sunnudagur, júlí 13, 2008

Ég svaf lítið áður en lagt var í´ann á laugardagsmorguninn. Ég datt því útaf næstum því um leið og rútan var komin af stað og steinsvaf næstum því alla leið upp í Hraunbúðir. Þá var ég orðinn fínn. Borðaði fiskibollur og drakk djús. Það var þurrt í Landmannalaugum en samt sem áður leist mér ekki meir en svo á veðrið. Spáin var ekki góð svo það avr betra að vera vel klæddur. Ég fór því í síðbuxur, t shirt og hafði vindjakka með til öryggis. Næringin skyldi vera Herbalife. Ég sturtaði í mig hálfum líter áður en lagt var af stað og hafði flösku í hendinni sem ég ætlaði að drekka við Álftavatn. Ég var frekar þungur þegar lagt var af stað upp brekkurnar í áttina að Hrafntinnuskeri. Vikan hafði verið venjuleg æfingavika en ég hvíldi þó á föstudaginn. Mér var svo sem nokkuð á sama því þetta átti ekki að vera neitt sprengihlaup. Ég held að það hafi verið liðinn einn og hálfur tími þar til skálinn í Hrafntinnuskeri birtist í þokunni. Ég stoppaði ekkert því ég þurfti nær því ekkert að drekka. Það var frekar kalt og maður svitnaði ekkert. Það fóru margir fram úr mér upp brekkurnar en enginn eftir það, það ég best man. Manni finnst örstutt úr Hrafntinnuskeri þar til Álftavatn birtist. Því miður naut útsýnið sín ekki sem skyldi vegna þokuslæðings. Fram að þessu hafði verið þurrt en nú sá maður regnskúrirnar með fjöllunum hvert sem litið var. Niður með ánni fyrir ofan skálann féllu fyrstu droparnir. Ég stoppaði ekkert við Álftavatn, fór bara í rennuna og hélt svo áfram. Þarna var farið að rigna. Ég sturtaði í mig próteindrykknum og rúllaði áfram. Ég held að ég hafi verið ca klukkutíma og tíu mínútur að Álftavatni. Mér leið vel og hljóp á hraða sem mér fannst mjög þægilegur. Hvanngil birtist fyrr en varði. Þá náði Eiður mér. Hann var mjög léttstígur enda búinn að æfa vel í ár. Hann var ræstur 10 mínútur á eftir mér þannig að hann hafði verið þeim tíma fljótari á leiðinni. Okkar leiðir skyldi við Bláfjallakvíslina en þar ætlaði hann að skipta um skó. Ég hef aldrei veitt mér þann munað enda ekki þurft á því að halda. Sandarnir voru fínir í vætunni og ég týndi upp einn eftir annan á þeim. Það var góð drykkjarstöð á söndunum sem minnti mig á manninn sem stóð þar með tóma tveggja lítra kók þegar við Svanur fórum saman Laugaveginn hér um árið. Þá var allt vatn búið og erfiðleikarnir hrönnuðust upp.
Ég var klukkutíma og 55 mínútur í Emstruskálann og sá að með því að halda vel áfram þá gæti ég náð því að klára hlaupið á 6.30 eins og ég var búinn að segjast ætla að gera, þrátt fyrir hangsið á leiðinni upp í Hrafntinnusker. Þegar gilin voru búin og maður sér niður Fauskatorfurnar sá ég að þetta gat allt gengið upp. Ég náði einum og einum á liðinni niður eftir og allt rúllaði eins og best var á kosið. Sigmundur Ironkappi og konan hans voru með drykki við Kápuna. Það var fínt að skella í sig kókglasi áður en lagt var í hana. Það voru engin vandamál við að stika yfir hana og ég rifjaði upp þegar lappirnar læstust fastar í sinadrætti hér um árið þegar ég tók fyrsta skrefið upp í hana og þar sat ég fastur þar til mér hugkvæmdist að fara að mjaka mér upp aftur á bak.
Ég náði Huld við Þröngána og við kláruðum hlaupið saman með það að markmiði að fara undir 6.30. Það er nauðsynlegt að setja sér smá markmið. Það er alltaf jafnskemmtilegt að ljúka ánægjulegu hlaupi. Þetta hlaup var mitt besta Laugavegshlaup til þessa því að það var ekkert sem kom upp á, engin eymsli í fótum, maginn fínn og allt eins og það átti að sér að vera. Það voru margir komnir í mark á góðum tímum og það var gaman að taka þátt í stemmingunni sem er alltaf skemmtileg í hlaupalok. Framkvæmdin var til fyrirmyndar enda eins gott að standa sig fyrir mótsaðila þegar svo mikil fjölgun varð í hlaupinu. Þetta var nokkursskonar fullnaðarpróf sem þau stóðust með prýði.

En það var ekki til setunnar boðið. Það hafði verið að gerjast með mér sú hugsun síðan í vetur að láta ekki við svo búið standa að klára Laugaveginn heldur að gera úr þessu almennilegan dag, halda áfram og fara Fimmvörðuhálsinn. Ég hafði engum sagt frá þessum vangaveltum fyrr en heima hjá mér kvöldið áður. Ég var því með annan algalla og gönguskó í töskunni og hófst handa um að skipta um föt í snatri. Veðurspáin var ekki góð og ég vissi að Fimmvörðuhálsinn getur verið veðravíti. Þetta var því kannski ekkert voðalega skynsamlegt svona beint ofan í Laugaveginn en þar sem ég var í fínu standi þá ákvað ég að láta slag standa. Þetta var líka ákveðin andleg upphersla að fara úr veislunni í Húsadalnum og halda streðinu áfram. Ég lét vita af mér og var farinn af stað 50 mínútum eftir að ég kom í mark. Maður gengur til baka nokkurn spöl þar til maður kemur að afleggjaranum yfir í Langadal. Á leiðinni mætti ég nokkrum hlaupurum sem ég hafði ekki haft við á leiðinni niður að Álftavatni!! Ég hitti Geir frænda á leiðinni þar sem hann stóð og beið eftir vinkonu sinni. Við spjölluðum saman smá stund en svo pjakkaði ég áfram. Ég spurðist til vegar í Langadalnum en ég rataði ekkert þegar komið var þarna megin í Þórsmörkina því ég hafði aldrei komið á þessar slóðir áður. Það tók mig rúmlega einn og hálfan tíma að ganga yfir í Strákagil þar sem uppgangan á Fimmvörðuhalsinn hefst. Ég fékk mér að borða áður en ég lagði á brattann. Það er nokkuð pjakk þarna upp eins og allir vita sem hafa farið um þessar slóðir. Ég hitti fólk á leiðinni sem sagði að veðrið á hálsinum væri leiðinlegt. Ég hélt áfram og hitti annan hóp. fararstjórinn sagði að það væri skítaveður á hálsinum, allt að 25 m. á sekúndu. Ég sá að honum leist ekkert á að ég væri að fara þarna upp einn míns liðs en sagði að ég gæti þá alltaf snúið við ef ég lenti í erfiðleikum. Ég lofaði því. Mér fannst hins vegar rétt að prófa því hópurinn sem hann var með var á þeim aldri að mér fannst ekki rétt að snúa frá að óreyndu. Eftir því sem ofar dró sá ég að það hafði ekki verið neitt orðum aukið um veðrið hjá fararstjóranum og líklega hafði það versnað síðan þau fóru um. Veðurofsann og rigninguna skóf fram af klettunum í háa hvolfinu. Þegar ég kom þar upp á sléttuna var rokið beint í fangið og þá var ekki hratt yfir farið. Þegar ég kom að Heljarkambinum (eins og ég kann að nefna hann) settist ég niður í hlé við klett, fór í regnfötin sem ég keypti í 66 oN í fyrra áður en var farið á unglingalands UMFÍ. Nú komu þau í góðar þarfir. Lambhúshettuna dró ég á hausinn og setti upp ullarvetlinga áður en ég lagði af stað. Veðurhamurinn var mikill á kambinum. Ég fór yfir hann nær því á fjórum fótum til að vera undir strengnum sem stóð upp úr hvolfinu sunnan megin frá. Svo klöngraðist ég upp hjallann eftir því sem vindurinn leyfði. Þar fyrir ofan tók síðan við annar hjalli með allmörgum vörðum. Nú snerist ferðalagið um að komast á milli varða. Á stundum tommaði maður ekki á móti rokinu og mátti hafa gát á að það svipti manni ekki á hliðina. Það var tæplega mannstætt veður í verstu kviðunum. Þegar ég var kominn nokkuð upp í hlíðina settist ég niður við stein og hugsaði ráð mitt. Átti ég að snúa við eða halda áfram? Ég var vel