Karen Söder leiddi ríkisstjórn sænsku borgaraflokkana í Svíþjóð á árunum í kringum 1980. Borgaraflokkarnir komust þá til valda eftir áratuga stjórnarsetu sænsku kratanna. Sagt var að borgaraflokkarnir hefðu ekki kunnað nógu vel á stjórnkerfið og stjórntækin. Allavega steig atvinnuleysið og verðbólgan fór óðum vaxandi. Ríkisstjórnin kunni fá ráð við þessum vandamálum en til að gera eitthvað þá setti hún þó alla vega lög þess efnis að það var bannað að selja öl af Klassa 2 í dagvöruverslunum á laugardögum.
Hérlendis er margt í heldur vondum málum, Icesafemálið hefur þvælst fyrir stjórnvöldum misserum saman, atvinnnuleysi er í sögulegu hámarki, gjaldeyrishöft gera atvinnulífinu erfitt fyrir, erlendar fjárfestingar sjást varla, gengi krónunnar er lægra en nokkru sinni, þúsundir heimila eru í fjárhagslegu uppnámi og og ég veit ekki hvað. Stjórnvöld sjá vart fram úr að greiða úr þeim vandamálum sem eru listuð hér að framan en þau hafa þó alla vega ákveðið að banna vændi og að í stjórnum einkafyrirtækja skuli vera ákveðið kynjahlutfall.
Ég hef svo sem áður látið skoðun mína í ljós á þessum málum. Ef ég vil falbjóða mig þá kemur það öðrum ekki við að mínu mati, alla vega ekki þeim sem sitja á Alþingi. Það er ekki fyrr en ef ég færi að þvinga aðrar manneskjur til að selja sig mót vilja sínum að málið er þannig vaxið að löggjafinn á að hafa skoðun á því. Sama er með það hvernig stjórnir einkafyrirtækja eru samsettar. Ef ég byggi upp einhvern rekstur einn eða með öðrum og endar ná saman þannig að fyrirtækið lifir frá ári til árs þá kemur það engum við nema okkur eigendunum hvernig stjórn þess er skipuð. Löggjafinn getur haft skoðun á því hvernig stjórnir opinberra hlutafélaga og stofnana eiga að vera samsettar. Valið getur staðið um ákveðið hlutfall af ungu og gömlu fólki, konum og körlum, hvítum og svörtum, hávöxnum og lágvöxnum, svarthærðum og ljóshærðum, feitum og mjóum og þannig mætti áfram telja en löggjafanum kemur einkageirinn ekki við að þessu leyti. Löggjafinn á hins vegar að standa vörð um að allir hafi jöfn tæki færi til menntunar og annara þeirra þátta sem skipta máli hvað varðar samkeppnishæfi einstaklinganna. Þar held ég að allt sé í þokkalegum málum hérlendis þó vitaskuld megi alltaf gera betur en það má bíða betri tíma.
Kosningarétturinn er einn mikilvægasti réttur einstaklingsins. Okkur myndi alla vega finnast það einhverju varða ef hann væri tekinn af okkur. Þess vegna á maður að mæta á kjörstað og kjósa þegar kosningar eru framkvæmdar á annað borð. Mér finnst það skjóta skökku við í lýðræðisþjóðfélagi að forsætisráðherrann skuli gefa það út að hann ætla að sitja heima á kjördag.
Svo krossar maður vitaskuld við "Nei" á morgun. Íslendingar hafa möguleika í þessum kosningum að senda symbólsk skilaboð frá sér um þann órétt sem þjóðin hefur verið beitt af hálfu Breta og Hollendinga og þann möguleika á ekki að láta ónotaðan.
Það var eitt grenjuviðtalið í DV í dag við Baugsgroup. Nú var það herra Fons. Hann á mjög bágt. Gott er að vera hættur að fjármagna þessi ósköp.
Það hefur verið rysjótt hlaupaveður í vikunni. Snjór og hálka. Það spáir ekki of vel á morgun en það verður alla vega hlýtt.
föstudagur, mars 05, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli