Ég hef undanfarið verið að lesa bókina sem enginn vill hafa nafnið sitt í, nefnilega bókina Íslenskir kommúnistar 1918 -1998. Hún er ágætlega skemmtileg aflestrar þótt efnið sem slíkt sé misskemmtilegt. Ég skrifa kannski um bókina síðar en ég sé að það hefur ekki matt muna miklu að ég hafi komist í nafnaskrá bókarinnar. Það er minnst á Vináttufélag Íslands og Kúbu í bók Hannesar og nokkrir nafngreindir sem fóru í vinnuferðir til Kúbu fyrir um 30 árum síðan. Ég var einn þeirra sem fór í slíka vinnuferð um áramótin 1979-1980. Það var engin boðsferð heldur borgaði maður pakkann sjálfur. Það hefur reyndar kannski ekki verið innheimt há húsaleiga fyrir skálann sem við sváfum í. Ég var staddur hjá Hauk bróður um vorið 1979 í sambandi við 90 ára afmæli Hvanneyrarskóla. Þá fletti ég Þjóðviljanum einu sinni sem oftar og sá auglýsingu þar sem auglýst var eftir þátttakendum í vinnuferð til Kúbu um veturinn. Ég hafði ekki komið nema einu sinni áður til útlanda þegar þarna var komið en langaði að brjótast aðeins úr viðjum vanans. Því sótti ég um að fá að taka þátt í þessari ferð, því ekki það. Það höfðu ekki margir farið til Kúbu af Rauðasandinum á þessum tíma. Þetta gekk eftir og svo var flogið til Kúbu um miðjan desember í gegnum Danmörku, Finnland og Kanada. Þarna var samankominn 200 manna hópur frá Norðurlöndunum sem deildi súru og sætu dáltinn spöl fyrir utan Havanna í mánaðartíma. Þetta var náttúrulega fyrst og fremst gríðarlega skemmtileg upplifun. Við unnum við að tína appelsínur og mandarínur, byggja undirstöður undir blokk, mála blokk og rétta nagla (því allt var vel nýtt). Þarna komst ég hvað hæst í mannvirðingarstöðunni sem iðnaðarmaður. Ég hafði haldið á hamri áður og þegar spurt var hvort væri einhver carpender í hópnum (ég vissi fyrst ekkert hvað carpender þýddi) þá gaf ég mig fram. Við vorum látin slá upp mótum fyrir undirstöður að nýrri blokk. Ég raðaði nöglum í kjaftinn og negldi af miklum ákafa. Þetta þótti innfæddum afar magnað og ég var innan skamms tíma munstraður í stöðu yfirsmiðs. Þegar var farið að steypa þá kom steypubíll með hræruna og renndi henni í sílóið. Yfirsmiðnum var svo fengin hin ábyrðarmikla staða að hleypa úr sílóinu í mótin. Það vita allir sem hafa komið að steypuvinnu að hærra verður ekki komist á þessum vettvangi. Síðan var skarkað í mótunum með steypustyrktarjárnum því víbrator var ekki til. Þegar beðið var eftir næsta bíl þá tók ég líka járn og fór að skarka því mér leiddist að gera ekki neitt. Þá stukku innfæddir til og sögðu: No, no, you are the specialist!!! Kröftum svona verðmæts manns var skyldi ekki sóað í eitthvað skark.
