá á það að kosta útkallsbeiðandann peninga. Það mun fljótlega fækka þeim tegundum útkalla verulega. Síðan verður að leita leiða til að fræða erlent ferðafólk um eðli náttúru landsins og þær hættur sem hún býr yfir. Það gæti bæði bjargað mannslífum og dregið úr gríðarlega kostnaðarsömum útköllum og erfiði og álagi á það ágæta fólk sem sér tíma sínum vel varið í starfsemi björgunarsveitanna.

Í gær var haldið ættarmót Bakkasystkina (mömmu og systkina hennar) og afkomenda þeirra. Það var vel mætt og fín samkoma. Um 80 manns mættu og var um 87 ára aldursmunur á þeim elsta og yngsta. Þeir bræður Helgi og Halldór Árnasynir stjórnuðu samkomunni af alþekktum myndugleika. Ragnar frændi á Bakka flutti góða samantekt um foreldra þeirra Bakkasystkina, Gunnlaug afa og Önnu ömmu. Gunnlaugur og Anna eru því mjög algeng nöfn í mínum frænsystkinahópi. Þau hófu búskapinn í torfkofa fyrir um 90 árum síðan við lítil efni. Þau komu átta börnum vel til manns, efldu jörðina að nýbyggingum og ræktun og skiluðu góðu dagsverki til næstu kynslóðar. Afi fékk lömunarveikina um tvítugt og gekk við staf upp frá því. Þeir sem til þekkja segja með ólíkindum hverju hann kom í verk við erfiðar aðstæður. Fötlunin gerði það að verkum að hann lagði sig fram um að vinna verk sem hægast og hugsaði nýjar lausnir á mörgum erfiðisverkum. Þrátt fyrir næg verkefni við búið þá sýslaði hann við ýmislegt annað þar fyrir utan s.s. ljósmyndun, bókband, félagsmálastörf, kórsöng og grenjavinnslu. Unga fólkið hefur afar gott af því að heyra frá því við hvaða aðstæður afar þeirra og ömmur ólust upp við og skynja að það var ekki allt sjálfsagt hér áður sem fólki finnst svo sjálfsagt í dag að það er ekki einu sinni hugsað um það.

Engin ummæli: