sunnudagur, júlí 15, 2007

Laugavegurinn að baki. Fínn dagur og skemmtilegur. Þetta var fjórða Laugavegshlaupið mitt. það fyrsta var árið 2002 þegar við Svanur Bragason fylgdumst að í gegnum það í nokkursskonar landkönnun.
Með hliðsjón af væntanlegri Grænlandsfereð hafði ég sett mér eitt markmið í hlaupinu að koma óþreyttur og afslappaður í mark. Tíminn, svona 7 klst + / - eftir atvikum. Ég undirbjó mig ekkert sérstaklega fyrir hlaupið nema það að ég ætlaði að gera smá tilraun á mataræðinu. Á föstudagskvöldið grillaði ég rúm 600 gr af silung og borðaði hann svo að segja allan með miklu grænmeti. Um nóttina áður en lagt var af stað eldaði ég kúffullan disk af hafragraut með hunangi, rúsínum og granoli musli. Kláraði einnig restina af silungnum. Á leiðinni uppeftir stífði ég fiskibollur í mig upp úr poka þar til einum og hálfum tíma fyrir start og drakk appelsínusafa með. Ég karbólódaði ekkert heldur vildi láta reyna á að maturinn dygði.

Í Landmannalaugum leit út fyrir gott veður svo ég fór í léttasta klæðnaðinn, stuttbuxur og hlírabol. Það smellpassaði við veðrið eins og það var um daginn. Ég fór rólega af stað upp í Hrafntinnusker, gekk allar brekkur og skokkaði rólega á milli. Nú voru bara skaflar við skerið en fyrir tveimur árum var þar jökull svo menn skripluðu í spori og þurftu að fara á fjóra fætur á stundum. Ég var á 1.26 í skerinu og það var svona eftir því sem upp var lagt með. Leiðin niður í Álftavatn leið fljótt hjá. Ég hafði ákveðið að spara mig í öllum niðurhlaupum og gekk því í rólegheitum niður löngu brekkuna. Fyrir ofan hana var starfsmaður og varaði fólk við skorningum. Gott mál. Í Álftavatni var ég á 2.40 og hafði því ekki verið nema eina klst og kortér úr skerinu. Stoppaði stutt og hélt áfram. Ég braut eina mjög mikilvæga reglu í hlaupinu. Var í Salomon skónum sem Trausti fékk frá USA á miðvikudaginn. Hafði aldrei farið í þá nema til að prufa hvort stærðin passaði. Trausti hafði mælt með þeim í vatnsösli. Nú reyndi á þá og það var alveg rétt. Þeir drenuðu sig mjög vel eftir að maður kom upp úr ánum. Maður var orðinn sem þurr í fæturna á augabragði. Ólíkt Goretex skóm sem halda vatninu frá sér en einnig líka í sér ef það kemst inn. Hvanngilið birtist eftir skamma hríð og svo tóku sandarnir við. Ég hef aldrei skipt um skó við Bláfjallakvíslina því manni finnst svo gaman að fara fram úr hópnum sem situr þar í skóskiptum!!! Hitti þar Stefán Gíslason sporléttan Strandamann sem var í sinni Bjarmalandsför á Laugaveginum. Við fylgdumst að suður sandana og vorum léttir í spori, svona á okkar mælikvarða. Drykkjarstöð var á afleggjaranum og er það til fyrirmyndar.

Við komum í Emstrurnar eftir 1 klst. 55 minútur og þar sem allt var eins og best var á kosið sá maður fram á að komast í mark á um 6.30. Það var betra en ég hafði ætlað sérstaklega miðað við álagsmarkmiðið. Tíminn leið fljótt suður yfir Emstruána. Þóra gasaði fram úr okkur brekkuna niður að brúnni í annað sinn en hún hafði verið mjög sporlétt niður löngu brekkuna fyrir ofan Álftavatn. Skömmu síðar fórum við fram úr henni og hef ég grun um að hraðinn niður brekkurnar hafi þar verið farinn að taka sinn toll. Dró Ásgeir Ironman uppi á þessum legg og fylgdumst við síðan að í mark. Hann var á sömu nótum og ég að fara ekki það hratt að það væri varið að tappa af varatanknum. Það var rúllað létt niður Fauskatorfurnar og yfir Kápuna og svo áfram. Síðast þegar ég fór Laugaveginn fékk ég svo heiftarlegan sinadrátt við Kápuna að ég var fastur þar þar til ég fór að labba afturá bak upp. Þá slaknaði fyrst á krampanum.