Maður hafði nú ekki mikinn áhuga á innrætingunni en þeim mun meiri áhuga á að njóta þessara vikna eins og hægt var. Sígaretturnar voru svo ódýrar þarna að maður fór vitaskuld að reykja aftur, Havanna Club 7 ára var drukkið eftir þörfum flest kvöld og svo var spáð í stelpurnar. Það voru einhverjir leiðinda fyrirlestrar sum kvöld en þá svaf maður yfirleitt eða laumaðist burt. Aftur á móti voru nokkrum sinnum mjög skemmtilegir tónleikar og rís Carlos Puebla hæst í minningunni í þeim efnum. Við ferðuðumst töluvert um, bæði var okkur sleppt lausum í Havanna og eins fórum við í viku ferð suður eftir Kúbu allt niður til SanDíagó. Við skoðuðum verksmiðjur, bændabýli, skóla og einu sinni komum við á geðveikrahæli. Það má líklega segja að þar var dálítið "Set Up" en það hafði verið sett upp íþróttamót fyrir sjúklingana á velli sem þar var. Við komum í bjórverksmiðju sem var vægt sagt ekki aðlaðandi vinnustaður. Allt sem illa gekk var sagt Bandaríkjamönnum að kenna. Það má svo sem segja að viðskiptabann þeirra hafði vitaskuld sitt að segja en Kúbu var á þessum tíma haldið uppi af austurblokkinni. Allslags tæki og tól voru flutt til Kúbu fyrir lítinn pening. Fyrir sykurinn var aftur á móti greitt á því verði sem Kúba þurfti að fá til að halda ekónómíunni gangandi. Ég man eftir að einu sinni var verið að segja okkur hvað Kúba væri mikil fiskveiðiþjóð og nefndar tölur um heildarafla í því sambandi. Ég vissi hvað heildarafli var mikill á Íslandi, sem var miklu meiri en afli Kúbumanna, og sagði frá því. Það féll ekkert í sérstaklega góðan jarðveg. Ég man að manni þótti undarlegt að við vorum undir það búin að þurfa að framvísa kvittunum fyrir öllu sem við höfðum keypt við brottför úr landinu svo hægt væri að bera þær saman við gjaldeyrinns em við höfðum með okkur við komuna til landsins. Svo átti að stemma af. Maður kynntist vöruskortinum því þegar mig vantaði filmur í vélina þá voru bara til svarthvítar filmur. Þegar flassið varð battéríalaust þá var úr vöndu að ráða því batterí fengust ekki og maður var mállaus á spænska tungu. Við gengum því á milli búða í Havanna, bentum á flassið og réttum upp litla puttann til að sýna hvaða stærð mig vantaði. Það hafðist á endanum að kaupa batterí sem pössuðu.
Maður á enn margar góðar minningar frá þessum tíma sem tók alltof fljótt enda. Íslendingahópurinn var hæfilega alvörugefinn í þessari ferð en hafði því meiri áhuga á að njóta stundarinnar í hópi góðra félaga. Við héldum mest sjó með Finnunum eins og oft gerist innan norrænnar samvinnu. Ég skrifaði einhverja grein í Þjóðviljann þegar ég kom heim og sagði frá ferðinni. Það var held ég fyrsta grein sem ég skrifaði í fjölmiðla. Síðar sá ég að í næstu ferð tók þátt í henni af Íslands hálfu fólk sem fór líklega í hana af miklu meiri alvöru, alla vega miðað við hve gáfulega það talaði á fundum Alþýðubandalagsins á þessum árum. Þessi ferð olli hins vegar straumhvörfum í lífi mínu því þegar heim var komið þá tók ég ákvörðun um að sækja um skólavist í Svíþjóð. Ég hafði kynnst það mörgum Svíum og Finnum í ferðinni að það var ekki eins fjarlægt og áður að flytjast erlendis. Ég bjó svo í Svíþjóð og Danmörku að mestu leyti næstu sjö árin en það er önnur saga.
Ég var heppinn um daginn. Þá fékk ég tölvupóst frá R.J. Dick sem sér um framkvæmd hlaupsins milli Birmingham og London. Einhverra hluta vegna hafði nafnið mitt ekki komist í pottinn sem hinir heppnu voru dregnir úr. Hann bauð mér því að taka þátt í hlaupinu sem ég vitaskuld þáði. Það verða því 144 mílur í byrjun júní á næsta ári. Ég ætla að byrja að æfa formlega nú um mánaðamótin. Ég pantaði hótelherbergi tvær nætur í Birmingham í vikunni. Það kostaði um 50 pund. Svo þarf ég að ganga frá flugi með Easy Jet sem fyrst en það kostar um 130 GBP með einni tösku (báðar leiðir).
Við héldum fund í 100 km félaginu í vikunni. Alls hafa 16 íslendingar lokið 100 km hlaupi eða lengra síðan um miðjan maí. Alls hefur nú 51 íslendingur lokið 100 km hlaupi eða lengra. Fyrir sjö árum vorum við fimm.
föstudagur, nóvember 25, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli