Þetta Núbó dæmi á Grímsstöðum er eiginlega allt með ólíkindum, alveg frá upphafi til enda. Það byrjar með því að það er lanserað út að ljóðskáld og náttúruunnandi frá Kína sem hafi hrifist svo af Íslandi hafi séð bújörð auglýsta og gert í hana tilboð. Hann hafði síðan áfrom um að byggja upp ferðaþjónustu, reisa á jörðinni 400 gesta hótel og byggja golfvöll svo dæmi séu tekin um hugsanlegar framkvæmdir. Hann hafi oft tekið farsælustu ákvarðanir sínar í viðskiptum á meðan að hann orti ljóð svo þarna hlaut hann að hafa ort heilan ljóðaflokk miðað við öll áformin. Það var ekki verra að hann hafði haft sterkar taugar til þjóðar og lands síðan á áttunda áratugnum síðan honum hafði verið gefin lopapeysa af skólafélaga sínum frá Íslandi sem var í skólavist í Kína í boði kínverska kommúnistaflokksins. Svo hafði hann komist á bragðið með að borða harðfisk og hákarl og drekka íslenskt brennivín svo það var erfitt að biðja um meira. Sannur íslandsvinur var mættur. Áform um framkvæmdir á jörðinni voru upp á fleiri tugi milljarða króna og þær áttu að hefjast strax næsta vor. Hann vildi byrja sem fyrst því það var eitt af áformum hans að leggja íslendingum lið í baráttu við kreppuna því af aurum átti hann nóg. Það skipti ekki öllu máli í þessari umræðu þótt Grímsstaðir á Fjöllum liggi það hátt í landinu að þar vex varla stingandi strá, golfvöllur skyldi byggður.
Það var einungis einn galli á gjöf Njarðar, Núbó mátti ekki kaupa jörðina samkvæmt gildandi landslögum. Því var sent erindi til innanríkisráðuneytisins þar sem óskað var eftir undanþágu frá lagatexta. Meðan beðið var eftir úrskurði ráðuneytisins þá var tíminn notaður vel s.s. að bjóða íslenskum skáldum til Kína til að lesa upp ljóð. Fyrir tilviljun voru valin til ferðarinnar skáldkona sem var alin upp í næsta hreppi við Grímsstaði svo og sonur fyrrverandi forseta landsins. Sá lét vel af Kínaförinni í viðtali við Mbl.
Margir urðu afskaplega glaðir við þessar fréttir og vildu drífa jarðakaupin í gegn sem fyrst svo hægt væri að hefjast handa og auka umsvif og hagvöxt á Norðausturlandi. Þó voru einhverjir efins. Meðal þeirra var hótelstjórinn í Reynihlíð sem hefur dágóða reynslu af hótelrekstri. Hann skrifaði ágæta grein um hvaða umgjörð þyrfti í kringum 400 gesta hótel. Það kom í ljós að það þyrfti að byggja upp dágott þorp er til að standa undir slíkri stassjón. Það þyrfti að byggja upp íbúðarhúsnæði, veitukerfi að og frá, þarna þyrfti ýmsa opinbera þjónustu s.s. leikskóla, skóla og annað sem tilheyrir þéttbýli af þessari stærð o.s.frv. o.s.frv. Þessar upplýsingar slógu ekki á efasemdaraddirnar því maðurinn hlaut að sjá lengra en aðrir. Síðar kom í ljós að Núbó hefði verið hátt settur innan Áróðursmálaráðuneytis Kína. Áróðursmálaráðuneytið í Kína er nú engin auglýsingastofa heldur segja kunnugir menn að þar sé á ferðinni stofnun sem sé samsvarandi KGB í Sovétríkjunum gömlu. Þeir sem ekki vita hvað KGB starfaði við geta sem best gúgglað það. Þau fyrirtæki sem Núbó rekur eru heldur dularfull og ekki hægt að henda reiður á þeim segja þeir sem hafa lagt sig eftir því. Ákveðinn áróður fór greinilega af stað. Fréttir bárust af því í gegnum fjölmiðla að tuga milljarða fjárfesting væri í uppnámi ef Innanríkisráðuneytið svaraði ekki já og það strax.