Tíminn var tæpar 6.30 og var ég mjög ánægður með það miðað við það sem upp var lagt sem og ástandið á fótunum. Óþreyttur og afslappaður. Engin eymsli í tám eða kálfum. Móttökurnar í markinu voru til fyrirmyndar, teppi, heit súpa, ávextir og sælgæti. Meir að segja sturtan var heit.

Standardinn á Laugaveginum fer sífellt batnandi. Sveinn Margeirsson náði feikna góðum tíma svo og þær Rannveig Odds. og Rakel. Þau skipuðu sér öll í flokk bestu hlaupara frá upphafi og voru að því ég held að fara sinn fyrsta Laugaveg. Jósep var í sínu öðru hlaupi og rann skeiðið á rúmum 5 klst. Tíminn sem ég fékk hefði dugað til 25 sætis í mínu fyrsta hlaupi en nú í það 50. Framfarirnar eru miklar. Nú þýðir ekki annað en að fara undir 6 tíma ef maður vill skipa sér í flokk fullorðinna Laugavegsfara. Maður verður að spekulera í hvar hægt sé að tálga 7 mínútur af hverjum legg!!! Hraðaæfingar og brekkusprettir. Mér fannst matartilraunin ganga fullkomlega upp. Ég fann aldrei fyrir orkuleysi, stífleika í fótum eða sinadrætti. Hafði að vísu bæði C vítamín og salttöflur með sem ég setti út í brúsann með jöfnu millibili. Orkubúskapurinn í jafnvægi. Ég veit ekki hvort þetta upplegg passar fyrir aðra en mér finnst það henta mér.

Á undanförnum árum hafa Laugavegsfarar sent mótshöldurum ábendingar um það sem betur hefur mátt fara. Það er ljóst að það hefur verið tekið mark á því miðað við framkvæmdina eins og hún var nú. Einnig hafa starfsmenn hlaupsins hlaupið Laugaveginn sjálfir og þekkja þetta því á eigin skinni. Öryggismálum hefur farið fram s.s. skipuleg skráning í upphafi og einnig á leiðinni. Það er alvörumál að senda þetta stóran hóp af stað uppi á öræfum og vona síðan það besta um að allir skili sér. Á þremur stöðum voru merkingar þó ekki nógu góðar. Maður verður að horfa á þetta með augum þess sem þekkir ekki neitt og hefur aldrei farið leiðina áður. Ókunnugir geta ruglast á leiðinni fyrir ofan Álftavatn´áður en drykkjarstöðin sést. Við Hvanngil er það bara fyrir kunnuga að ramba á rétta leið eins og venjulega. Síðan var engin merking á söndunum þegar maður beygir út af veginum. Stefán Gíslason, sem var að fara sitt fyrsta hlaup, sagðist hafa haldið áfram suður veginn því það benti ekkert til að maður ætti að fara út af veginum. Þessir staðir eru allir rétt hjá landvörðum í nærliggjandi skálum og því ætti það ekki að vera ofverk þeirra að setja smá litaborða á þessa staði til að hafa merkingar 100%. Viðurgjörningur var eins og hann gat bestur verið í Þórsmörkinni og verðlaunaafhending gekkk vel þrátt fyrir rigningu úti. Úrslitin eru komin inn á vefinn á sunnudagsmorgni, allt eins og það á að vera. Takk fyrir góðan dag.

Sá í Fréttablaðinu í morgun að Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður hefði orðið bráðkvaddur í gær. Það er mikill sjónarsviptir að honum því hann var einn öflugasti málsvari Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum og hafði kjark og þekkingu til að hafa sjálfstæðar skoðanir sem voru ekki alltaf í takt við stefnu flokks eða ríkisstjórnar. Yfirleitt fannst manni í slíkum tilfellum að Einar hefði betri og skynsamlegri navigation en ríkisstjórnin. Kynntist Einari Oddi fyrst í kringum 1990 þegar þjóðarsáttin var í undirbúningi sem formanni VSÍ. Menn fundu fljótt í viðkvæmum samningum að orðum Einars mátti treysta. Slíkt getur ráðið úrslitum um framgöngu mála þegar lítið má út af bera.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Laugarveginn og þú hefur greinilega verið skinsamur að vanda:-)