föstudagur, nóvember 04, 2005

Las ágætt viðtal við Sigrúnu Júlíusdóttur prófessor í Blaðinu í gær. Það fjallaði um afleiðingar ofgnóttar og ofdekurs. Foreldrar vilja eðlilega flestir að börn sín verði hamingjusöm og þeim líði vel en án þess þó að það sé látið allt eftir þeim eða að ofdrekra þau. Sigrún segir að ofdekur án skynsamlegra marka geti haft skaðvænlegar afleiðingar á barnið og hindrað það í að öðlast mikilvæga færni í að geta þrifist sem venjulegt fullorðið fólk. Prófessorinn segir að bæði vanræksla og ofræksla eigi það sameiginlegt að hafa slæm áhrif á fólk. Ofræksla er að veita of mikið, sýna undanlátssemi og setja ekki mörk þegar við á. „Íslendingar eru nýríkir og það er einkenni nýríka að vita ekki hvað á að gera við peningana. Ofdekur er því sífellt algengara og tilhneigingin til að bæta mikilvægar þarfir með eftirlæti“ Samkvæmt Sigrúnu geta afleiðingar ofdekurs verið alvarlegar. Hún segir að „Ofdekur og ofgnótt í æsku leiðir til þess að börnin verði eigingjarnir fullorðnir einstaklingar, þeir geti ekki beðið og þurfa að fá allt strax enda vanir því“ Aðspurð að því hvort við megum eiga von á því að í framtíðinni verði margir eigingjarnir einstaklingar á ferli segir Sigrún að það sé viss hætta á því. „Í raun sjáum við þegar merki þess í samfélagi okkar, fólk er orðið eigingjarnara og hugsar meira um sinn eigin skammtímahag“

Svo mörg voru þau orð.

Sá í DV í dag skemmtilega upprifjun Vigdísar Grímsdóttur frá Menningarhátíð á Raufarhöfn. Í síðustu var haldin menningarhátíð í þorpinu með dagskráratriðum daglega alla vikuna. Myndir frá hátíðinni eru á vefsíðu þorpsins og er gaman að renna yfir þær og sjá kunnugleg andlit. Því miður er of langt að skreppa eina kvöldstund þangað en það hefði verið gaman. Vigdís var með upplestur eitt kvöldið og síðan var Kaldaljós sýnt. Hún varð síðan veðurteppt þannig að hún fékk allan pakkann. Hún meðal annars veltir vöngum yfir því í pistli sínum hvers vegna fjölmiðlum finnst ekki það fréttnæmt sem gerist jákvætt á svona litlum stöðum en síðan er sífellt japlað á því sama sem gerist nær þungamiðjunni. Síðan stendur ekki á fjölmiðlunum að mæta á staðinn ef eitthvað gerist sem verra þykir á þessum stöðum og þá oft gert meira úr því en efni standa til. Hún minnist sérstaklega á sönginn hjá Obbu litlu sem nú er orðin 12 ára gömul og segir segir að hann muni fylgja henni héðan af. Ég man eftir Obbu sem lítilli 7 ára gamalli stelpu þegar ég flutti þaðan. Eitt af því sem hefur einkennt Raufarhöfn er mikið tónlistarlíf og gott söngfólk. Sérstaklega eru það Sveinungarnir sem eru þar framarlega í flokki.

Engin ummæli: