þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Fór niður í Laugar í gær og í dag. Það er allt í fínu lagi, tek bæði álagsæfingar ala Ívar og er að auka hraðann á brettinu. Hef verið að hækka hraðann um 0,2 km í hvert skipti sem ég hef farið á brettið. Ætla að sjá hvað ég verð kominn hátt upp í vor. Ætla að taka inniæfingar út vikuna en svo verður farið út. Hef reynt að vera skynsamur til að láta flensuna ekki snúa mig niður aftur því maður heyrir af mörgum sem slær niður og það er helmingi verra því þá er maður svo linur eftir fyrsta hvellinn.

Ég heyri að það séu margir hugsi eftir landsfund VG. Netlögga í stíl Big Brother, afnám lýðræðisins með stjórnarskrárbreytingum um ákvæði um jafnan hlut karla og kvenna á Alþingi og miklar skattahækkanir. Er nema von að fólk staldri við.

Ætli stjórnmálamönnum hafi ekki brugðið í brún þegar bændasamtökin létu undan meintum þrýstingi og ráku ráðstefnuna umtöluðu af höndum sér. Ætli þeir hafi nokkuð búist við að þetta gengi svona langt? Líklega hafa menn haldið að umræðan myndi ekki ná lengra en að nokkrar hræður myndu norpa á Hagatorginu með spjöld. Þetta er náttúrulega svakalegt þegar stjórnmálamenn til þings og sveitarstjórna eru farnir að hafa afskipti af gestum hótela "af því að mér líkar ekki við það sem þeir gera". Hvar endar þetta rugl? Á eitthvað bókstafstrúarblogglið að fara að stjórna landinu? Ef að sú verður raunin er gott að hafa í önnur hús að venda.

Ruglið virðist vera endalaust. Nýlega skrifar Mogginn forystugrein um að það verði að útrýma fátækt og það strax. Greinarhöfundur er meir að segja búinn að finna mann í verkið, frænda minn Ögmund Jónasson. Það er eins og fólki sé ekki sjálfrátt. Fátækt verður aldrei útrýmt, hvorki úr þessu þjóðfélagi eða öðrum. Það er ekki flóknara en svo. Það er hins vegar hægt að hafa öryggiskerfið misjafnlega þétt og þar verða stjórnvöld að finna eðlilegan meðalveg. Ekki of stórmöskva en ekki heldur of smáriðið. Ef öryggiskerfið er of gott þá virkar það vinnufælandi eins og raunin er orðin á Norðurlöndunum og í ákveðnum löndum niður í Evrópu.

Fyrir skömmu skrifaði Mogginn forystugrein að fólk verði að fá að kjósa um hvaða laun eigi að borga kennurum og stilla útsvarið eftir því. Það er allt í lagi að blaðamenn leiki jólasveina á góðum stundum en það er verra þegar jólasveinar halda að þeir séu blaðamenn.

Engin ummæli: