þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Mér fundust blöðin æpa framan í mig í morgun með þögninni. Ekki orð um Breiðuvíkurmálið. Ég horfði á Kastljós í gærkvöldi og hlustaði á átakanlegar frásagnir fullorðinna manna sem hafa marga fjöruna sopið gegnum tíðina segja frá minningum sínum frá Breiðuvík. Oft hafa blaðamenn hlaupið í tölvuna eftir umfjallanir í kvöldþáttum sjónvarps og skrifað svo blóðið lak undan nöglunum á því til að ná inn með umfjöllun um málið í morgunblöðin. Nú var ekki orð að finna. Hvers vegna ætli það sé? Er það vegna þess að svo langt er um liðið að þeir atburðir gerðust sem um var rætt. Er það vegna þess að þessir menn hafa ekki fengið sæti á fínustu bekkjum samfélagsins gegnum tíðina eða er það vegna þess að þetta eru miðaldra karlar sem um ræðir. Manni finnst nefnilega að staða þeirra sé í hugum ýmissa á þann veg að þeir séu ekki til. Þegar fullorðnir karlmenn sem hafa líklega ekki linari skráp en hver annar sitja grátandi fyrir framan myndavélarnar við að rifja upp minningar frá barnæsku sinni vestur í Breiðuvík, þá ættu menn að ímynda sér hvernig þeim hefur liðið sem börnum. Manni verður bara illt af tilhugsuninni.

Nú hafa þeir sem viljað hafa vitað um þetta áratugum saman. Þá er ég ekki að tala um skýrslu Gísla sem var stimpluð sem trúnaðarmál af ráðuneytismönnum. Ég man eftir því að Sævar Ciselsky (líklega stafa ég nafnið ekki rétt) lýsti dvölinni í Breiðuvík í bókinni „Stattu þig drengur“ sem hann gaf út rétt upp úr 1980. Hann lýsir því meðal annars hvernig forstöðumaðurinn umræddi kenndi honum að skrifa „skyr“ og „yfir“. Sævar var hins vegar bófi sem enginn hlustaði á.

Breiðavík er úti í „Víkum“ í hreppnum heima. Á þessum árum sem heimilið var rekið þarna var ekki mikill samgangur á milli fólks á Rauðasandi og út í víkum. Ég fór í fyrsta sinn fram hjá Breiðuvík í bíl 17 ára gamall og kom þangað fyrst heim árið 1990. Það var helst að maður sæi strákana frá Breiðuvík þegar þeir komu yfir á Sand í gróðursetningarferðir eða á 17 júní skemmtunum. Af og til heyrði maður talað um að strákar reyndu að strjúka þaðan. Síðasta skiptið voru það tveir strákar sem lögðu á fjöllin í febrúar að því mig minnir 1974. Það var lán að þeir fórust ekki í þeirri ferð. Þaeir sem þekkja fjöllin þarna geta ímyndað sér hvað hefur rekið 14 ára börn í að leggja á þau um miðjan vetur. Annar þeirra hafði verið heima í tvö sumur á vegum félagsmálastofnunar og hann fór ekki að Breiðuvík aftur heldur var heima út veturinn fram á vor. Strákarnir sem höfðu lent í einhverju klammaríi töluðu allir um Breiðuvík sme botninn. Það væri ekki hægt að lenda í neinu verra en fara þangað. Maður heyrði reyndar aldrei talað um að börnum væri misþyrmt í Breiðuvík. Það er náttúrulega ekkert að marka því margt gerist sem fer ekki fyrir almenningssjónir. Maður heyrði hins vegar talað um að það stakk fólk sem kom þarna að strákarnir fengu annan og lakari mat en heimilisfólk og gestir.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig tekið verður á málum Breiðuvíkurdrengjanna í umræðunni á næstu mánuðum og misserum. Í þessu samhengi má minna á málefni norsku barnanna sem voru fædd utan hjónabands, tekin frá mæðrum sínum og alin upp á stofnunum. Þessi heimili voru rekin í Noregi fram á árið 1972. Á seinni árum hefur farið fram umfangsmikil rannsókn á þessari starfsemi og norska ríkið ákveðið að greiða viðkomandi skaðabætur enda þótt slíkur skaði sem þessi börn hafa orðið fyrir sé aldrei bættur með peningum. Í sömu andrá er hægt að nefna írsku stelpurnar sem voru settar í nauðungardvöl hjá kaþólskum nunnum ef þær áttu of náin samneyti við stráka. Myndin sem var gerð um þennan kafla í sögu Írlands var hræðileg. Ég man ekki hvað myndin hét, Magdalenusysturnar eða eitthvað svoleiðis. Málefni heyrnleysingjaskólans hefur einnig komið fram í dagsljósið og þar margt ófagurt dregið fram.

Í haust töluðu sig margir hása út af hlerunum á símum nokkurra manna sem talin var ástæða til að fylgjast með á dögum kalda stríðsins. Það var vísað í rannsóknanefndir á álíka málum í Noregi og skaðabætur til viðkomandi. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort álíka kröfur verða settar fram vegna Breiðuvíkurdrengjanna eða ætli þetta lognist bara útaf. Hver hefur svo sem áhuga á miðaldra karlmönnum með misjafna fortíð?

Sá viðtal við talskonu feminstafélagsins í tveimur blöðum í morgun. Hún og vinir hennar tíu eða hvað þeir eru margir ætla að setja viðskiptabann á einhver fyrirtæki. Ætli þau fái Sameinuðu þjóðirnar með sér í málið?

Að öðrum og skemmtilegri málum. Fór 20 km á sunnudaginn í góðu veðri. Léttur og í fínu formi. Fór á myndakvöld hjá Útivist í gærkvöldi. Chris Lund var að sýna myndir frá Kárahjúkasvæðinu, Kringlisárrana, Snæfelli og fossaröðinni í Fljótsdal frá því í sumar. Fínar myndir.

Engin ummæli: