Ég fór út í morgun á sjötta tímanum. Svefninn var ekki langur því ég settist niður í gærkvöldi og horfði á seinni part myndarinnar um samband rithöfundarins Truman og fjöldamorðingja nokkurs sem ég man ekki hvað heitir. Út úr því samstarfi, sem var dálítið komplíserað ef eitthvað er að marka myndina, kom bókin "With a Cold Blood". Tveir ólánsmenn myrtu fjögurra manna fjölskyldu í Bandaríkjunum í kringum 1960. Rithöfundurinn Truman, sem var vægt sagt dálítið sérstakur, fékk áhuga á málinu og afsprengið var þessi bók. Morðingjarnir voru svo hengdir eftir áralöng réttarhöld og allra handa áfrýjanir.
Það er orðið bjart kl. 6:00 og sólin kemur upp um kl. 7:00. Í logni, heiðskýru og björtu er ekkert nema gaman að skokka úti einn sín liðs. Jói og Gauti gengu á Fimmvörðuháls í gær og voru því löglega afsakaðir. Ég hitti Pál Gíslason, gamlan félaga frá Hvanneyrarárunum, úti í morgun. Þegar við vorum yngri var hann frekar fráhverfur ónauðsynlegri hreyfingu svo ekki sé meira sagt. Svo breytist margt. Fyrir nokkrum árum fékk hann aðvörun. Upp úr því fór hann að hugsa öðruvísi og tók sál og líkama í fóstur. Nú er hann búinn að hlaupa allnokkur maraþon svo og laugaveginn nokkrum sinnum fyrir utan allt annað. Í morgun sagði hann mér að nú væri hann að klára sænsku fernuna. Það er Vasagangan, Lidingöloppet, hjólað í kringum Vättern (eða Vänernen) sem er ca 180 km og svo er 3ja km sund í á. Hann á bara hjólatúrinn eftir og fer hann í júní. Ætli það verði ekki Ironman næst hjá honum. Svona er þetta, menn geta miklu meira en þeir halda.
Opin umræða í bloggheimum (ég hef ekki stigið inn í Facebook samfélagið nema sem áhorfandi) gefur á margan hátt innsýn í þjóðarsálina. Það er ekki allt fallegt sem þar kemur í ljós. Ég man þó varla eftir því að lágkúran hafi orðið öllu meiri en í framhaldi af forsíðufrétt Fréttablaðsins um Fjölskylduhjálp Íslands nú í vikunni. Fjölskylduhjálpin er að úthluta fríum mat. Aðstoðin er ætluð þeim sem þurfa á henni að halda. Aldrað fátækt fólk, öryrkjar og fólk sem er heilsubilað, einstæðir foreldrar og barnmargar fjölskyldur sem geta ekki eða eiga í erfiðleikum með að framfleyta sér á fyrst og fremst að ganga fyrir í þessu sambandi. Þróunin hefur hins vegar orðið sú að í sívaxandi mæli mæta flokkar karla á besta aldri þegar fríum mat er úthlutað og gera kröfu um að fá matarpoka. Kerfið hjá þeim er að sögn þannig að einn mætir snemma í biðröðina og lætur vita þegar byrjað er að úthluta mat. Þá koma fleiri og fara inn í biðröðina fyrir framan þennan eina. Í vaxandi mæli hefur þetta gengið fyrir sig að þeir troðast fram fyrir aðra á þennan hátt. Gamalt fólk og öryrkjar mega sín lítils gagnvart svona yfirgangi og hafa margir úr þessum hópum að sögn gefist upp og horfið frá eftir bið klukkutímum saman fyrir aftan karlahópinn. Konunum sem vinna í fjölskylduhjálpinni hefur ofboðið þetta framferði og reyndu því að bregðast við þessu með því að setja karlafrekjurnar í eina röð og lítilmagnana í aðra. Sagt er að karlarnir hafi verið um 40% af þeim sem sóttu í matargjafirnar. Fréttablaðið komst í málið, setti það á forsíðu og þá varð allt vitlaust. Orðavalið var með ólíkindum. Apartaid, aðskilnaðarstefna, rasismi, fasismi, þjóðernishyggja og ég veit ekki hvað dundi á Fjölskylduhjálpinni. Nú hefur forstöðukona hennar verið virk í stjórnmálum og vera má að ýmsir hafi séð sér leik á borði að ata hana auri á þessum forsendum. Málið var tekið upp í Alþingi samdægurs með miklum upphrópunum. Það hefði nú verið ósköp auðvelt að kanna málið fyrst og átta sig á staðreyndum áður en hlaupið er upp í Alþingi með digrum yfirlýsingum.
Nú er alltaf ásókn í ókeypis gæði. Það er þekkt. Sumum er það minna mál en öðrum að reyna að hrifsa það til sín sem möguleiki er á. Ef erfitt er að halda röð og reglu á stöðum þar sem úthlutun ókeypis gæða fer fram þá ætti borgin t.d. að sjá sóma sinn í því að aðstoða konurnar sem vinna þarna við að halda uppi röð og reglu utandyra með því að senda aðstoðarlið til þeirra í nokkra klukkutíma frekar en að hrökkva í fordæmingargírinn. Það má síðan ekki gleyma því að það hvílir framfærsluskylda á öllum. Það er grunnforsenda. Ef það gengur ekki upp þá kemur aðstoð utan að frá til skjalanna, bæði frá opinberum aðilum og frjálsum félagasamtökum. Það á ekki að láta neinn komast upp með það að ganga í svona matarúthlutanir ef þeir hafa ekki þörf á því. Allra síst að láta einstaklinga komast upp með að halda því fram að þeir eigi rétt á fríum mat frá hjálparsamtökum án tillits til hvernig staðan er hjá viðkomandi. Gott skref fram á við er að fólk sanni það með gögnum að það þurfi á aðstoð að halda.
laugardagur, mars 27, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli