mánudagur, júlí 21, 2008

Fór á Kjalveg á föstudaginn við þriðja mann. Keyrðum í Hvítárnes í sólfari en töluverðum vindi. Þar voru fyrir hollensk hjón í tjaldi en aðrir ekki. Ég hafði aldrei komið í Hvítárnes eða neitt út af veigi á Kjalvegi fyrr svo það var kominn tími á að skoða sig aðeins um. Við gistum þar um nóttina en keyrðum daginn eftir í Þverbrekknamúlaskála. Þar var heldur enginn fyrir utan hollensku hjónin sem voru á leiðinni til Hveravalla. Bækur Páls Ásgeirs, "Hálendisbókin" og "Bíll og Bakpoki" eru ómissandi í ferðum sem þessum. Einnig má nefna bók Ara Trausta, "Fjöll á Íslandi". Hrútfellið blasti við frá Þverbrekknamúlaskála og verður sigrað síðar enda þótt það hafi fengið að bíða í þetta sinn. Líklega er betra að hafa brodda, exi og línu með í slíka ferð. Við gengum hálfa leið til Þjófadala yfir múlana og snerum við við göngubrúna yfir Fúlukvísl og gengum austan megin til baka. Þennan dag var blíðan eins og hún getur best verið. Grill og rauðvín um kvöldið. Toppurinn. Á sunnudaginn fórum við fyrst inn að Beinahól. Við ókum langleiðina en gengum seinnihlutann. Slóðinn er grófur og engin ástæða til að hrista bílinn í sundur þegar báðir fætur eru jafnlangir. Saga Reynisstaðabræðra og þeirra hinna sem voru með í för er alltaf jafn sláandi. Það er rétt hægt að ímynda sér hvernig það er að vera í sjálfheldu í brjáluðu veðri inni í miðju Kjalhrauni í nóvember með fjárflokk og komast hvorki frá eða til. Aðkoman hefur verið óskapleg árið eftir. Minnisvarði var reistur á Beinahól árið 1971 til að minna á söguna og halda nöfnum þeirra á lofti sem fórust þarna.
Frá Beinahól héldum við til Hveravalla og þaðan í Þjófadali. Við ókum inn að Þröskuld og gengum niður í sæluhúsið og fengum okkur bita. Okkur sýndist fyrst að þar reikuðu tugir hvítabjarna um vellina en sáum síðan að þarna voru sunnlenskir sauðir á ferð. Þessi missýn er eðlileg því dilkar í Þjófadölum eru eins og meðal vetrungar á stærð eða svo segir sagan. Við fórum svo til Hveravalla, tókum myndir og enduðum svo með smá laugarferð. Reyndur fararstjóri í hópnum sagðist aldrei hafa farið í fötum í laugina svo hann var látinn vera á bakkanum. Maður vissi ekki alveg hvernig ítalskar senjórítur sem voru fjölmennar í lauginni hefðu tekið slíku eða réttara sagt fylgisveinar þeirra. Planið var að gista í Kerlingarfjöllum og láta sjá til með veðrið. Þar voru öll gistipláss full svo við ókum heimleiðis og mættum rigningunni á leiðinni. Fín helgi utan hvað vegurinn yfir Kjöl er hryllilegur. Víða er þvottabrettið svo svakalegt að maður þurfti að keyra í fyrsta gír svo maður hristi ekki allt í sundur. Ég held að ég hafi aldrei keyrt Kjalveg verri en nú.

Ég sá að það er tilvalin hlaupaleið að hlaupa milli Hveravalla og Hvítárness. Hún er ca 35 - 40 km löng í grófri ágiskun. Leiðin er vel merkt og greinilegur slóði mestan part. Frá Hveravöllum yfir í Þjófadali er yfir tvo lága hálsa að fara og tveir lækir eru á leiðinni. Þessi leggur er um 11 km. Leiðin úr Þjófadal í Þverbrekknamúlaskála er flöt að göngubrúnni yfir Fúluhvísl en síðan taka við múlarnir sem eru þægilegir yfirferðar. Vatn er af skornum skammti á þessari leið. Leiðin úr Þverbrekknamúlaskála yfir göngubrúna á Fúlukvísl og suður með henni að austanverðu í Hvítárnes er þægileg en líklega vatnslítil. Það væri fínt að fara með rútu til Hveravalla að morgni. Þar væru hlauparar settir út og óskað góðrar ferðar. Engin drykkjarstöð á leiðinni því menn yrðu að bjarga sér sjálfir. Rútan myndi keyra í Hvítárnes með grillmat og annan viðurgjörning og taka á móti hlaupurum þar. Svo væri keyrt í bæinn. Þetta er til umhugsunar en það er með þetta eins og annað; "Það er bara að láta vaða."

Engin ummæli: