föstudagur, júlí 25, 2008

Ég sá á einhverjum fréttavefnum í dag tilvísun í myndband á Youtube. Það var tekið á Kvíabryggju og sýndi að sögn tvo dæmda glæpamenn vera að æfa lyftingar í góðviðri úti á túni, með orkudrykk og alles. Annar glæpamaðurinn, sem ætlaði að jafnhatta einhver ósköp og birti afrekið á Youtupe, er nauðgari og morðingi sem var dæmdur í 16 ára fangelsi. Hann hefur verið í aðhaldi (það er varla hægt að kalla svona skátabúðir eins og eru á Kvíabryggju fangelsi) í fjögur ár. Hann getur sótt um náðun eftir átta ár. Hinn glæpamaðurinn var tekinn fyrir að flytja til landsins kókaín í kílóavís. Slíkt magn hefði lagt líf ótalinna aðila í rúst með tilheyrandi afleiðingum fyrir fjölskyldur viðkomandi. Mér finnst með ólíkindum að svona lagað skuli viðgangast. Í fyrsta lagi að dæmdir ofbeldismenn, nauðgarar og morðingjar, skuli fá að bryðja járnin eins og þá lystir. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig þeir verða þegar þeir sleppa út enda þótt það sé alltof snemma eftir þeim vinnureglum sem viðgangast. Ég las einhvern tíma fréttir af því að í Danmörku voru sett takmörk á því hvað dæmdir glæpamenn (ofbeldismenn) gætu æft sig á þungum járnum. Það á ekki að breyta fangelsum í gym fyrir menn sem funkera ekki í venjulegum samfélögum. Í öðru lagi er það með ólíkindum að dæmdir glæpamenn geti verið að dunda sér við að taka myndir af sjálfum við allra handa iðkan og sett þær inn á netið s.s. Youtube. Hafa þeir ótakmarkaðan aðgang að netinu? Hvernig ætli aðstandendum fórnarlambanna líði þegar þeir sjá í hvaða skátabúðum glæpamennirnir eru og kallað er fangelsi? Það er vitaskuld alltaf spurning um hvernig fangelsi á að vera. Eiga fangarnir að vera í röndóttum fötum með kúlu við löppina eða eiga þeir að vera að leika sér og dútla við það sem þeim finnst skemmtilegt við hinar bestu aðstæður? Einhver hlýtur millivegurinn að vera en mér finnst að verstu glæpamenn landsins eigi að finna það að þeir eru dæmdir til refsingar en ekki til dvalar á hressingarheimili og líkamsræktarstöð með takmörkuðu ferðafrelsi. Skítt með smákrimmana en mér finnst að það gildi annað um alvöru glæpamenn.

Ég var nokkra daga í Canada í september árið 2000. Maður las þarlend blöð eins og gengur. Meðal annars man ég eftir að það voru birtar myndir af þekktu glæpakvendi sem hafði m.a. drepið systur sína á viðurstyggilegan hátt. Í fangelsinu var mjög afslappað andrúmsloft samkvæmt myndunum. Það varð allt vitlaust í samfélaginu þegar það varð lýðum ljóst að verstu glæpamenn samfélagsins lifðu í vellystingum og skemmtilegheitum í því sem kallað var fangelsi, enda þótt ferðafrelsi þeirra væri heft. Mér finnst að það sé þörf á sambærilegri umræðu hérlendis enda þótt maður búist ekki við miklu af hérlendum fjölmiðlum. Hvað er fangelsi? Hvað er refsing? Hver er krafa viðkomandi fórnarlamba og fjölskyldna þeirra til útfærslu samfélagsins á því sem kallað er dómur og refsing?

Tók rúma 20 km í dag. Það var hvasst aðra leiðina en ég var ánægður með hvernig mér miðaði á móti vindinum. Fer vestur á morgun. Það verður eitthvað gert þar vestra.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ingólfur Sveinsson.
Sæll.
Sammála þessu með fangelsismálið. Þú ferð alltaf beint í kjarnann. Fallegt að vera góða fólkið og tala betrunarrómantík. En fangelsi er nú einu sinni ekki hvað síst til þess að taka þá úr umferð sem eru óhæfir í umferð. Það þarf að gera og gera það almennilega og af öryggi. Og ekki þjálfa þá til að verða afkastameiri ofbeldismenn. Taka frelsið af þeim sem ekki kunna með það að fara. Og misþyrma öðru fólki í þokkabót.. réttilega nefnt glæpir.
'Eg stjórnaði eitt sinni hálflokaðri geðdeild þar sem frelsið var nákvæmlega (vona ég) skammtað eftir hæfni viðkomandi einstaklings til að vera kurteis og hæfur á almannafæri. Þetta er umræða sem þarf að opna en hver þorir eða öllu heldur hver nennir. Vesturgatan var æði. Og vestfirðir almennt finnst mér. Ók svo heim frá Flókalundi. Fagurt einkum vestasti hlutinn. Kveðja ISS

Nafnlaus sagði...

Væri ekki ráð að kynna sér málin pínulítið áður en látið er vaða á súðum. DV og fleiri fóru mannavillt. Þessi sem er að jafnhatta er ekki umræddur morðingi og nauðgari. Sá situr á litla hrauni. Dv hefur leiðrétt frétt sína og beðist velvirðingar.