miðvikudagur, júlí 09, 2008

Lúkas, ísbirnir, hælisleitendur. Það eru ólíklegustu mál sem setja ákveðinn hluta þjóðarinnar í þannig gír að hann fer alveg úr límingunum. Það er kannski svo hér í fásinninu að menn þyrstir svo í að það gerist eitthvað hér eins og í útlandinu að minnstu tilefni eru gripin fegins hendi og allt ætlar um koll að keyra.

Hvað varðar málefni þessa manns frá Kenýu sem hafa verið mikið í umræðunni á liðnum dögum þá hefur ekki verið sýnt fram á á nokkurn hátt að til þess bærar stofnanir hafi staðið rangt að málum. Mönnum finnst bara að það hefði átt að gera hlutina öðruvísi eða eins og þeir vildu. Svo blandast aðrir vinklar inn í umræðuna og þeir sem telja sig geta veitt stjórnvöldum kárínur vegna þessa máls eru tindilfættir fram á sviðið.
Það vita allir sem vilja vita að vandamál vegna flóttamanna eru gríðarleg í Suður Evrópu. Menn tala um Spán, Ítalíu og Grikkland eins og einhver vond lönd í þessu samhengi. Landfærðilega liggja þau nálægt þeim löndum og heimshlutum sem flóttamenn koma gjarna frá. Þau hafa enga aðra valkosti en að vinna eftir ákveðnu regluverki í þessum efnum, jafnvel þótt okkur útnesjafólkinu finnist það vera harðneskjulegt og formfast.
Það er meginregla í þessum efnum að málefni flóttamanna skulu tekin fyrir í því landi sem hann kemur fyrst að. Vitaskuld verður að vinna eftir slíku regluverki. Það er t.d. þekkt aðferð að þeir sem vilja sækja um pólitíkst hæli sem flóttamenn sturta gjarna passanum sínum niður um klósettið í flugvélinni áður en lent er í fyrirheitna landinu. Hvað á að gera í slíkum tilfellum? Vitaskuld að senda viðkomandi einstakling til baka til þess lands sem hann kom frá. Þar er hægt að hafa upp á upprunalandi því þar var hann skráður inn í landið.
Það er önnur meginregla í þessu sambandi að menn ávinna sér engin réttindi með ólöglegri dvöl í landi. Yfirleitt er mönnum hent samtímis úr landi ef upp kemst að þeir hafi dvalið ólöglega í einhverju landi. Oft fylgir að mönnum er bönnuð endurkoma til þess sama lands um lengri eða skemmri tíma. Sama gildir þótt viðkomandi einstaklingur hafi alið barn á meðan á hinni ólöglegu dvöl stendur. Hann er ekki skráður í landið, hann er ekki til samkvæmt opinberum skrám sem þegn landsins og ávinnur sér þar af leiðandi engin réttindi með dvöl sinni þar.
Það er merkilegt að heyra löglærðan þingmann halda því fram að það skapi ekki fordæmisgildi ef farið er á svig við gildandi lög og reglur í svona málum. Það er nefnilega grundvallaratriði samkvæmt jafnræðisreglunni að allir séu jafnir gagnvart stjórnvaldi og ein ákvörðun stjórnvalds leiðir af sér fordæmi við önnur hliðstæð mál. Stjórnvald getur ekki verið að hringla út og suður eftir því hvernig vindarnir blása. Þá fyrst væru menn í vandræðum.

Ég heyrði viðtal við lögmann hælisleitandans í Kastljósi sjónvarpsins í fyrrakvöld. Það var dálítið merkilegt viðtal. Í fyrsta lagi svaraði lögmaðurinn fæstum af þeim spurningum sem hún var spurð að heldur flutti sína ákveðnu rullu án athugasemda. Frammistaða hins svokallaða fréttamanns var ekki beysin. Lögmaðurinn bar Grikklandi, Ítalíu og Spáni ekki falllega söguna í þessum efnum en lét þess náttúrulega ekki getið hver ástæðan var. Síðan sagði hún að Ísland ætti að taka við öllum þeim flóttamönnum sem líkur væru á að Ítalía, Spánn og Grikkland myndu vísa frá. Þessi fullyrðing gerir þennan lögmann algerlega ómarktækan í umræðunni. Hvað ætli það séu margir hælisleitendur sem Grikkland, Ítalía og Spánn vísa frá árlega? Án þess að ég hafi um það nægar heimildir til að geta fullyrt eitt eða neitt þá kæmi mér ekki á óvart að sú tala hlypi á nokkrum tugum eða hundruðum þúsunda hið minnsta. Ég held að það veitti ekki af því að rifja upp svona af og til hvað íslendingar eru margir, alla vega þegar umræðan er komin út í móa eins og í þessu tilviki.

Á þeim árum sem ég bjó í Svíþjóð voru þarlend stjórnvöld farnir að taka mjög hart á ólöglegri dvöl manna í landinu og vísuðu mönnum úr landi af fyllstu hörku ef þannig bar undir. Ég man eftir því að kirkjur voru brotnar upp þegar fólk hélt að það gæti varist því að vera sent úr landi með því að loka sig inni í kirkjum. Þeir sem vísað var úr landi voru oft sprautaðir niður svo þeir væru meðfærilegri á meðan á flutningnum stóð. Það voru engin vettlingatök notuð í "svenska folkhemmet" á þessum árum og hefur svo verið allar götur síðan. Ástæðan er einföld. Sóknin á að komast inn í norræna velferðarkerfið er gríðarlega mikil af fólki frá löndum þar sem aðstæður almennings eru miklu verri. Þessa ásókn verður að meðhöndla eftir ákveðnum formföstum reglum, annars fer allt úr böndunum. Allra síst á upphlaupsfólk að ráða ferðinni í svona málum.

Mágkona mín og dóttir hennar komu frá Kenýu á mánudagskvöldið eftir rúmlega tveggja vikna ánægjulega dvöl í landinu. Ég held að það sé afskaplega áhugavert að heimsækja Kenýa eins og svo mörg önnur lönd.

Engin ummæli: