Nú er kallaráðstefna á morgun. Ég verð nú að segja að uppleggið finnst mér vera ein mesta steypa sem ég hef séð í tenglsum við ráðstefnu sem gerir kröfur til að vera tekin alvarlega. Konum bannaður aðgangur. Hvaða rugl er þetta? Er það nú orðið The New Wave í jafnréttisbaráttunni að ræða hana fyrir luktum dyrum gagnvart hinu kyninu. Ég hélt að ef eitthverju er ábótavant í þessum málum þá sé leiðin til árangurs að fara yfir hlutina fyrir opnum tjöldum. Síðan er það dagskráin. Sex ræðumenn á 47 mínútum!! Hver skipuleggur þetta? Hverju ná menn fram með svona örerindum? Ég tel vissara að hafa fundarstjórann vel vopnaðan ef dagskráin á ekki að fara úr böndunum. Svo á Egill Helgason að stjórna tveimur pallborðsumræðúm á samtals 50 mínútum. Þetta er svona hraðsoðið shortcut en það er varla hægt að kalla þetta alvöru umræðu, hvað þá að ætlast til að hún skilji eitthvað eftir sig.
Góðar greinar í Mbl í morgun um málefni kynjanna. Bæði var þar fjallað um ofbeldi kvenna gagnvart körlum sem hefur verið algert tabú í umræðunni um kynbundið ofbeldi, heldur hefur hún einvörðungu beinst að því að kallar séu of oft eins og fjandinn sjálfur. Ég ætla ekki að gera lítið úr heimilisofbeldi þar sem karlar eru gerendur en umræðan er ekki heiðarleg nema sé fjallað um allar hliðar þess. Síðan var annar sem fjallaði um stöðu feðra eftir skilnað. Þeir eru of oft beittir miklum rangindum með takmörkunum á umgengnisrétti við börn sín. Einhliða öfgakennd umræða um karla hefur að líkindum veikt stöðu þeirra í þessum efnum. Ég þarf ekki að leita lengra en hver örlög frænda míns eins urðu þegar hann gat ekki lengur staðið undir því sem á hann var lagt eftir skilnað.
Í sjónvarpinu fyrir fáum dögum var fjallað um sýningu á málverkum eftir nokkrar konur sem stunduðu myndlist um og fyrir næstsíðustu aldamót. Einhver fréttamaður ræddi við rithöfund eða listfræðing sem hafði haft veg og vanda af því að draga verk þessara kvenna fram í dagljósið. Þetta eru konur sem ekki hafa farið hátt í listasögunni en saga þeirra hefur nú verið færð í letur það ég best man og síðan er haldin sýning með verkum þeirra. Þetta voru allt konur sem voru á sínum tíma komnar út af efnuðu fólki sem gerði þeim m.a. kleyft að fara erlendis til náms í myndlist. Síðan er farið yfir það í viðtalinu að þegar heim er komið þá leist þeim ekki á að helga sig myndlistinni einvörðungu og tóku því til við að stunda aðra iðju sem lifibrauð. Eftir að spyrjandinn (sem var kona) var kominn að þessari niðurstöðu þá var það niðurstaða hans að það hefðu náttúrulega verið "helvítis" kallarnir sem hefðu sett fyrir þær fótinn.
Ohhh.
Ég get bara rétt ímyndað mér að það hafi ekki verið sérstaklega fýsilegt fyrir einn eða neinn að lifa alfarið af myndlist hérlendis um aldamótin 1900. Það litla sem ég hef t.d. lesið um Jóhannes Kjarval, okkar fremsta málara, þá lifði hann engu sældarlífi fjárhaglega lengst af og fórnaði einnig fjölskyldunni fyrir listina. Því skil ég mætavel að þessar ágætu konur hafi talið það skynsamlegra að afla sér tekna af öðru í stað þess að lifa stöðugt í þeirri óvissu hvernig málverkum þeirra yrði tekið af hugsanlegum kaupendum.
Ég verð að segja að ég er orðinn mjög þreyttur á þessari jafnréttisumræðu eins og hún er kölluð og hefur hefur farið fram hérlendis á liðnum misserum. Svo er einnig um marga aðra og ekki síst ýmsar konur sem ég heyri í. Síðasta uppákoman var umræða um rafiðnaðarmenn. Konur hafa einhver 80% af heildarlaunum karla í stéttinni. Hverju ætli það sæti? Því er ekki spurt hvers vegna það séu 3.600 karlar rafiðnaðarmenn en einungis 400 konur. Ég fór til tannlæknisins míns á mánudaginn. Hann er m.a. að sarga pípara til sín til að klára að setja nýtt húsnæði í stand. Píparinn kom kl. átta á sunnudagsmorgni og vann allan daginn og tannlæknirinn var út um allan bæ að draga það að sem píparinn þurfti að nota. Getur það verið að það séu ekki allir jafn hrifnir af því að vinna á daginn, kvöldin, nóttunni og um helgar eins og iðnaðarmenn gera gjarna? Kynjabundinn munur á heildarlaunum felst meðal annars í þessu.
Ég ætla ekki á kallaráðstefnuna á morgun.
miðvikudagur, nóvember 30, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæll frændi. Þetta með kynjabundið launamisrétti skýrist ekki af mismunandi vinnutímum. Það kemur vel fram hér á "Agureyris" og því sem gerst hefur í launamálum bæjarstarfsmanna hér undanfarið. Til að jafna sannanlegt misrétti (Akureyrarbær hefur fengið á sig nk. dóma vegna þessa) var farin sú leið að segja upp öllum "extra" samningum bæjarstarfsmanna, sem nær allir reyndust vera karlmenn, það þótti sem sé ekki fært að hækka konurnar sem voru og eru í sambærilegum störfum upp í laun karlanna. Nei það hefði riðið Akureyrarbæ að fullu fjárhagslega að þvi að talið var. Svo verður bara að koma í ljós hvernig þróun mála verður eftir komandi kosningar í vor. Það verður fróðlegt að sjá hvernig málum verður skipað þá.
En með allar hliðar jafnréttis; með lögum um fæðingarorlof þar sem körlum var gert kleyft sú sjálfsagða aðstaða að geta tekið fæðingarorlof líka og verið heima með börnunum sínum á yngsta aldursskeiðinu, þá hafa þeir líka farið að finna fyrir viðhorfi atvinnurekanda, þ.e. sumir hverjir misst vinnuna vegna þess að þeir eignuðust börn og nýttu sér lagalegan rétt sinn. Fínt segi ég, því þá er kanski, KANSKI, einhver von til þess að það verði hætt að verðfella konur sem starfskrafta fyrir það eitt að eignast börn. En konur verða þá líka að taka því að dómskerfið fer að taka þennan tíma með í sitt reiknisdæmi varðandi forsjá barna við skilnað etc og er það vel, þessa er þegar farið að gæta í réttarkerfinu og er bara hið besta mál að ég tel. Löggjafinn er reyndar að gera enn betur með því að leggja fram frumvarp þar sem sameiginleg forsjá verði reglan, en ekki undantekningin og er það vel.
En; enn sem komið er hallar verulega á konur í jafnrétti svona heilt yfir þó að vissulega hafi orðið miklar breytingar í rétta átt á undanförnum árum.
Hilsen að norðan.
Skrifa ummæli