klæddur, mér var hlýtt og óhrakinn og alveg óþreyttur. Ég hafði með mér þrjár flöskur með Herbalife próteindrykk og þær dugðu vel. Ef ég hefði ekki verið með regngallann með hefði ég verið snúinn frá því þá hefði ég verið orðinn gegndrepa og kaldur. Þetta var ekki þess virði að maður færi að taka neina áhættu í svona ferð. Vindkælingin er það hættulegasta við aðstæður eins og þessar. Maður stífnar og stirðnar fljótt ef manni fer að kólna. Þá missir maður fljótt kraft þannig að maður hefur ekki lengur vald á aðstæðum. Það voru þrjár til fjórar vörður upp á brúnina og ég vildi kíkja upp fyrir því mig grunaði að ég væri að komast upp úr hækkuninni og þar væri veðrið skaplegra. Ég brölti því upp og komst með herkjum upp á brúnina. Það var eins og mig grunaði. Ég var kominn upp og þar var vindstrengurinn miklu jafnari. Ég hélt því ótrauður áfram og vindinn lægði jafnt og þétt. Það var engin þoka á fjallinu þannig að leiðin var greið. Ég stoppaði smá stund við sæluhúsið og lét vita af mér. Það er rétt að gera það ef hægt er þegar maður er í svona ferðum einn síns liðs. Þarna var ég orðinn hálf lens með vatn. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en of seint að það er ekkert vatn að hafa á hálsinum. Ég náði tvisvar að láta renna í flösku í frárennsli úr skafli en annað var ekki að hafa. Það bjargaðist allt en sama er, þetta getur valdið manni vandræðum. Frá sæluhúsinu fylgdi ég vegslóðanum niður að Skógum. Nú var orðið logn og þurrt og hið fínasta veður. Leiðin niður var lengri en mig grunaði. Oft hélt maður að nú sæist ofan á byggðina en alltaf kom einn hjallaskrattinn til viðbótar en loks hafðist þetta. Það var fínt að komast í húsaskjól og geta farið í sturtu. Lítið matarkyns var að hafa í hótelinu en mér tókst þó að ná tveimur bjórum út úr verðinum. Þetta var orðinn nokkuð langur dagur en gangan yfir hálsinn tók tæpa fimm klst. Ég var engu að síður í fínu formi og fann hvergi fyrir þreytu eða strengjum í fótunum. Ég þakka það ekki síst Herbalife próteinhristingnum en ég hafði tekið með mér tvo og hálfan líter með mér til dagsins. Ég veit vel hvað það er að vera með lerkuð læri og orðinn hálf orkulaus eftir langa göngu. Nú var ekkert slíkt á ferðinni.
Ég tók rútuna um morguninn á Skógum í bæinn. Bílstjórinn hafði ekki alveg á hreinu hvað farið kostaði í bæinn. Hann sagðist vita það á Hvolsvelli og þar gæti ég borgað. "Þú hleypur nú ekki langt frá mér" sagði hann. Ég sagði að hann skyldi engu treysta í því sambandi.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir samfylgdina síðasta spölinn. Var búin að gefa frá mér að ná undir 6:30 þegar þú komst eins og frelsandi engill. Var að gá að þér eftir hlaup en þú hefur þá greinilega verið farinn í næsta leiðangur. Þetta kallast að nýta daginn vel! Stórkostlegt afrek. Til hamingju! Kv. Huld

Nafnlaus sagði...

Magnað, bara alveg magnað Gunnlaugur, til lukku með þetta:-)
Svona gera alfuru menn.
ÁJ

Nafnlaus sagði...

Góður: ekki að spyrja að kraftinum
Það er langt síðan þú varst duglegur að ganga man eftir ferð ykkar bræðra þegar þú varst tveggja eða þriggja ára nema þá var enginn regngalli ef ég man rétt
kveðja
Erla frænka

Nafnlaus sagði...

Ja hérna, ég á ekki orð! Þú ert nú meiri jaxlinn..