Ég hef ekkert bloggað að undanförnu enda er það kannski bættur skaðinn. Ég fór að velta fyrir mér hvers vegna ég væri að þessu. Er það einhver sýniþörf, er það vegna þess að maður heldur að það taki einhver mark á því sem verið er að tuða eða er þetta kannski nokkursskonar dagbók sem gaman er að skoða síðar til að rifja upp hvað hefur verið efst á baugi á fyrri árum. Ég hallast helst að því síðasttalda. Ég byrjaði að blogga í ársbyrjun 2005 þegar ég var að búa mig undir Western States. Þá var það nokkurskonar upphersla eða til að sýna mér sjálfum að það væri engin leið til baka. Þegar væri verið að búa sig undir ákveðið markmið fyrir opnum tjöldum þá væri ekki annað hægt en að standa við fyrirfram ákveðna áætlun og leggja allt undir. Nú er ekki lengur þörf á slíkum trixum í sama mæli og áður. Það er engu að síður gaman að fara yfir hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig í undirbúningi einstakra hlaupa og í hlaupunum sjálfum.
Þegar bloggheimarnir opnuðust þá var það ágæt nýbreytni og það var gjarna farið yfir sviðið og skannað hvað hinn eða þessi sagði. Nú er það breytt. Ég les yfirleitt ekki að staðaldri nema blogg hjá örfáum mönnum. Annað er allt að því tímaeyðsla. Síðan er annað sem gerir mann fráhverfan að vera að tjá sig á þennan hátt. Það virðist svo sem einhversstaðar sé ákveðið hvernig maður á að hugsa og hvaða skoðanir maður á að hafa, alla vega í sumum málum. Ef einhver dirfist að hafa skoðun sem fellur ekki undir þetta norm þá er ráðist á viðkomandi af þvílíkri heift af það er með ólíkindum. Hægt væri að nefnda nokkur dæmi um það hér en það skal ógert látið. Svona viðbrögð gera það að verkum að maður er farinn að ritskoða sjálfan sig til að lenda ekki í kvörninni. Sjálfsþöggun vegna ótta við vðbrögð við því að ákveðnar skoðanir falli ekki í kramið hjá einhverjum er ekkert annað en merki um að það sé ákveðin skoðanakúgun í gangi. Hér á árum áður var skoðanakúgun kölluð ýmsum nöfnum sem þykja heldur ljót enn í dag. Maður sér einnig að það er ausið yfir menn fúkyrðum og skítkasti í kommentum ef menn dirfast að stíga út af þeirri braut sem hin viðtekna skoðun telur þá einu réttu. Hver er þá tilgangurinn með því að vera að tjá sig opinberlega ef það kallar einungis á að skítdreifarar samfélagsins fá ástæðu til að opna fyrir lokuna. Ábyrgð þeirra fjölmiðla sem leyfa opna umræðu á heimasíðum sínum er mikil. Mér finnst að reynslan hafi sýnt að það sé full ástæða til að loka fyrir það að fólk geti tjáð sig undir dulnefni. Það væri von til að umræðan yrðu aðeins hófstilltari við það.
Ég skráði mig í The Grand Union Canal Race seint í október. Það er 144 mílna hlaup sem liggur frá Birmingham til London og fer fram 2. og 3. júní n.k. Það komast 100 þátttakendur með í hlaupið og þar sem fleiri skráðu sig þá verður dregið um hverjir fá að hlaupa legginn. Drátturinn fer fram um helgina og ég fæ að vita í næstu viku hvort ég kemst inn. Það verður spennandi að sjá hvort það gengur upp því þetta er alvöru hlaup. Þetta er annað lengsta hlaupið í Englandi það ég best veit. Tíminn sem gefinn er er 44 klst. Hlaupið er nokkuð jafnlangt og Spartathlon en þar þurfti maður að ljúka hlaupinu á 36 klst og þar að auki var yfir tvö fjöll að fara sem ekki er raunin á í Englandi. Ef þetta gengur upp þá er það fínt ef ekki, þá finnur maður sér eitthvað annað. Tók 20 km hring í morgun með Jóa, Sigurjóni og Gunna Palla. Það var fínt og lærið er að mestu leyti hætt að láta vita af sér.
laugardagur, nóvember 05, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli