Ég set hér inn lokatíma þeirra liða sem kláruðu keppnina á Grænlandi svo úrslitin séu til aðgengileg á einum stað.
ISI Salomon (dönsku strákarnir) 45.21.55
Neriusaaq (grænlenskt lið heimamenn) 50.40.15
Maniitsoq (grænlenskir strákar frá Nuuk) 52.27.29
Explorer (bandaríska liðið) 56.40.32
Les Couleres del´Adventure (frakkar) 57.37.52
Feed the Machine (blandad lid) 58.02.09
Team Intersport Iceland 59.05.10
Mac Pac & Icebreakers (hollendingar) 67.11.25
Northern Lights (ísl. og danir) 69.42.36
Finisterre (breskir hermenn) 71.57.58
Vid töpuðum a.m.k. fimm tímum vegna uppákoma í rötun og einnig flýtti það ekki fyrir okkur að tapa kortinu í upphafi langa leggsins. Explorer var með okkur í fyrri villunni þannig að þau töfðust einnig en unnu það upp m.a. með betri róðri. Við vorum búnir að draga frakkana uppi á punkti 6 um hádegi á miðvikudag og áttum þá klukkutíma inni á þá frá fyrri dögum. Þeir fara því síðustu leggina um 2.5 klst hraðar en við. Hvalbökin tóku mikinn tíma vegna rangrar navigationar. Það er gaman að velta þessu fyrir sér með það í huga að við áttum mikið inni vegna þeirra mistaka sem við gerðum í rötun. Úr ýmsum mistökum á að vera auðvelt að bæta með vönduðum undirbúningi og skipulagningu í keppninni sjálfri.
Við hittum töluverðan hluta af fólkinu niður á Dublinners í gærkvöldi. Það var gaman að hitta þau aftur, góð stemming í hópnum og margir ætla að koma aftur á næsta ári.
Eitt er að taka þátt í svona keppni, annað er að koma til Grænlands og fá örlitla innsýn í samfélagið í Tassilaq (Angmassalik). Maður þekkti Angmassalik fyrst og fremst úr veðurfréttum hér áður. Ef vont veður var þar á veturna þá kom það yfirleitt svona eftir sólarhring til Vestfjarða. Því var oft gefinn gaumur að veðrinu í Angmassalik fyrr á árum. Einu sinni man ég eftir fréttum af þvílíkum stormi þar að hundarnir stóðu eins og fánar út í loftið og hengdust í ólunum. Þetta hefur verið Piteraq.
Í Angmassalik búa um 1800 manns og um 3000 manns á þessu svæði samtals. Það er varla nokkur blettur láréttur í þorpinu nema fótboltavöllurinn og kannski kirkjugarðurinn. Það segir sína sögu um stöðuna í þorpinu að þar er engin framleiðsla. Ekkert frystihús, fiskverkun eða rækjuvinnsla. Í höfninni eru nokkrir tugir hraðbáta. Fólkið vinnur hjá því opinbera, skólanum, hreppnum, sjúkrahúsinu og félagsþjónustinni. Síðan eru nokkrar verslanir. Um 25% atvinnuleysi er í þorpinu. Veturinn er að verða erfiðari til veiða því ísinn er ekki eins tryggur og áður. Áður var hafið ísilagt allann veturinn milli Kulusuk og Angmassalik svo það voru skipulegar póstferðir á hundasleðum þarna á milli. Það er liðin tíð. Íþróttahús var reist þarna árið 1994. Það hefur breytt miklu og er mikið notað. Innanhússfótbolti og blak er stundað mikið og lið fer frá þorpinu á GM í blaki. Heimafólk sagði að það hefði orðið alger bylting í þorpinu eftir tilkomu þess. Þetta þekki ég einnig frá Raufarhöfn. Það eru haldin fótboltanámskeið á vorin fyrir krakkana eins og hér. Mikill áhugi var á fótboltaleiknum sem ég sá þegar stelpur frá Angmassalik og Kulusuk áttust við. Það áttu hins vegar ekki allar fótboltaskó. Tvær verslanir eru í plássinu onnur nokkuð stór en hin minni. Vöruúrval var þokkalegt en verðlag hátt að því manni sýndist. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Þegr við vorum þarna kom stórt vöruflutningaskip með mikinn fjölda gáma. Líklega verið haustskipið. Í þorpinu er grunnskóli upp í 10 bekk og síðan er handverksskóli eða iðnskóli fyrir þá sem vilja halda áfram. Ef unglingarnir vilja fara í menntaskóla þá verða þeir að fara til Nuuk. Andrúmsloftið er því miður þannig að margir unglinganna vilja ekkert fara út fyrir þennan heim sem þeir þekkja svo vel en óttast það sem fyrir utan hann er og telja sig ekkert hafa þangað að sækja. Félagsleg vandamál eru veruleg svo sem alkóhólismi. Manni fannst sorglegt að sjá eldra fólk hópast saman fyrir utan vínbúðina á föstudaginn með bjór í pokum og slaga svo heim dauðadrukkið. Því má vitaskuld ekki gleyma að margt hörkufólk er þarna einnig. Heimafólki í Angmassalik lá ákaflega gott orð til Hrafns Jökulssonar fyrir að hafa innleitt skákíþróttina inn í þorpið. Það sagði að þetta verkefni væri eitt af því besta sem hefði gerst þar á undanförnum árum.
Það er erfitt að byggja upp ferðaþjónustu á þessum stöðum. Vegalengdir eru miklar og dýrt að ferðast til þessara staða. Heimamenn hafa ekki heldur tileinkað sér skilning á því hvað hlutir mega kosta til þess að þeir séu söluvara fyrir ferðamenn. 70.000 kr fyrir að fara einn dag með veiðimanni sem er hvort sem er að fara aðveipa er það dýrt að það kaupir það varla nokkur maður. Svo er sagt að það gangi ekki að byggja upp ferðamannaþjónustu. Ég sá í blaði að víða er léleg þjónusta bankanna vandamál. Erlendir ferðamenns em kma með skemmtiferðaskipum geta ekki tekið peninga út úr hraðbanka og kaupa þar af leiðandi ekkert. Þetta er á leiðinni með að verða pólitískt mál á Grænlandi sem verður tekið upp í þinginu.
Þetta eru nokkrir punktar sem sitja eftir eftir þessa stuttu heimsókn. Hún hefur m.a. gert það að verkum að maður veit aðeins meir um þær aðstæður sem grannar okkar í vestri lifa við en það var ákaflega takmarkað sem maður vissi áður. Vitaskuld fræðist maður mest á að koma til landsins, spyrja og lesa.
sunnudagur, júlí 29, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Frábær lesning og en og aftur til hamingju með árangurinn, maður er því líkt stoltur af kappanum:-)
Skrifa ummæli