Sérfræðingar Innanríkisráðuneytisins fóru yfir málið og komust að niðurstöðu. Kaup þessa manns stönguðust á við íslensk lög. Punkt. Slut. Þá kom í ljós innistæðan fyrir íslandsvináttunni og hve þakkirnar fyrir lopapeysuna ristu djúpt. Áður en sólarhringur var liðinn frá úrskurði ráðuneytisins var Núbó kallinn hættur við allt saman, hundfúll og hreytti ónotum í land og fólk. Það er nú hinsvegar einu sinni svo að sjaldan fellur tré við fyrsta högg. Ef kaupsýslumaður með nef fyrir viðskiptum hefur trú á einhverju verkefni þá gefst hann ekki upp við fyrsta mótbyr. Ef hótelið á Grímsstöðum og golfvöllurinn góði hefðu verið svo arðbær prósjekt í huga íslandsvinarins frá Kína þá hefði hann farið að hugsa út leiðir til að ná því gegn ef jarðakaupin gengju ekki í gegn. Ef hann hafði svo mikinn vilja til að nota milljarðana sína til að hjálpa íslendingum í erfiðri stöðu m.a. vegna ástar sinnar á harðfiski og hákarli, þá hefði hann leitað eftir því að fá leigða góða landspildu af ríkinu fyrir allar framkvæmdirnar. Innanríkisráðuneytið hefur vitaskuld ekki frumkvæði að slíkri samningagerð. það ætti hver maður að sjá. Ráðuneytið er ekki fasteignasala. Nei, hann var snöggur til að gleyma öllum fyrirhuguðum góðverkum og sagðist bara hafa samskipti við Svía og Finna fyrst íslendingar væru svona vanþakklátir að gera ekki allt sem hann fór fram á, orðalaust.
Við getum ímyndað okkur að því sé ekki veitt eftirtekt erlendis sem gerist hér í fásinninu. Það var öðru nær í þessu tilviki. Það var t.d. forsíðufrétt í Financial Times að ráðuneyti innanríkismála á Íslandi hefði stoppað fyrirhugaða landvinninga kínverja hérlendis. Bragð er að þá barnið finnur. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé slík gúrkutíð hjá FT að þeir hafi ekki haft neitt annað í fréttum en einhverja jarðasölu á íslandi sem þrautavararáð. Þetta var sem sagt stórmál í augum margra erlendra fjölmiðla.
Það var með ólíkindum að heyra málflutning ýmissa aðila hérlendis eftir úrskurð ráðuneytisins. Menn hreint misstu sig yfir því að manni úr innsta hring kínverska kommúnistaflokksins skyldi ekki veitt undanþága frá gildandi lögum og seld tæp 0,3% af landinu. Það er eins og þeir hafi aldrei heyrt talað um princip umræðu. Ég hef spurt hvað myndu menn segja ef það kæmi tilboð upp á 100 milljarða króna fyrir Vestfirði komplett. Íbúðarhús, bújarðir og fyrirtæki. Ef 100 ma. væru ekki nóg þá væri hækkað í 200. Eru Vestfirðir falir? Hver eru principin? Hvað er falt? Þeir sem vilja selja Grímsstaði umhugsunarlaust verða að svara svona spurningu. Ef Grímsstaðir eru eyðimörk þá eru Vestfirðir grjót.
Í mínum huga er málið ákaflega einfalt. Kínverjar sá möguleika á að ná varanlegri fótfestu hérlendis með landakaupum þrátt fyrir gildandi lög. Þeir eru þekktir fyrir að hugsa strategískt með langtímasjónarmið í huga. Það er út af fyrir sig mjög skynsamlegt. Þeir álitu sem svo að íslendingar stæðu höllum fæti í slíkri umræðu vegna efnahagsástandsins. Því væri um að gera að veifa nógu stórri ávísun framan í þessa norðurhjarabúa. Ísland liggur nefnilega ekki langt frá Norðurpólssvæðinu.
Asni klyfjaður gulli kemst innum flest borgarhlið, það hefur sagan sýnt. Það gekk þó ekki í þetta sinn, ekki enn að minnsta kosti.
mánudagur, nóvember 28, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli