laugardagur, nóvember 05, 2005

Fór á námskeið í ljósmyndun í dag til Pálma Guðmundssonar ljósmyndara. Hann kennir í lágreistu húsi við Völustein í Mosfellsbæ, eiginlega út í sveit. Húsið er snyrtilegt en án alls íburðar, minnir nokkuð á vel gert virkjunarhúsnæði. Á stéttinni fyrir utan er hins vegar kunnuglegt merki greypt í stéttina. Í þessu látlausa húsi sem er eiginlega út í sveit í Mosfellsbæ voru Atlanta milljarðarnir búnir til. Það þarf ekki alltaf marmara og dýrasta harðvið í umgjörðina til að lánast í viðskiptum. Pálmi er snjall ljósmyndari og kann sitt fag vel. Það er ótrúlegt hvað hann getur sett mann vel inn í notkun myndavéla á ekki lengri tíma. Það er vel þess virði að setja smá pening í svona námskeið til að læra vel á góða vél sem býr yfir allt að því óendanlegum möguleikum.

Úrslitin í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins eru ljós. Vilhjálmur hefur unnið glæsilegan sigur. Það má segja að þarna hefur innihaldið unnið yfir umbúðunum. Það er ekki nóg að hamra á því að maður sé ungur og eigi framtíðina fyrir sér þegar lítið annað fylgir með. Sem betur fer hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins séð í gegnum þetta og valið skynsamlega. Mér sýnist listinn vera fanta sterkur og valist eins vel á hann og mögulegt var. Frambjóðandinn í 8. sæti kemur t.d. sterkur inn af ýmsum ástæðum.

Engin ummæli: