þriðjudagur, júlí 15, 2008

Það er gaman að lesa frásagnir af Laugaveginum. Upplifun hvers og eins er sérstök og sjónarhornin mismunandi. Alltaf má eitthvað læra af reynslu annarra. Gísli aðalritari hefur tekið saman linka á nokkrar frásagnir en maður saknar þess að fá ekki fleiri. Þær leynast kannski einhversstaðar en bara hvar. Ég fann það á sjálfum mér að ég hafði ekki sinnt Esjunni nógu vel í vor þegar kom að því að fara upp brekkur. Það vissi ég fyrirfram svo það kom ekki á óvart. Annað var í þokkalegu lagi.

Það kemur mér ekki á óvart að það ruglist einhver á leiðinni fram hjá Hvanngili og eins á söndunum. Það má t.d. lesa um það í frásögn Evu. Það gengur náttúrulega ekki að hlauparar sem eru í harðri keppni um sæti og geta ekki elt aðra skuli ekki hafa leiðina á hreinu. Menn eiga að skoða leiðina og merkingar með augum þess sem ekkert þekkir. Það er alltaf talað um Emstrur en svo stendur Botnar sumstaðar á skiltum!! Á söndunum bendir ekkert til þess að maður eigi að fara út af veginum og beygja til vinstri. Svava sagði mér að björgunarsveitin ætti að merkja þetta en þeir sinna því bara ekki. Einnig er leiðin frá Jökultungunum ekki á hreinu niður að Álftavatni ekki rakin fyrir ókunnugan fyrr en sést í húsin. Það eru svona fíniseringar sem þarf að bæta því það væri leiðinlegt ef hlaupið færi í rugl hjá einhverjum ókunnugum sem væri kominn langa vegu að vegna þess að merkingar væru ónógar. Erlendir hlauparar skrifa líka frásagnir og þær eru lesnar af öðrum áhugasömum hlaupurum. Svoleiðis hefur hróður Laugavegarins fyrst og fremst breiðst út.

Annars var mjög vel staðið að öllu því sem ég sá og upplifði. Auðvitað er lengi hægt að bæta eitthvað og ég veit að starfsfólk hlaupsins hefur fyllsta metnað til að gera gott hlaup enn betra. Ég held að aukinn fjöldi hafi ekki valdið neinum erfiðleikum. Þetta er bara stærra í sniðum og þarf að taka mið af því. Að lokum vil ég minna á að það á að láta þá Eið og Þórð hlaupa í sérstökum heiðursbolum sem mætti klæða þá í fyrir startið í Landmannalaugum. Þeir hafa hlaupið öll Laugavegshlaupin. Stundum hafa þeir verið misjafnlega á sig komnir en alltaf látið slag standa til að missa ekki úr hlaup. Svona mönnum á að sýna smá virðingu.

Fjölmiðlar gerðu hlaupinu afskaplega misjöfn skil. Mogginn gerði það svo sem ágætlega með góðum viðtölum við Daníel og Evu en það pirrar mig alltaf jafn mikið að frásagnir af langhlaupum skuli ekki vera skilgreindar sem íþróttafréttir hjá fjölmiðlamönnum heldur flokkaðar sem venjulegar fréttir. Ég veit ekki hvað þarf til að koma. Margir íþróttafréttamenn eru svo sjálfhverfir að þeir flokka einungis það sem íþróttir sem þeir hafa áhuga á sjálfir. Ultrahlauparar flokkast líklega undir "einkennilegt fólk" í þeirra huga. Ég man t.d. eftir því að Atli Rúnar fréttamaður sagði mér eitt sinn frá því hve erfitt það hefði verið að fá áheyrn fyrir því innan Ríkisútvarpsins hér upp úr 1980 að það væri fréttaefni sem gerðist úti á landsbyggðinni og sérstaklega ef það var landbúnaðartengt. Atli Rúnar er Svarfdælingur í húð og hár og hafði annað fréttaauga en kollegar hans upprunnir á malbikinu. Þeir gáfu djöfulinn í að það gætu verið neitt að frétta úr einhverjum afdölum á landsbyggðinni. Fréttirnar gerðust þar sem fólkið væri (les: þeir sjálfir). Smám saman náði Atli Rúnar að vinna sínum sjónarmiðum fylgi og varð einn allra öflugasti fréttamaður ríkisútvarpsins fyrr og síðar. Ég held að þetta sé svipað með ultrahlaupin. Í huga margra er þetta ekki íþrótt heldur eitthvað allt annað. Líklega næsti bær við masocisma. Fréttablaðið minntist einungis örlítið á hlaupið. Ríkissjónvarpið vissi greinilega ekki að það væri til nema þeir hafi verið önnum kafnir við að vinna samantekt um afrek íslendinga í strandblaki. Það er líklegt.

P.S. Ég sá ekki fyrr en rétt áðan að ríkissjónvarpið var náttúrulega upptekið við að gera mesta íþróttaafreki íslandssögunnar til þessa verðskulduð skil. Strandblakið varð því að bíða að sinni.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf reynir maður að verja sína þó maður sé hættur hjá RÚVinu fyrir rúmu ári. Þegar ég var að agitera fyrir Laugavegshlaupum hér á árum áður var mér sagt að þeir hefðu hvorki mannskap né peninga til að senda fólk inn í Þórsmörk. En þeir sýndu allavega myndir sem áhugafólk tók. Íþróttadeildin er náttúrlega boltaóð en reynir samt að segja frá öðrum íþróttum ef fréttist af atburðum með hæfilegum fyrirvara.
En annars - til hamingju með Laugavegshlaupið+ snilld að taka Fimmvörðuháls líka.
Kveðja Jóhanna Hafliðadóttir

Nafnlaus sagði...

Sæl Jóhanna og takk fyrir innlitið og góðar kveðjur. Ég hugsa að þú hafir verið í svipaðri stöðu og Atli Rúnar á sínum tíma þegar þið voruð að benda á áhugaverð efni að ykkar mati. Yfirmennirnir höfðu ekki áhuga. Það er nefnilega það sem málið snýst um. Það heyrir nefnilega til undantekninga að innlendra maraþonhlaupa sé getið í íþróttaþáttum enda þótt látið sé vita af þeim með nægum fyrirvara. Ég geri nefnilega meiri kröfur til ríkisútvarpsins/sjónvarpsins en annarra fjölmiðla vegna þess að maður er þvingaður til að borga kostnaðinn við stofnunina. Ég held að það væri ekki svo mikið mál fyrir fréttaritarann á Suðurlandi að skutlast inn í Þórsmörk og taka myndir í markinu og viðtöl við einhverja hlaupara. Ríkissjónvarpið hefur nefnilega skyldum að gegna vegna stöðu sinnar. Ef eitthvað vit væri í sjónvarpsmönnum gætu þeir gert mjög fínan þátt um Laugavegshlaupið sem myndi örugglega kosta minna en margt það sem verið er að sýna í sjónvarpinu. Það þarf nefnilega ekki að kosta neinu til vegna leikmyndar og leikenda. Ég nefni árlega mynd um Vestfjarðavíkinginn sem fína framleiðslu í þessum dúr. Gríðarleg aukning í þáttakenda fjölda, bæði innlendra sem erlendra, sýnir betur en nokkuð annað hvað þetta er magnaður viðburður.
Mbk
Gunnlaugur

Nafnlaus sagði...

Sæll. Verð að segja að ég er sammála, það væri flott að gera góðan þátt um Laugavegshlaupið. Helst líka að fá einhvern til að hlaupa með myndavél á sér og góðan klippara. Það er fáránlegt að segja en það hafa verið hlauparar í yfirmannsstöðum hjá RÚV, meira að segja maraþonhlauparar en það skilaði sér ekki út í dagskrána. En vonandi breytist þetta. Dropinn holar steininn - ekki satt? Bestu kveðjur Jóhanna

Nafnlaus sagði...

Ekki gleyma að mér. Ég hef líka startað í öllum hlaupunum þó ég hafi ekki lokið við eitt.
Pétur Vald

Nafnlaus sagði...

Úps Pétur, rétt skal vera rétt. Gott að þetta er á hreinu.
Gunnl.