fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Vikan hefur verið heldur í þyngri kantinum. Flensan byrjaði að glíma við mig á mánudag og náði mér undir á þriðjudagskvöldið. Það er heldur nýtt fyrir mig því ég er einn að þeim heppnu eða hvað á maður að kalla það sem eru afar afar sjaldan veikir. Nú þýddi hins vegar ekkert annað en að snauta í bólið. María litla varð einnig fyrir barðinu á ehnni og gat því aðeins tekið þátt í fyrri deginum á Reykjavkurmóti unglinga í frjálsum en hún kom heim með þrjá peninga þaðan í gær. Vonandi verður hún orðin heil heilsu á sunnudag en þá bíður enn ein keppnin.

Þegar maður liggur svona heima þá hlustar maður á útvarpið og sérstaklega fréttir. Stundum hvarflar þó að manni hvernig fréttamatið er hjá þeim sem bera hið virðulega nafn fréttamaður. Hvaða fréttagildi hefur það að segja að saksóknari í Baugsmálinu hefði orðið eldrauður í framan þegar dómari stoppaði spurningar hans í réttarsal eins og var sagt frá í hádegisfréttum RÚV? Ekki nokkurt einasta að mínu mati. Væri ég fréttastjóri þá myndi ég leysa viðkomandi fréttamann frá þessu verki og setja hann í eitthvað sem hann ræður við svo sem að segja frá veðri og aflabrögðum fiskiskipa. Hann gæti þá til dæmis sagt frá því að einhver skipstjórinn hefði orðið eldrauður í framan þegar festi trollið í botni. Það er grunvallarkrafa sem maður verður að gera til starfsliiðsins á ríkisfjölmiðlinum að þeir gæti hlutleysis í umfjöllunum sínum. Ekki voru fréttirnar á Stöð 2 beysnar í kvöld. Önnur frétt voru gífuryrði stjórnarandstöðunnar um vaxtastig og verklagg bankanna, fullyrðingar án innistæðu eins og kom fram í kastljósinu í kvöld. Þá var það rökþrota og lágsigldur stjórnarandstöðuþingmaður sem mætti bankamanninum. Væri ég stjórnarandstæðingur á þingi myndi ég vitaskuld standa dag út og dag inn í þinginu og fullyrða nógu mikið í allar áttir því það er örugg leið að komast í fjölmiðla og fá athygli. Þriðja frétt hjá Stöð 2 var viðtal við Árna Johnsen sem fullyrti út og suður um jarðgöng til Eyja. Fullyrðingar eru ekki fréttir, þær eru ódýr leið til að fá athygli og fjölmiðlarnir eru nógu aumir til að dansa með. Síðan var önnur stóryrðaromsan úr þinginu útaf samgönguáætlun. Ekki frétt fyrir fimm aura heldur aðferð þingmanna til að ná athygli. Maður getur ekki annað en spurt sig hvort fréttastofa Stöðvar 2 hafi engan metnað eða eru faglegir burðir hennar ekki meiri en sást í kvöld. Þetta var hræðilegt í einu orði sagt.

Krípið Silvía Nótt er annað dæmi um vesaldóm fjölmiðla. Enn og aftur geri ég greinarmun á ríkisfjölmiðlinum og einkareknum stöðvum. Ég ræð hvort ég kaupi mér að gang að dagskrám þeirra en ríkið tekur pnienga úr mínum vösum til að greiða rekstur RÚV og ég hef ekkert um það að segja. Maður hélt satt að segja að þessi svokallaði brandari hefði kollsiglt sig í Eurovision í fyrra og manneskjan sjálf og þeir sem á bak við hana standa hefðu vit á því að segja nú skal det være nok. Nei aldeilis ekki. Það á að byrja á gömlu kúk og piss frösunum aftur. Sem betur fer sér maður að þessi endurkoma pirrar mjög marga og er bara vonandi að menn hreinsi sig af þessari óværu fyrr en síðar. Þegar menn í bjálfalegum oflátungshætti eru að segja að við höfum verið að gera grín að Eurovision í fyrra er ég hræddur um að það hafi ansi fáir skilið þetta sem brandara heldur tekið þetta sem hreinræktaðan aulahátt sem það vissulega var.

Engin ummæli: