fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Er að velta fyrir mér fréttaflutningi eins og fyrri daginn. Hvað er frétt og hvað er ekki frétt? Hvað á erindi í fréttir og hvað ekki? Mér finnast skilin þarna á milli vera oft ansi óljós. Ég sé til dæmis ekkert fréttnæmt við það að einhver prestur hafi þá skoðun að það eigi að gefa saman samkynhneigða í kirkju. Það getur vel verið persónuleg skoðun viðkomandi prests en mér finnst hún ekki frétt út af fyrir sig. Hvað ef einhver prestur hefði talað um að kirkjan ætti ekki að gefa saman samkynhneigða? Væri það frétt ef NN í kirkjunni XX segði að hann teldi að kirkjan ætti ekki að standa fyrir slíku? Eða væri fréttin þá orðin á þann veg að það væri ágreiningur innan kirkjunnar um málið? Það væri líkara því að vera frétt heldur en einstaklingsbundin skoðun einhvers manns (sem er kannski bara að reyna að koma kirkjunni sinni í umræðuna). Það er frétt ef kirkjuþing mótar stefnu en ekki þegar einhver maður útí í bæ hefur einhverja skoðun.

Annað um "fréttir".
Ég bjó á norðurlöndum í sjö ár hér í den tíð. Ég horfi oft á erlendar fréttir. Ég sé hvergi í nágrannalöndum okkar neitt í áttina við hvað er talið vera fréttir úr umræðum á Alþingi. Það er engu líkara að þingfréttamönnum sé skipað að koma með a.m.k. eina "frétt" frá Alþingi á hverjum degi sem þingið stendur. Líklega er svo lítið af fréttum í landinu, alla vega jákvæðum fréttum, að reynt er að fylla upp í útsendingartímann með oft á tíðum óttalegu þvaðri frá þinginu. Hvað er fréttnæmt við að þingmaður spyr einhverrar spurningar og viðkomandi ráðherra svarar einhverju og allir standa jafngóðir (eða fáfróðir) eftir? Ég sé það ekki. Þingmenn eru farnir að spila á að komast í fréttatíma og fá þannig auglýsingu. Tryggt virðist vera að ef þingmenn hreyta úr sér nógu miklum stóryrðum þá eru þeir komnir í fréttatímann og oft umræðuþátt á eftir. Skelfing er þetta oft dapurlegt.

Örnefni á Rauðasandi. Ég er búinn að skrifa Örnefnastofnun um Rauðasand en ekki búinn að fá svar. Á hinn bóginn finnst ekkert Máberg sem bæjarheiti til í skrám Örnefnastofnunar því vitaksuld heitir jörðin Móberg. Þannig notar höfundur Íslands Atlas einhvert örnefnaónefni sem er ekki til bæði á bæinn heima og örnefni honum tengd. Þetta finnast mér vera skrítin vinnubrögð hjá manni sem kynntur er til sögunnar sem einn fremsti kortagerðarmaður landins eða hjá þeim sem hann sækir sínar upplýsingar til. Ég ætla ekki að alhæfa neitt en mér finnast furðu margar villur og ambögur vera að finna í þessum litla sveitarhluta vestur á fjörðum. Kannski er það undantekning. Dýr myndi Hafliði allur.

Fyrir ultrahlaupara. Áhugi fyrir ultrahlaupum vex bæði í Noregi og Danmörku. Ný hlaup eru að þróast. Nú er Havstein hinn danski stórhlaupari að skipuleggja hlaupaseríu í Danmörku. Hlaupið er bæði langs og þvers yfir Danmörku og síðan hringinn í kringum Borgundarhólm. Fyrir þá sem ekki vita hvað þeir eiga af sér að gera í ca 10 daga í sumarfríinu árið 2007 þá er þetta valkostur.

Þarf að fara að hlaupa meira.

Engin ummæli: