fimmtudagur, júlí 31, 2008

Það var ótrúlegur dagur í gær. Hitinn bara hækkaði og hækkaði og þetta virtist engan enda taka. Ég fór út að hlaupa síðdegis og tók 20 km hring vestur á Eiðistorg. Í Nauthólsvíkinni var þvílík mannmergð að það var líkast því sem gerist á Spánarströnd. "Við skulum vera hér, þá getum við fundið hvert annað mamma" heyrði ég lítinn strák segja þegar ég skokkaði hjá. Á hitamælinum við undirgöngin í Elliðaárdalnum stóð mælirinn í 27 gráðum. Maður treystir honum þegar hann sýnir 10 stiga frost svo hann hlýtur einnig að vera nokkuð réttur við þessar aðstæður. Við fossinn í Elliðaárdalnum voru á annað hundruð krakkar að sulla í ánni. Einstakt.

Endir dagsins var því miður ekki eins og óskað var því Víkingur tapaði fyrir Haukum í Víkinni eftir að hafa komist yfir á 9. mínútu. Góðu fréttirnar út fótboltanum hjá Víkingum eru hins vegar þær að Marina hin serbneska er komin aftur til landsins og spilar með HK/Víking í lokaleikjum fallbaráttunnar. Frábært en hún þurfti að yfirgefa landið um daginn út af einhverju rugli í kerfinu.

Það voru tvö viðtöl í fjölmiðlum í gær sem hafa vakið athygli. Ég horfði á viðtalið við borgarstjóra í Kastljósinu og maður getur vart ímyndað sér að nokkur stjórnmálamaður fái álíka meðferð og brogarstjóri. Spyrillinn gerði allt sem hann gat til að trufla hann og slá hann út af laginu með þráspurningum sem nálgaðist að vera stagl, síendurtekin framíköll sem gáfu viðmælenda engan möguleika á að svara spurningunum og öðrum álíka trakteringum. Mér er sem ég sæi aðra stjórnmálamenn fá álíka trakteringar að maður tali nú ekki um Seðlabankastjóra.

Efnislega liggur meginefni þess sem rætt var um mjög skýrt fyrir í sveitarstjórnarlögum. Kjörnum sveitarstjórnarmönnum er hvenær sem er heimilt að skipta út fulltrúum sem þeir hafa skipað í nefndir. Ef trúnaður er ekki milli nefndarmanna og sveitarstjórnarmanna þá víkur nefndarmaður. Það er eðlilegur hlutur. Slíkt hefur gerst oft og á eftir að gerast oft.

Síðan gerðist það að formaður Framsóknarflokksins gekk úr frá Sverri Stormsker. Nú hélt ég að þeir sem mæta í viðtal hjá Sverri vissu við hverju er að búast. Sverrir stundar ekki hefðbundna samræðulist. Þeir sem ekki geta spilað á sama nótnaborð og Sverrir eiga ekki að mæta í svona viðtöl. Verst af öllu er að ganga út úr miðju viðtali.

Engin ummæli: