Þetta gengur heldur hægt, vonir standa til að maður verði fær í vinnuna eftir helgi en það er ekki öruggt. Skrítið hvernig flensan grípur einn heljartökum en lætur aðra í friði. Það er svo sem ágætt að það sé ég ekki væri það betra að það væri einhver annar. Margt sem maður ætlaði að gera á þessum dögum mun frestast en þetta hefst einhvern veginn.
Hóf smá tilraun um daginn. Ég hafði verið með bólgu efst upp við mjaðmarkúluna hægra megin um hríð, ekkert sem plagaði mig en ég vissi vel af þessu. Það var alltaf verkur eða seyðingur. Svo fór ég að hugsa um að þetta væri akkúrat undir gemsanum en hann hangir yfirleitt í beltinu á þessum stað, bæði í vinnunni og utan hennar. Ákvað að prufa að hafa hann bara í vasanum í staðinn og láta hann liggja á borðinu í vinnunni og heima í stað þess að hafa hann í beltinu. Síðan eru liðnar þrjár vikur og verkurinn er horfinn. Ekkert annað hefur gerst. Mér hefur svo sem dottið þetta í hug fyrr að þetta stöðuga geislaáreiti sem skrokkurinn hlýtur að vera fyrir ef maður er með gemsann hangandi á sér dag út og dag inn geti ekki verið hollt. Umræða um geislaáhrif gemsanna er engin hérna miðað við það sem maður sér í Skandinavíu. Ætli það sé ekki vegna þess að það séu svo mikil kross eignatengsl á milli þeirra fyrirtækja sem eiga símafyrirtækin og þeirra sem eiga fjölmiðlana að blaðamannagreyin hafi ekki frjálsar hendur um að fjalla um þessa hlið mála eins og kollegar þeirra á öðrum norðurlandanna.
Euroivision kláraðist í kvöld. Eina lagið sem hefur eitthvað að gera í keppnina vann sem betur fer. Kynþokkafyllsta kona landsins var jafn tilgerðarleg og gerfileg eins og fyrri kvöldin. Þessar sjálfhverfu kynþokkafyllstueitthvað keppnir sem fjölmiðlar standa fyrir þar sem einn úr þeirra hópi verður alltaf sigurvegari eru svo sem ágætir samkvæmisleikir. Það sást í textavarpinu að eina konan sem settur var titill við var Jóhanna Eiríksdóttir hlaupari sem varð í öðru sæti (til hamingju Jóhanna). Það þurfti ekki að kynna hinar, þær voru svo frægar. Menn verða að taka sig saman og negla Bibbu á toppinn í einhverri svona keppni þegar hún er búin að taka Járnmanninn í sumar. Það gerist nú ekki betra. Come hell and high water.
Sá góða mynd í sjónvarpinu í gærkvöldi. Skólastjórinn. Myndin gerðist í London fyrir um tíu árum síðan þar sem skólastjóri sem komin var á eftirlaun var fengin til að taka að sér vandræðaskóla þar sem skólastjórinn hafði verið myrtur. Myndin var athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi kom í ljós hvað mikla þýðingu það hafði að hafa skýra stefnu og standa við hana. Í öðru lagi að setja sér viðráðanleg markmið og ná þeim. Í þriðja lagi kom vel fram hvað krökkunum féll vel við eðlilegan aga. Í fjóðra lagi var áhugavert að margir kennararnir vildu alveg eins hafa vandræðaástandið áfram því það gerði það að verkum að það voru í raun og veru engar skyldur á þeirra herðum og engar kröfur gerðar til þeirra. Eftir að nýi skólastjórinn kom ruglaðist þeirra tilvera því hann gerði einnig kröfur til kennaranna. Enda þótt myndin lýsi samfélagi sem er mjög langt frá því sem við þekkjum (skólagarðurinn læstur með hliði og varinn með gaddavír) þá er ýmislegt sem er vel þekkt hérlendis. Það er alþekkt að undirstaða góðs skólastarfs er góð skólastjórn. Skólar eru misjafnir. Það segir manni að þá er skólastjórnin mjög misjöfn. Það er alltaf talað um nemendurna að þeir séu til vandræða. Þeir eru greindir aftur á bak og áfram. Starfsfólkið er allt að því ósnertanlegt. Aðferðir þess og aðkoma eru sjaldnast greind ef mikil agavandamál eru í skólum, né skólaskipulagið. Maður þekkir ýmis dæmi þess að nemendur sem taldir eru óalandi og óferjandi í einum skóla gengur vel þegar þeir komast í annan skóla.
Horfði einnig á Dantes Peak í gær. Hún fjallar um þegar eldfjall í Bandaríkjunum sprakk í loft upp og lagði nærliggjandi þorp í eyði þegar eldgos braust út. Maður fór í þessu sambandi að hugsa um ruglið í Árna Johnsen um jarðgöng til eyja. Hvaða vitibornum manni getur dottið það í hug að leggja 20 km jarðgöng sem megin samgönguæð út í smá klettahólma sem er virkt eldfjall? Það gaus í Vestmannaeyjum árið 1973 eða fyrir 34 árum árum síðan. Þessi hugmynd er svo kreisí að það nær út yfir allan þjófabálk. Sem betur fer sagði samgönguráðherra í fréttum í gær að samgöngumál til Eyja væru bara ekkert á borði ÁJ. Forsvarsmenn vegagerðarinnar hafa ekki við að leiðrétta bullið í honum eftir að fjölmiðlar hafa leyft honum að þusa. Hvenær skyldu menn segja; Við nennum ekki að hlusta á þetta bull lengur?
Í Dantes Peak sagði eldfjallafræðingurinn sem varaði við hættunni af fjallinu en var ekki trúað að ef froskur væri settur í snarpheitt vatn þá stykki hann upp úr því til að bjarga sér. Ef hann aftur á móti væri settur í kalt vatn og það síðan hitað smám saman þá sæti froskurinn sem fastast þar til hann soðnaði. Mér sýnist ÁJ vera kyndarinn sem sé að reyna að hita vatnið hægt og rólega með því að endurtaka bullið nógu oft þangað til að það eru allir orðnir samdauna því og enda að lokum mauksoðnir.
laugardagur, febrúar 17, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli