föstudagur, nóvember 18, 2005

Horfði á Silvíu Nótt í gærkvöldi. Fæst orð bera minnsta ábyrgð. Enda þótt verið sé að búa til fígúru þá hélt ég að fleira þyrfti til en að segja "þú veist" í þriðja hverja orði, "skilurðu" í þriðja hverja orði og restin var slitur af samtenginum, upphrópunum og rugli. Bjánahrollur er eiginlega mjög vægt og pent orðaval.

Björn Friðgeir hefur verið að senda mér nótur vegna hugleiðinga um giftingar, erfðir og fleira. það er fínt. Alltaf gott að diskutera. Ég sé hins vegar að við nálgumst umræðuefnið sitt úr hvorri áttinni. Honum finnst ákveðin heimska að átta sig ekki á gildandi reglum. Gott og vel, ákveðin rök fyrir því. Mér finnast aftur á móti gildandi reglur vera heimskulegar. Á þessu er grundvallarmunur. Það nær náttúrulega engri átt að eini aðilinn sem erfir ekki neitt nema að undangengni meðvitaðri ákvörðun sé makinn. Ég man ekki beint eftir sjómannskonudæminu en get ímyndað mér hvernig það er. Það nær náttúrulega engri átt að ef maður og kona búa saman stærstan hluta ævinnar, eiga saman t.d. tíu börn, en vegna þess að þau eru svo óaðgætin að hafa ekki látið lesa sig saman þá erfir eftirlifandi maki ekki krónu. Ég man aldrei eftir því að hafa fengið upplýsingar um gildi giftingar frá hinu opinbera. Segja má að fullorðið fólk eigi að sjá um sig sjálft og hafa vit fyrir sér. Engu að síður hefur hið opinbera og löggjafinn oft vit fyrir fólki. Nefna má í því sambandi að það er skylda að brunatryggja íbúðarhúsið sitt. Fólki er ekki treyst til að sjá um það sjálft.

Það mætti hugsa sér að reglurnar væru öfugar miðað við það sem nú er þannig að þær yrðu þannig að erfðir milli aðila ættu sér ekki stað nema að undangenginni meðvitaðri ákvörðun. Það ætti jafnt við um alla. Þá yrði það sjálfsagður hlutur að ganga frá þessum hlutum fyrir ákveðinn aldur því ella myndi ríkið hirða allt. Ríkið refsaði fólki fyrir það til skamms tíma að hafa ekki tekið meðvitaða ákvörðun um erfðir með stighækkandi erfðafjárskatti eftir því sem erfingi var fjarskyldari. Hvaða rök voru fyrir því? Vitaskuld engin.

Reglurnar verða sjálfsagt aldrei þannig að þær verði fullkomnar eða svo að öllum líki en slæmar eru þær reglur sem virða stöðu makans (og foreldris barna viðkomandi ef um þau er að ræða) ekki meir en að þar sé um að ræða eitthvað svipað og útungunarvél úti í hlöðu ef formleg gifting hefur ekki átt sér stað. Allir aðrir eru rétthærri enda þótt engin meðvituð ákvörðun hafi verið tekin í þá átt.

Víkjum að öðru. Fréttamenn.
Heyrði í gær viðtal um húsafriðun í ríkisútvarpinu. Rætt var við áhugamann um húsafriðun. Fréttamaðurinn var greinilega á bandi húsafriðunarmanna því hann spurði eftir að húsafriðunarsinninn hafði lýst því hvernig tillögur um húsafriðun eru lagðar fyrir sveitarstjórn: "Kemur svo sveitarstjórnin og valtar yfir ykkur?" ef sveitarstjórn samþykkir ekki allt sem fyrir hana er lagt. Ef sveitarstjórnin sinnir lögboðnum skyldum sínum og axlar fjárhagslega ábyrgð við ákarðanatöku þá er það kallað að "valta yfir áhugamenn sem vilja vernda eitthvað hús". Þó eru ekki öll sund lokuð því húsafriðunarnefnd ríkisins getur ógilt ákvörðun sveitarstjórnar en þá er það ekki kallað að valta yfir heldur að fara eftir gildandi reglum.

Annað. Fréttamaður lýsti átökum við Menntaskólann á Ísafirði. Ágreiningur er vegna þess að skólameistari beitir stjórnunarlegu valdi sínu skv. frásög fréttamanns. Það var ekki sagt að hann beitti ofríki eða misbeitti valdi sínu heldur einungis að hann stjórnaði samkvæmt þeim reglum sem fyrir eru lagðar. Það þola bara ekki allir að stjórnandi sinni hlutverki sínu heldur er það þægilegt í huga margra að gera ráðið sér sjálfur. Stjórnandi ræður. Það er svo einfalt. Hann hefur ákveðnar reglur til að fara eftir. Ef hann fer eftir þeim þá er ekkert hægt að segja. Ef hann misbeitir valdi sínu eða fer út fyrir þær reglur sem hann á að vinna eftir, þá er það stjórnandinn sem situr í súpunni. Flóknara er það ekki. Stærstu átökin í síðustu kjarasamningum við grunnskólakennara snerust um að kennarasambandið vildi ekki að skólastjóri gæti stjórnað starfsfólkinu með því að ráðstafa vinnutíma þess.

Ég setti inn undir myndir link á fjögur vídeóklipp frá Badwater hlaupinu í júlí í sumar. Ráðlegg áhugamönnum um langhlaup að kíkja á linkinn. Það rísa á manni hárin við að horfa á þetta. Það voru nokkur sem fóru í Badwater hálfum mánuði eftir WS, þar á meðal Scott Jurek og Monica Schulz. Scott sigraði og setti brautarmet en það var ekki átakalaust eing og sést. Sá sem var nr. 2 hafði útbúið æfingaaðstöðu í garðskálanum hjá sér þar sem hann gat haft um 120 oF (um 40 oC) til að búa sig undir hlaupið. Scott drakk 21 gallon af drykk á meðan á hlaupinu stóð!!! Það er eins gott að hafa veitukerfið í lagi í svona verkum.

1 ummæli:

kókó sagði...

Að sjálfsögðu "þú veist" eiga stjórnendur ekki að stjórna, "skiluru"...
Alveg er ég sammála þér varðandi erfðalögin - gifting er ekki "alvarlegra" samband en sambúð. Eins og staðan er núna - í teygjufjölskyldum þarf fólk virkilega að spá í þessi mál.